3.12.05

Úff

Er orðinn mjög illhreyfanleg.

Held ástandið sé alveg að fara með heimilið. Rannsóknarskip er uppfyrir haus í verkefnum en er nú samt gjarnan eins og útspýtt hundsskinn að þjónusta mig, innan heimilis sem utan, með augnlokin á hælunum.

Og Smábátur varð frekar undarlegur á svip um daginn þegar ég ætlaði að rétta honum stærðfræðiheftið hans, en hann fékk í staðinn hefti af ljósritunum glærum úr fæðingarfræðslunni... Aukinheldur veit ég ekki alveg hvort hann hefur kannski hvort sem er beðið tjón á sálu sinni, búandi á heimili þar sem bæklingar um brjóstagjöf, grindarbotnsæfingar og þvagleka liggja um alla íbúð.

Sjálf geri ég ekkert gagn. Fékk óþægðarkast í gærkvöldi og tók til, á meðan Rannsóknarskip var að stýra ljósum á sýningu. Almættið refsaði með aðstoð Satans og í dag ligg ég bara eins og öjmingi með grindverk.

Og Kafbátur er farinn að mótmæla kröftuglega þegar ég legg lapptoppinn á bumbuna á mér, þannig að það er vissara að hætta áður en hann sparkar græjunni fram á gólf.

2.12.05

Hvað er þetta með jólasveina?

Ætli sé til einhver vitræn skýring á því að þeir eru, margir hverjir, svona hrollvekjandi leiðinlegir? Menn sem leggja í vana sinn að leika jólasveina virðast svo gagnteknir að það hvarflar ekki að þeim að ekki sé hver sem á heyrir jafn áhugasamur. Ég er búin að temja mér einstaklega ruddalegt viðmót gagnvart þessum þjóðflokki. Hef hvorki tíma til, né áhuga á, að standa kannski hálfan morguninn og hlusta á reynslusögur úr "starfinu". Eða lannnnngar útlistanir af ævintýrum með skegglím.
Held ég sé að verða búin að þróa með mér gífurlegt ofnæmi fyrir jólasveinum. Huxa að ég leiði Kafbát í allan sannleikann um málið strax við fæðingu.

Annars hafa þau stórtíðindi gerst að ég og systkini mín ákváðum að gerast viðskila í jólagjöfum í ár. (Þ.e.a.s., ég og systur mínar... við ættum nú kannski að láta litlabró vita af því...?) Hingað til höfum við alltaf gefið hverju öðru og foreldrunum sameiginlega, en nú verður gerð breyting á þar við erum allt í einu orðin 50% útgengin, sem eru undur og stórmerki. Sem þýðir að við fáum öll miklu fleiri pakka! Jeij!

Og í fleiri undra og stórmerkisfréttum er það að mennirnir á næsta þaki hafa bara ekkert borað í hausana á okkur í dag. Mér líður eins og ég sé heyrnalaus. Hefði nú samt kannski alveg þegið að láta borhljóðin yfirgnæfa jólasveinsófétið sem pirraði mig í morgun.

Af ástandinu er annars ekkert að frétta. Við Rannsóknarskip erum á foreldrunarnámskeiði. Erum búin að læra allt um dópið sem hægt er að fá í fæðingu og erum margs vísari. Kafbátur er farinn að standa alfarið á haus og stækkar gífurlega þessa dagana og stefnir í að fæðast um fermingu ef fram heldur sem horfir.

Mamma mín segir að hann fæðist á milli jóla og nýjárs, hvað sem hún hefur nú fyrir sér í því, og ég er að huxa um að fara alveg að opna veðbankana.
Áveðjanlegir þættir eru kyn og fæðingardagur. Og í sjálfu sér gæti fæðingarár verið með? Sá sem hefur réttast fyrir sér vinnur titilinn Spámaður Fjölskyldunnar og verður jafnan ónáðaður í framtíðinni ef sjá þarf fyrir stórviðburði.

1.12.05

Fyrstides!

Mér finnst fyrsti desember alltaf vera hátíðisdagur. Þegar ég var lítil var frí í skólanum á þeim degi. Þegar ég var mjög ung og heimsk hélt ég að það væri alveg pottþétt vegna þess að amma mín ætti afmæli. En það á hún! Hún amma Sigga er 83 ára í dag. Sendi henni hugheilar afmæliskveðjur á heilbrigðisstofnun Austurlands, Egilsstöðum.

Nú er að verða 1 og hálft ár síðan hún flutti búferlum þangað sökum heilsubrests. Þegar ég var lítil vann hún við að skúra sjúkrahúsið. Þar áður vann hún þar líka við að passa hvítvoðunga á nóttunni, á meðan enn var til siðs að nýbakaðar mæður fengju að hvíla sig eftir fæðingar.

Það er sem sagt eins og hún hafi flutt í vinnuna.

Svo mundi ég í morgun að foreldrar mínir áttu 37 ára brúðkaupsafmæli í gær. Talaði við mömmu í gær og mundi ekkert eftir að óska henni til hamingju. Enda hefur hún sjálfsagt ekkert munað eftir því heldur, frekar en nokkurn tíma áður. Það er nefnilega svo skemmtilegt með þessi hamingjusömustu hjón sem ég þekki, pabbi minn týndi giftingahringnum sínum fáum árum eftir að hann setti hann upp. Mamma fitnaði á puttunum við barneignir og hætti að ganga með sinn. Og þau sjá enga ástæðu til að halda sérstaklega uppá að þau séu gift, á hverju ári. Ekki einu sinni þegar það eru "merkis". Mér finnst það ógurlega rómantískt.

Og einhver mætti nú samt gefa mönnunum á næsta þaki frí í dag. Þeir eru að bora og saga þannig að maður heyrir ekki sjálfan sig huxa, þriðja daginn í röð. Mikið ógurlega verður mar nú hissa og feginn þegar það verður búið að gera það sem menn ætla á lóðinni þar sem Stjörnubíó stóð einu sinni. Hávaðanum hefur varla linnt þar síðan verið var að brjóta upp fyrir nýjum neðanjarðarsal þar í kringum 2000. (Sem var rétt áður en allt var svo rifið með manni og mús.) Nú eru sem sagt að verða 5 ár síðan mannsins mál hefur heyrst hér á skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga.

Ekki skrítið að við séum orðnar geðvondar og heilaskemmdar.

30.11.05

Jóló?

Var að fletta plötutíðindum í gær, svona frekar annarshugar þar sem mig langar sjaldan í plötur fyrr en þær eru orðnar gamlar. (Með Það besta við jólin og Jólaævintýri Hugleiks að undantekningum, uððitað.) Allavega, eftir nokkur flett fór ég að taka eftir því að hann Sveppi litli er bara á öðru hverju umslagi í ár. Fylltist móðurlegu stolti.

En þegar maður spáir í það er hann auðvitað einstaklega jólalegur náungi.
Og þá dettur mér í hug ein lítil Montpellier-saga.

Við vorum í partíi hjá Reyni og Aðalsteini. (Tveimur öðrum Mont-sonum mínum.) Mikið stuð hjá Íslenskum námsmönnum þess vetrar og þeirra nánustu félaga, þetta regnsama kvöld. Vill þá svo óheppilega til að pabbi Reynis hringir. Í heimasímann sem er í miðju partíinu. Við hljóðnum og prúðnum hið snarasta, pabbi hans Reynis er nebblega prestur, og okkur þótti allt í einu mjög nauðsynlegt að hann sæti heima á Íslandi í þeirri trú að Reynir sæti einn heima, hljóður og prúður, þetta föstudaxkvöld.

Ekki gat nú áðurnefndur Sverrir þó setið lengi á sér, og fór bráðlega að óþægðast. Við reyndum að skamma hann, en strákur hélt nú bara áfram að vera með óþægð og sagði:
"Og hvað haldiði að hann geri? Kemur hann?"
Og ég sagði: "Nei, hann sendir Guð!"

Í þann mund gerðist þrennt. Það kom geðveik elding, rafmagnið fór og einhver braut glas. Held kannski að við höfum öll borið pínulítið meiri virðingu fyrir, ja, allavega þeim kaþólska, þareftir.

Sambandið slitnaði líka við séra Hjálmar, og þegar það komst á aftur voru allir hættir að vera þægir þannig að það komst upp um allt saman.

Og Sveppi hefur sennilega bara fyllst þessari líka guðhræðslu. Hann er allavega kominn framan á annan hvern jóladisk...

29.11.05

Þetta helst:

Það er komið á hreint. Nokkuð endanlega, held ég bara. Mér er búið að vera að sýnast þetta, annað slagið í vetur, en í gær, í Grandi-Vogar, fékk ég staðfestingu sem ekki verður um villst.

Ég sá þrjár unglingsstúlkur úti á götu með íþróttabuxurnar kyrfilega girtar ofan í sokkana. Ég fékk margfalt flassbakk og minntist almenns fótabúnaðar úr gaggó.

Þegar heim kom beið mín síðan óvænt kynjamismunun. Bæklingur frá Smáralindinni þar sem mönnum er ráðlagt hvað skal gefa í jólagjafir. Og niðurflokkað, m.a. eftir kynjum. Frekar eru þetta nú óspennandi jólagjafahugmyndir svona yfirhöfið. En samkvæmt þessu hefur kvenfólk almennt ekki áhuga á neinu nema útlitsvörum og búsáhöldum af leiðinlegra taginu. Og bókum eftir konur. Konur gætu viljað fá kökudisk, en kallamegin er pizzuhnífur. Karlmenn gætu líka viljað fá tæki og tól til áfengisneyslu og það verður nú að segjast að þeirra bókmenntir eru talsvert meira spennandi en kjeeellingabækurnar.

Það er nefnilega það. Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna.
Á hvaða öld erum við eiginlega?

Og þar sem ég var alveg að komast á barm taugaáfalls yfir öllu sem gera þyrfti í undirbúningi barns, kom Rannsóknarskipið til mín í vinnuna í gær og reddaði bóxtaflega öllu. Fæðingarorlofspappírar eru á hraðri leið í Tryggingastofnun, við höfum fest leigu á rúmstæði undir afkomandann fyrstu mánuðina og svo bætti Nanna um betur og sagðist eiga bílstól til að lána mér þangað til hún þarf að nota hann sjálf. (Sem sagt... fyrir barnið... ekki Tomma litla... sem ætti þó vissulega að koma til greina sem nafn á barnið.) Það er greinilega mjög sniðugt ef menn hafa svona 6-12 mánuði á milli barna innan kunningjahóps, þá er bara hægt að láta kittið ganga. Sniðugt.

Svo fann ég líka um daginn fyrirbæri sem heitir BabySam, en þar er hægt að leigja næstum allt sem við á að éta, á skítogkanil. Eiginlega bara allt nema krakkann sjálfan. (Já, hina grindkvalina er stundum hægt að pumpa um upplýsingar.)
Þetta finnst mér hið sniðugasta mál. Man alveg hvernig fór t.d. fyrir barnadótinu á mínu bernskuheimili. Það tók upp pláss í geymslunni þangað til mamma var orðin úrkula vonar um að eignast barnabörn, þá var það selt fyrir slikk og/eða fór á haugana. Og ég á ekki einu sinni geymslu þannig að ég get ekki leikið þetta eftir.

27.11.05

Ekki dugar

að láta bloggið drepast ofan í horið á sér.

Er öll að skríða saman. Rannsóknarskip að ryksuga. Smábátur hjá ömmu sinni og afa. Var sjálf að komast að því að það er sulta á tölvunni minni, einhverra hluta vegna.

Fórum á meira námskeið í gær. Fengum útlistanir á því, í mjög ítarlegum smáatriðum, hvernig fæðingar ganga fyrir sig. Það var... áhugavert. Svo fengum við að sjá fæðingadeildina. Held ég sé nú eiginlega byrjuð að fá pínulítinn vott af kvíðakasti, svona innst inni. Hugga mig við að þetta á nú víst ekki að gerast fyrr en "einhvern tíma á næsta ári."

Eftir þennan truflandi morgun náði ég niður taugunum með því að jóla heima hjá mér. Eða öllu heldur aðventa. Gerði vörutalningu á aðventuljósum heimilisins og raðaði þeim útum allt af kvenlegu innsæi. Ofan á rykið, af því að ég nennti ekki að þurrka það neitt vel. (Dulbý letina með því að ljósmóðirin mín er löngu búin að harðbanna mér að þrífa fyrir jólin. Það er með því fallegra sem hefur verið sagt við mig.)

Á meðan á aðventinu stóð hlustaði ég að jóladiskinn hennar dr. Tótu, Það besta við jólin. Hann er svakalega góður og skemmtilegur og ég mæli með honum. Þeir sem ég ætla að gefa hann í jólagjöf mega samt alls ekki versla sér hann sjálfir. Það er svindl.

Og Rannsóknarskip ryksugar bara og ryksugar. Nú er líklega best að halda áfram að þýða svo mar fái ekki samviskubit.