1.9.07

Horsögur

Ég vorkenndi Freigátunni óstjórnlega mikið á miðvikudaginn. Og í gærkvöldi vorkenndi ég henni ennþá meira, eftirá. Þessi flensa er Reglulegt Óbermi. Í gærkvöldi fann ég til í hálsinum, öllum beinunum og í hvert sinn sem ég hnerraði flugu horflykki á stærð við hausinn á mér um loft og veggi. Ojbara. Mér var skapi næst að gera eins og dóttir mín og grenja í einn sólarhring og gubba svo úr óhamingju. Það er langt síðan flensa hefur haldið fyrir mér vöku.

En það var þó nokkuð hughreystandi að þessi flensa er ekki lengi að ganga yfir. Ég er strax öll að skríða saman og Freigátan er í dag hita og horlausm að mestu. Sem er ágætt. Hún er nefnilega svo pjöttuð að hún lætur snýta sér stanslaust. Hún verður aldrei eitt af börnunum sem getur leikið sér heilan dag með hor í öllum regnbogans litum niður á höku. Á degi tvö var henni reyndar orðið of illt í nefinu til að það mætti snýta neitt. Og það var einmitt daginn sem horið var hvað grænast og fór einstaklega illa við sófasettið, svo af því urðu nokkur áflog. Þegar nokkuð var liðið á daginn ákvað hún að koma mér í skilning um hvað vandamálið væri. Hún tók um nefið á mér, setti síðan hendurnar fyrir sitt nef og sagði: Æ, æ! Semsagt: Mamma þetta er vont! Í gær var síðan horið á hröðu undanhaldi svo nú er hún með andlitsbómul og þerrar nefið á sér sjálf, með einkar hefðarlegum tilburðum. Í tíma og ótíma.

En þetta var sem sagt bara eins og að lenda fyrir meðalvörubíl og vonandi sleppur karlþjóð heimilisins við þetta. Smábátur er að skemmta ömmu sinni um helgina, og hefur þar að auki verið duglegur að halda sig frá horvellinum svo ég vona að hann sleppi. Rannsóknarskip er duglegur að passa Freigátuna í dag og ætlar með hana út í bæ að horfa á fótbolta svo Móðurskipið geti jafnað sig.

Allt á uppleið.
Best að fara að þýða hommamynd.

31.8.07

Neibb

Ekki komumst við á leikskólann í dag. Freigátan ennþá með nokkrar kommur og ég komin með kvefið hennar. Öll fjölskyldan hlakkar gífurlega til helgarfrísins sem hefst hjá Rannsóknarskipi eftir nokkra klukkutíma. Þá fær hann að vera hjá okkur og við að hafa hann. Í heila tvo daga. Gífurlega erfitt að eiga allt í einu svona vinnandi mann. Og ekki minna erfitt að vera svoleiðis, sýnist mér.

Leikritaráðgátunni lyktaði með því að eftir að öll póstforrit sem ég hef aðgang að voru búin að þverneita að senda skjal á forminu celtx, tóxt mér einhvern veginn að galdra það yfir á pdf og koma því í tölvuna sem talar sama tungumál og prentarinn. Leikritsskömmin, sem ég var búin að hafa heilmiklar áhyggjur af að væri of langt, reyndist vera heilar 29 blaðsíður. Vantar reynar enn alla tónlist, sem verður heilmikil, og sumir svigar gæti ég trúað að væru nokkuð lengi að leikast. Og svo skrifa ég þá væntanlega bara inn allt sem ég ákvað að sleppa.

Jæja. Stubbarnir.

30.8.07

Minnkandi veiki

Freigátan virðist ekki ætla að vera lengi að þessu. Eftir að hafa reyndar verið dugleg að vekja okkur í nótt, stundum með allt að 40 stiga hita, er hún orðin næstum hitalaus og er að huxa um að sofa í allan dag. Sem er alveg kærkomið af minni hálfu. Rannsóknarskip er að reyna að hafa stjórn á áttundubekkingum í Hagaskóla með augnlokin á hælunum, en það getur nú ekki verið gaman. En nú virðist þetta allt vera á leið til bötnunar og ef svo heldur sem horfir förum við og höldum aðlögun í leixkólanum áfram á morgun.

Amma-Freigáta kom í heimsókn í hádeginu, í leiðinni á fund. Svo ætla ég að reyna að ná í Huggu móðu og gá hvort hún gæti mögulega passað fyrir mig svo ég komist í grindhvalasund á morgun. Og talandi um það, ein úr síðasta bumbusundhópi er ein þeirra fjölmörgu sem ætlar að eignast barn um svipað leyti og ég og ætlar að vera aftur samfó í sundinu. Skenntlegt. Annars fer ég að hafa áhyggjur af því að það verði galið að gera á fæðingardeildinni í febrúar og mars og maður þurfi kannski bara að fæða frammi á gangi eða úti á bílastæði með aðstoð tælenskumælandi sjúkraliða.

Og eitt leikritunarvandamál. Nú er laumuleikritið allt að verða nokkurn veginn eins tilbúið og það verður án þess að ég láti lesa það fyrir mig. Og forritið Celtx er alveg að rúla. Fyrir utan eitt. Þegar ég ætla að komast að því hvað ferlíkið er langt þarf ég að velja eitthvað sem heitir "enable paging". Þegar ég geri það þá gerist nokkuð undarlegt. Á ákveðnum stað í verkinu fer prógrammsgerpið að búa til endalaust margar auðar blaðsíður. Þær hafa komist upp í fimmtánhundruð og eitthvað áður en ég stoppa dæmið. Ég er búin að prófa að eyða staðnum, blaðisíðunni, atriðinu, en allt kemur fyrir ekki. Celtx uppástendur að einmitt þarna skuli vera takmarkalaust margar auðar blaðsíður. Og á meðan það lætur þannig veit ég ekki baun hvort ég er með í höndunum fjögurra tíma maraþonlanghund eða einþáttung. Geri mér gjörsamlega enga grein fyrir því. Og er orðin frekar forvitin.

Þannig að, í stað þess að leggja mig núna ætla ég að prófa að dánlóda forritinu í tölvu Rannsóknarskips og senda sjálfri mér ritið og gá hvað gerist. En þetta er allavega í fyrsta sinn sem ég skrifa yfir fimmtánhundruð blaðsíðna leikrit!

29.8.07

Veiki

Fyrsta leikskólaflensan var ekki lengi að finna okkur. Freigátan er með 40 stiga hita og hor, og svo gubbaði hún áðan út um allt, svona til að leggja áherslu á ástandið. Hún svaf illa í nótt og ekkert í dag, fyrr en núna, svo húsmóðurskipið er orðið heldur en ekki hálfgeðveikt á horþrifum og gubbuskúringum. En Herskipið Freigáta er nú ekki vön að vera lengi í slipp svo við búumst við skánandi ástandi strax á morgun.

Mikið er maður annars heppinn að eiga börn sem eru næstum aldrei veik. Þetta gæti nú alveg örugglega orðið þreytandi til lengdar.

28.8.07

Einnar-Evru-Ipoddurinn

Í öllu hafaríinu með franskættaða tölvukvikindið var ég alveg steinbúin að gleyma því sem ég átti að fá í kaupbæti. Ég fékk nebblega svona bleðil úti á götu í Montpellier sem á stóð að gegn framvísun hans gæti ég fengið ipod shuffle á eina evru, ef svo ólíklega vildi til að ég keypti mér fartölvu í búðinni sem ég var einmitt að fara að kaupa mér fartölvu í. Þegar ég verslaði síðan gripinn voru ipoddarnir búnir í augnablikinu (týpískt) og afgreiðslumaðurinn lofaði að senda hann á eftir mér til Íslands, í næstu viku (og ég huxaði...jájá. Þegar svín fljúga).

En svín hafa flogið. Eða svo gott sem. Nú er ég komin með bréf frá tollgæslu Póstsins þess efnis að ég eigi hjá þeim dularfullan, og oggolítinn, pakka frá útlöndum. Mig grunar að þarna sé poddurinn kominn. Algjörlega þvert á mínar væntingar, en þó samkvæmt franskri stundvísi. Núna er einmitt komin vikan á eftir júnílokum, samkvæmt henni. Og ég er búin að finna kvittunina sem á stendur að fyrirbærið hafi kostað nákvæmlega 0,84 evrur. Spurning hverju þeir smyrja á hann. Ég hef ekki kynnt mér verð á shufflurum, en ég veit að þeir eru algjörlega úreldir síðan nanó kom.

Það fyndna er að mig hefur aldrei langað í ipod. En ætla að gá hvort ég nenni að nota hann í ræktinni, ellegar gefa hann Rannsóknarskipi. Hann getur þá hlustað á hann í tímum þegar hann nennir ekki lengur að hlusta á unglinginn.

Sumarið

Gummi Erlingx gerði yfirlitsgrein um sumarið á sínu bloggi. Mér finnst það sniðugt og ætla að herma.
Í heildina séð var sumarið hjá mér afmenningarsumar.

- Byrjaði sumar á að hætta í stjórn Hugleix.
- Sá ekkert í leikhúsi í sumar. Ekki Dýrin í Hálsaskógi, ekki Leikfélagið Sýni, ekkert hjá Frú Normu. Og skammast mín ekki einu sinni.
- Lét menningarnótt algjörlega framhjá mér fara, sem og alla menningarviðburði sumarsins.
- Endaði sumarið á að hætta að vinna hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga.

Ómenningarlegra verður það varla.

Fékk reyndar viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Héraðsbúa fyrir "framúrskarandi störf að leiklistarmálum".
Getur maður þá ekki einmitt hætt?

Fór með fjölskylduna til Frakklands og gerðist lögbrjótur og svikari við ríkissjóð þegar ég gerði óheiðarlega tilraun til að smygla tölvu úr smiðju Appúl til landsins. Skammast mín heldur ekkert fyrir það. Lengur.
Var annars bara með sólarhringsógleði vegna óléttu og þunglyndi vegna Frakklands, í Frakklandi. Hitti samt fólk sem ég þekkti, og lofaði að halda sambandi við, og er ekki að standa við það mikið.
(Nema við konuna sem er að fara að eiga barn um svipað leyti og ég. Nema hún þarf að eiga það í Frakklandi. Þar má aðeins fæða börn í einni stellingu. Það stendur líklega í stjórnarskránni.)

Var eitthvað fyrir austan og norðan, samt alls ekki nóg.

Fór í tvö brúðkaup, sem er persónulegt met á einu sumri.

Stundaði uppeldi á tveimur börnum og hóf ræktun á einu enn.

Skrifaði leikrit, alveg undir það síðasta, sem er komið á alvarlegt deddlæn. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að ég settist og samdi þessa vitagagnslausu færslu um sumarið. Líklega kemst ekki almennilegur skriður á leikritunarmálin fyrr en mig fer að vanta afsökun fyrir því að vera ekki að læra.

Jæja. Kannski gerist eitthvað í kvöld... Allavega ekkert í sjónvarpinu... En ég ætti nú kannski að hringja í mömmu...?

Dagur 2.

Í dag var annar dagur aðlögunar Freigátu að leikskólanum. Við mættum um níuleytið og svo var Móðurskipinu uppálagt að láta sig hverfa í hálftíma. Hann brúkaði ég til að láta athuga barnið í sjálfri mér. Ofurlítil Duggan framleiddi hraustlegan hjartslátt og sýndi þannig fram á að hún væri á sínum stað. Sem var eins gott. Það var eina vísbendingin. Allur blóðbúskapur Móðurskips er algjörlega laus við hverslax skorti, ekki hefur bæst eitt gramm á þyngdina síðan í síðustu skoðun og blóðþrýstingurinn 100 yfor 60 þykir bara fínt á góðum degi og fáheyrt á fimmta mánuði meðgöngu. Svo allt er í ljóma.

Freigátan lét sér fátt um finnast, bæði þegar ég kvaddi og fór og kom aftur. Þegar við komum í leikskólann hljóp hún á undan mér inn á deild um leið og hún var komin úr útifötunum og var þar hrókur alls fagnaðar. Svo var hún líka hin auðsveipasta þegar átti að fara heim og er nú búin að borða hálfan heiminn og svo erum við að fara að leggja okkur. Á morgun verðum við í hádegismat á leikskólanum og allt!

Og, for something completely different, ég þarf að gá hvort prentari heimilisins vill tala við Míka. Sem mér er reyndar stórlega til efs. Og þá þarf ég að kaupa mér makkaprentara. Svo þarf víst að taka loka trukk í leikritinu. Kannski maður helli sér uppá kaffi í staðinn fyrir að sofna með Freigátunni, til að nota tímann áður en Smábátur og félagar ryðjast inn eins og nokkrir fellibyljir.

Sælan að vera (hús)móðir.

27.8.07

Dagur 1.

Þá er Freigátan byrjuð í aðlögun á leikskólanum sínum. Hún grenjaði svolítið í byrjun, en það var nú bara vegna þess að við þurftum að fara framhjá róluvellinum og inn. Um leið og inn var komið og hún sá hina krakkana og dótið, gleymdi hún tilvist móður sinnar sem fékk bara að dunda sér við að fylla út allskyns eyðublöð í ró og næði. Svo var farið út á hinn langþráða róló með öllu liðinu og það var nú bara stuð. Í dag var bara klukkutími. Á morgun verða tveir og Móðurskipið lætur sig hverfa í hálftíma af þeim, sem verður brúkað í mæðraskoðun.

Að öðru leyti er búið að þvo þrjár þvottavélar, kaupa inn til hálfs vetrarins, pakka upp úr megninu af töskunum og haga sér á allan hátt húslega. Þá er bara eftir að elda kvöldmatinn og ilja inniskóna húsbóndans áður en hann kemur þreyttur heim úr vinnunni.

26.8.07

Vorum að detta inn

Erum að berja börnin í bælin. Það var fínt hérna þegar við komum inn úr dyrunum. Það er ekki þannig lengur. Við Freigáta förum í fyrstu heimsókna á leixkólann í fyrramálið. Kallarnir á heimilinu fara í skólann. Annar þarf að hafa leikfimiföt. Man ekki hvor.

En nú skellur sumsé húsmæðrun á af fullu trukki. Hef huxað mér að taka flóttakast frá henni einhverntíma í vikunni og fara og eyða tugum þúsunda í skólabækur. (Og þegar maður á erindi í Bóksölu stúdenta er aldrei að vita hvað fleira laumast með.) Og svo þarf nottla að klára leikritið. Nokkurn veginn. Sem er örugglega ekkert svo mikið mál.

Er að tapa mér og skipuleggja yfir mig.
Bezt að hætta því.