28.6.03

Ég varð hugsi...
... í gærkvöldi þegar ég sat á öðrum af tveimur tónleikum sem sextánda Jazzhátíð Egilsstaða samanstendur af. Þessir tónleikar voru gargandi skemmtilegir, Árni Ísleifs hafði af sinni alkunnu snilld safnað saman ýmsum tónlistarmönnum og æft upp með þeim þrjú prýðileg sett. En...

...ég man þá tíð...
...þegar Jazzhátíð Egilsstaða hófst á fimmtudagskvöldi með geðveiku swingi, á föstudagskvöldinu var blúsað fram á rauða nótt, á laugardagskvöld voru súpertónleikar sem enduðu með djammsession fram á nótt og á sunnudegi og sunnudagskvöldi var slegið fram meiriháttar kanónum allsstaðar frá úr heiminum. Einhverra hluta vegna er búið að fjársvelta elstu jazzhátíð Íslands niður í tvenna tónleika. Það er...

...stórmerkilegt...
að á þessum gífurlegu uppgangstímum sem nú ríkja á Austurlandi skuli menn ríkja peningaleysi í menningarmálum. Árni er að fá skít og ekkert til að halda Jazzhátíð, styrkur Leikfélags Fljótsdalshéraðs frá bæjarfélaginu fór á árinu úr skitnum 350.000 kalli niður í enn skitnari 250.000 kall (sem dugar ekki fyrir hálfum leikstjóra) og allir sem hafa áhuga á því að draga bæjarbúa frá sjónvörpunum sínum rekast á einhvern ókleifan múr þar sem fjármunir eru ekki fyrir hendi. Þetta er sérstaklega athyglivegt...

...í ljósi þess...
...að hér væla menn ævinlega og endalaust um fólksfækkun, sem alkunn staðreynd er að kemur að miklum hluta til vegna þess að mönnum þykir skorta menningarlíf og afþreyingu úti á landi. Svo standa menn og klóra sér í hausunum yfir því hvernig á nú að standa að byggðastefnu. Engum dettur í hug að auka fjármagn til menningarstarfsemi.

Ég veit...
...að hér eru út um allt gangandi menningarhandsprengjur sem eru með milljón hugmyndir í maganum, kjark og þor til að framkvæma, en því miður, enga peninga. Á sama tíma og einhvern veginn er hægt að gera ýmislegt annað smálegt eins og að hafa uppi plön um menningarhús um allt land (undir starfsemi sem hangi hins vegar á horreiminni) byggja milljarða sendiráð í Berlín og svo mætti lengi, lengi, lengi, lengi telja.

Að Lokum...
...vil ég hrósa og þakka öllum þeim sem af gífurlegri ósérhlífni og elju standa í því meira og minna í sjálfboðavinnu að halda úti menningarstarfsemi um allt land. Einkum og sérílagi Árna Ísleifssyni fyrir Jazzhátíðina, svona fyrst það er nú þessi helgi. Ég vona bara að ráðamenn fari nú að vakna af dvalanum og átta sig á því hversu mikilvægur þáttur menningarstarfsemi er í því að halda landinu í byggð.
Ókei. Veit ekki enn hvort ég þarf að setja inn nýtt kommentakerfi þar sem kerfið sem ég nota er niðri. (Eins og svo oftoftoft.) Hef huxað mér að setja nýtt hvortsemer, er búin að vera að njósna um fólk með önnur kerfi sem virka næstum alltaf.
Annars, annar í útihátíð í gærkvöldi, datt íða fram undir morgun, minnir að það hafi verið gaman, er þunn í vinnunni í dag. Hátíðagestir hafa pakkað saman og tekið til eftir sig að hætti Einars Bárðar og eru farnir í einhverjar lúð(r)abúðir.
Brjálæðislega gott veður, fáir þvælast um söfn í dag. Það er nú gott.
Úps, þar fór kommentakerfið. Ef einhver kommentaði í gær, kem ég aldrei til með að vita það. Vona bara að enginn hafi verið óheyrilega fyndinn.
Nýr Blogger, nýtt lúkk. Nýttnýtt.

27.6.03

Hmmmm. Fann út hvar ég breyti prófílnum, en hann vill sýnilega samt ekki samþykkja á... Oh, hell, seinni tíma vandamál.
Í dag ber það helst til tíðinda að ég er þunn sökum útihátíðarinnar Lús og Rass sem haldin var heima hjá mér í gær. Hátíðin dró nafn sitt af hljómsveit sem flestir hátíðagestir starfa í en sú heitir Blús og Brass og heldur tónleika í Valaskjálf í kvöld. Með "útihátíð heima hjá mér" meina ég alveg inni í stofu. Það var tjaldað á ganginum og allt, og svo spilaði hljómsveit. Þetta var að sjálfsögðu í tengslum við jazzhátíð sem er að bresta á með látum í kvöld. Til þess að fullkomna útihátíðafílinginn endaði barnung systir mín niðri á tjaldstæði og ældi í hárið á sér.
Í kvöld verður svo hvergi slegið af, það á að fara á tónleika, þaðan á Nilsen að skoða Heiðu og Nýja Manninn Hennar og óvíst er hvenær vitleysunni linnir. Er samt að vinna um helgina, en það verður að hafa það.

Er að spá í að prófa að búa til innisundlaug úr dagblöðum og súrmjólk a la Sævar Sigurgeirsson, en tími ekki súrmjólkinni.

26.6.03

Undirskriftin mín, sem og allar "persónulegar" upplýsingar virðast vera í einhverju stafarugli ennþá. Hefur einhver komist að því hvernig maður "editerar" það dæmi? Búin að leita og leita...
Ókei. Held ég hafi leyst gátuna um íslenskrastafaleysi, alveg óvart. Maður fer í "settings" og "Formatting" og þar þarf maður að velja tungumál. Hann er nú bara frekar snjall hann Nýiblogger. Svo er ég náttúrulega búin að hljóma alveg eins og fífl með því að senda fyrirspurn. Svona er þetta. Maður á að lesa leiðbeiningarnar fyrst.
Skyldi þetta virka núna?
Íslenskir stafir eru eitthvað ekki að gera sig á þessu nýja bloggi. Er búin að senda athugasemd, sem og örugglega margir aðrir.

24.6.03

Ekki er nú vitleysan búin þó heim sé komið. Erum að skipuleggja útihátíð í kjallaranum á fimmtudagskvöldið í tilefni þess að Ásta kom með tjald.
Hmmmm? Er að fara á tónlistarmarkað að kaupa disk með lagi með Jeff Buckley sem er búið að klingja í hausnum á mér síðan snemma í skólanum. Það er reyndar eitt sem fer í taugarnar á mér við það, en það er þetta "hallelujah" viðlag sem lætur það hljóma eins og einhvern hvítasunnistasálm. Þess vegna við ég biðja Togga að spá alvarlega í þetta með íslenska textann um Halla Lúðu.
Annars er ónýtskan að rjátlast af manni. Holdið reyndar ennþá frekar veikt og andinn ofvirkur, en þetta jafnar sig nú allt.

23.6.03

Og alltaf kemur maður jafn snarofvirkur heim af blessuðum skólanum. Nú breggður svo við að við Dúrra vinnum í sama húsi og hefur gengið á með breinstormi í allan dag. Ég held við séum langt komnar með að skipuleggja örverkaprógram sem er að þróast yfir í leiklistarhátíð eftir því sem okkur detta fleiri verk í hug sem okkur langar að bjóða í heimsókn. Svo eru hér líka eitthvað svo mýmörg leikrými, m.a. einn fljótabátur, leiksvið uppi í skógi, eitt kaffihús sem verður með viðbættu sýningatjaldi í garðinum í sumar auk náttúrulega "eðlilegs" félagsheimilis. "Þó oss skilji hábrýnd heiði" væri svakalega gaman að fá fólk í heimsókn. Þetta er hins vegar alltsaman á algjöru frumstigi umræðunnar, t.d. ekkert búið að ræða við leikfélagið eða neitt. En, þar sem við Dúrra erum báðar snarbilað fólk er aldrei að vita hvað verður úr.
Leikum núna!
Góðir hálsar
Það var ekki að ástæðulausu að ég fór í fýlu fyrsta kvöldið á skólanum. Það kvöld var ég fyrst í gufuna og sat þar og nöldraði við sjálfa mig: "Jájá, strax einn dagur búinn. Ætli maður þekki þetta ekki. Nú verður skólinn búinn áður en maður veit af." Og hvað gerðist? Nú er hann bara búin. Og það sem meira er, ég er ekki að vinna á Bandalaginu eða neitt lengur, bý meira að segja einhvers staðar lengst úti í rassi og bala, er ekki að fara að leika í Draumi á Jónsmessunótt í Elliðaárdalnum, eins og svo margir skólafélagar mínir eru að fara að afeitra sig með eða neitt.
Allt sem gerðist síðan ég bloggaði síðast var gargandi snilld. Á lokadaginn var haldin örleikritahátíð sem hér "Samviskustykki", en við fengum það verkefni að skrifa verk sem höfðu með samvisku eða samviskubit að gera. Ég skrifaði hins vegar um samviskuleysi, stykki sem mér fannst bara ganga vel upp í leikstjórn Júlla Júll. Svo var ég að leika hjá Togga í leikriti eftir Hermann og skemmtum við okkur konunglega við það og þróuðum m.a. mikinn matarsplatter. Við fengum sumsé tvo og hálfan tíma til að æfa og svo var bara sýnt. 11 ný verk litu dagsins ljós og eitt þeirra var sett upp tvisvar. Það var ótrúlegt að sjá þetta.
Annars er hér gargandi blíða, Ásta er í heimsókn hjá mér og ég sé fram á skemmtilega viku þar sem heimili mínu verður endanlega breytt í gistiheimili. Foreldrarnir eru í Skotlandi (að heimsækja mig) og Bára er að fá haug af klikkuðu tónlistarfólki í heimsókn í kringum næstu helgi, en þá er djasshátíð.
Þannig að lífið er ekki búið, það skipti bara aðeins um takt og lit.
Ég vil þakka öllu því dásamlega fólki sem ég var að leika við síðustu viku fyrir samveruna, ef eitthvað af því skyldi villast hér inn.