6.10.07

Laugardaxtjill

Þetta er nú meira ruglið. Tími á laugardegi. Mæting klukkan 10. Ekki bara það, Margt smátt laugardegi. Þetta er greinilega ekki Alheiminum þóknanlegt. Fyrst var stofan sem við áttum að vera í læst, þannig að við biðum og biðum á meðan kennarinn eipaðist um alla byggingu að leita að húsverði. Og svo virkar ekki skjávarpsgræjan. Og núna er klukkan að verða hálfellefu og kennarinn er í símanum að reyna að ná í einhvern.

Ég held sé kominn tími til að slá dæmið af.

Ég er þaraðauki mjög stressuð inni í mér. Eló mágkona er að koma til að leika á Mörgu smáu og Hugga Syss er að koma um hádegið og passa Freigátuna á meðan afgangurinn af fjölskyldunni leikur á Mörgu smáu. Og ég er einhvern veginn alveg viss um að skipulagið á þessu fer allt í klósettið ef ég er ekki á staðnum að stjórna. Ég meina, allir þurfa að borða eitthvað og vera í fötum! Gaaa!

Nei, djók. Ég ætti auðvitað að vera alveg sultufegin að vera einmitt ekki heima á meðan allt þetta gengur á. Sitja bara og tjilla í skólanum og hlusta á fyrirlestur og vera svo í einhverju hópastarfi um fræðitextana sem við eigum reyndar ekki öll að þýða... allavega, misgáfulegt, en örugglega rólegra en hasarinn heima.

---

Svo eyddist fyrsti dagurinn í manna minnum sem ekki var rigning í Árnagarði, hinum eystri. Við Duggan urðum reyndar þeirrar ánægju aðnjótandi að hjóla báðar leiðir í sólinni (og garranum).

Í Árnagarði hinum vestari var síðan ofurfrænkan búin að vera að passam og þrífa í kaupbæti. Ennn hvað ég þarf að gefa Huggu syss/móðu oftar lausan tauminn á heimilinu. Reyndar fær hún Rannsóknarskipið lánað á morgun, í staðinn, í flutninga. Hún er að flytja í vesturbæinn. Í Kópavogi. Í Kársnesið, nánar tiltekið. (Það var nefnilega þegar þeir fréttu að hún væri á leið á svæðið, með allan sinn blóðþrýsting, að hætt var við stórskipahöfnina og allt það.)

Og nú er líklegast farið að síga á seinni hlutann á Marga smáa leikaraskapnum í Borgarleikhúsinu. Við Freigáta erum reyndar að hafa það svo náðugt hérna í hreinu íbúðinni að við kærum okkur mest kollóttar. Syngjum bara Afi minn og amma mín, og Allir krakkar, og hömumst við að rusla til aftur.

5.10.07

Mér finnst rigningin... alltaf

Í dag er geðheilbrigðisdagurinn. Í tilefni þess ætla ég að hnýta svolitlu og leiðinlegu um unglingadrykkju.
Þegar ég var í menntaskóla og háskóla drakk ég bara alveg fullt. Og oft. Og það var allt í lagi af því að það gerðu það allir. Svo hefur skotið upp kollinum eitt og eitt geðrænt vandamál. Gjarnan félaxtengt. Nú hef ég ekki snefil af rannsóknum á bak við mig, en stundum hvarflar að mér að huxanlega ætti ég ekki við jafnmikil geðræn og félaxleg vandamál að stríða, hefði ég ekki notað og misnotað áfengi svo mikið á þeim miklu félagsmótunarárum sem aldurinn 16 - 23 ára er... Það er nokkuð rökrétt að menn sem styðjast við örvandi/deyfandi/skemmtilegandi lyf í flestum félagslegum kringumstæðum á meðan þeir eru að þjálfa færni sína í þeim hinum sömu, verði kannski ekkert sérstaklega góðir í þeim.
Og nú er miðaldra fyrsta kynslóðin sem ætti kannski að hafa einhverja hugmynd um þetta. Foreldrar mínir ólust upp fyrir tíma unglingadrykkju. (Eða svo segja þau, allavega ;-) En ég huxa að ég reyni að leiða mínum unglingum hættuna á því arna fyrir sjónir.
Þó maður geti svo sem alveg lifað með því, þá væri nú eiginlega betra að vera bara ekkert geðveikur.

Annars. Það er ennþá rigning. Mér finnst hafa rignt síðan ég man eftir mér. Og eftir gærdaginn var ég eiginlega viss um að vatnið hlyti að fara að verða búið. En, nei.
Ekki er það nú gott fyrir geðheilbrigðið.

Frí vegna samráðsfunda í skóla Smábáts í dag. Hann er á leið í afmæli. Að því loknu fara þeir Rannsóknarskip til æfinga uppi í Borgarleikhúsi. Ég raxt á litla frétt um Margt smátt í Blaðinu áðan. Með henni var mjög villandi myndskreyting af sjálfri mér og blinda hnífakastaranum í sirkusbúningum. Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem er mynd af mér með tilkynningu um Margt smátt. Og í fyrsta sinn sem ég ætla ekki einu sinni að mæta. Sniðugt.

En, ljúkum þessu með plöggi:

Stuttverkahátíðin Margt smátt verður í Borgarleikhúsinu á morgun. Hefst klukkan 14.00. Í boði verður aragrúi stuttverka, flutt af mörgum leikfélögum. (M.a. eitt verk eftir Rannsóknarskip, annað verk sem hann leikstýrir og það þriðja sem Smábátur leikur í.) Nánari upplýsingar á Leiklistarvefnum. Það er gaman að svona sýningum. Ef manni finnst eitthvað leikrit leiðinlegt, þá er það nefnilega allt í lagi. Það kemur strax annað.

4.10.07

1985?

Ég hnaut... ja datt eiginlega bara kylliflöt... um það litla sem ég heyrði af predikun Séra Halldórs (minnir mig að hann hafi heitið) sem predikaði fyrir setningu Alþingis um daginn. Ég varð svo föj að ég náði ekki upp í nefið á mér í klukkutíma. Hann vildi sumsé meina, blessaður maðurinn, að börnum væri "komið fyrir" í dagvistun og síðan skóla sem "ættu síðan að sjá um uppeldið" minnir mig að hann hafi orðað það orðrétt. Og þetta voru sumsé hnýtingar í foreldra.

Nú er ég foreldri og þekki svona milljón slíka. Ég veit ekki um einn einasta sem er þeirrar skoðunar að leikskólar og skólar eigi að "sjá um" uppeldið, eitthvað. Hins vegar hefur mér sýnst mikil þróun hafa orðið í meiri samskiptum á milli foreldra og mennta- og dagvistunarstofnana, allavega síðan ég var í skóla. Þá þurfti foreldrar nú bara ekkert af skólanum að vita nema krakkaormurinn kveikti í einhverju eða hálfdræpi einhvern annan. Núna eru hins vegar samráðsfundir, foreldrafundir og allskonar samráð haft við foreldra um hvaðeina sem viðkemur börnunum, allan veturinn. Við fáum til dæmis skýrslu um hvernig Smábáturinn hefur staðið sig eftir hverja viku og fáum að vita hvaða uppeldisleg "þemu" er verið að vinna með á hverjum tíma, svo við getum unnið með það sama heima.

Um leikskólann segi ég það sama. Það koma fréttabréf, maður spjallar við starfsmenn á hverjum degi og allir reyna að vera samstíga um uppeldi hverskonar.

Maður gæti svosem reynt að sannfæra sjálfan sig um að skólar og leikskólar ætti að "sjá um uppeldið" en þá er ég hrædd um að maður þyrftu að vera það langt leiddur af skorti á heilbrigðri skynsemi að barnaverndaryfirvöld ættu hvort sem er að blanda sér í málið.

Auðvitað kom í framhaldi af þessu, í ræðu prests, eitthvað með að "foreldrar ættu að beina meiri athygli inn á heimilin..." (Lesist sjálfsagt: Að kellingar komi sér nú á bak við eldavélarnar, þar sem þær eiga heima.) En þarna þótti mér síra fylgjast einstaklega illa með því sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Auðvitað erum við ennþá frekar nýskriðin upp úr moldarkofunum og erum í raun enn að læra að ala börn upp í þéttbýli. Og það tók alveg nokkra daga að byggja Róm. En ég held að við séum nú bara á réttri leið með þetta allt saman. Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn og ég er ekki frá því að samfélögin séu farin að vinna betur saman en áður að því verkefni.

En mikið varð ég pirruð fyrir mína hönd og annarra foreldra þegar ég heyrði þetta. Sálin lagðist alveg á neikvæðu hliðina og ég nöldraði við sjálfa mig lengi dax.
Það endaði nú samt með því að jákvæða hugarfarið rifjaðist upp fyrir mér og að endingu tóxt mér að huxa:
"Blessaður maðurinn. Hann hefur ruglast og gripið með sér ræðuna frá 1985."

3.10.07

Og þá kom blessað pensilínið

Rannsóknarskip gafst alla leið upp á sleppunni í dag og leitaði læknis. Uppskar í þetta sinn það sem ætlunin var að sá til, þetta fína pillubox með 10 daga pensilínkúr. Freigátan fær sín meðul í augun og ku eiga að verða úr allri hættu á að smita önnur börn á morgun. Og má þá fara í leikskólann sinn. (Útlitið á henni finnst mér nú samt ekki hafa lagast í dag. Núna er eins og hún sé með glóðaraugu á báðum.) Smábátur er fílhraustur sem endranær. Svo á morgun fær ég væntanlega að sitja ein í verkefnasúpunni og veitir ekki neitt af.

Og það er að frétta af ad hoc-inu að forsætisráðherra bjargaði engu, hann reyndi ekki einu sinni að rökstyðja neitt sem hann sagði. Þar með gafst ég upp á þessu fokkíngs verkefni og sendi Þröskuldinum skýrslu þar að lútandi. Hef ekki huxað mér að fara í mikla leit að dæmum fyrir þessi verkefni í framtíðinni. Geri þau bara ef ég dett um eitthvað. Það er ekki hægt að eyða öllum þessum tíma, í að leita að illa skrifuðum greinum, fyrir 3% af einni einkunn. Ég huxa að bróðir minn í hagfræðinni myndi alveg staðfesta að það væri léleg lærdómshagstjórn miðað við núverandi ástand.

Það er annars skrítið hvað þeir hafa stytt annirnar síðan ég var síðast í skóla. Þá gat maður nú alveg dinglað sér og huxað "isssss" mánuðum saman, það glitti hvortsemvar ekkert í annarlok eða verkefnaskil. Núna hefur þetta einhvernveginn gnæft yfir og nálgast óðfluga síðan í september og mér sýnist þessi önn hafa algjörlega tekið á sig lögmál Bandalaxskólans. Hann er einmitt alltaf strax búinn.

Hið lyfjaða Rannsóknarskip ætlar út í bæ að horfa á fótbolta, með alla sína sleppu, Smábátur er á leiðinni á leikæfingu á eftir og ég er allllveg að sofna.

Skrópí

Það hlaut að enda með því að Móðurskipið yrði kyrrsett einn skóladag. Freigátan má ekki fara á leikskólann með augnsýkingu.
En ég er alveg farin að sjá ljósið varðandi tíma talglæranna og er ekki að fá taugaáfall. Enda verða afinn og amman að austan, sem komu frá útlöndum í nótt og fara austur seinnipartinn, örugglega bara svaka glöð að geta aðeins séð framan í okkur. Og grindkvalda móðurskipið er líka svolítið þreytt í dag og eiginlega bara alveg til í að vera heima og ná kannski í rassinn á heimalærdómnum í staðinn. Verst að Freigátan var orðin svo ógurlega kát á leikskólanum, en það aflagast vonandi ekkert þó hún verði heima í einn eða tvo daga.

Bezt að skipta á kúkableyju og halda svo áfram leitinni að ad hoc inu.

2.10.07

ad hoc

Í hverri viku eigum við að skila verkefni til hans Þröskulds í Fræðilegu skrifunum. Oftast snýst það um að finna dæmi um eitthvað í einhverri grein og rökstyðja að það sé svoleiðis. Þegar maður er allan daginn með nefið niðri í greinum er svoleiðis oftast lítið mál. (Gerði reyndar ekki verkefnið í síðustu viku þar sem ég var með hor í hausnum og skildi ekkert af því litla sem ég las, hvað þá hvort eitthvað "svoleiðis" væri íðí. Önnur saga.)

Allavega, verkefni þessarar viku sýndist mér bæði létt og löðurmannlegt. Að finna eingilda röksemdafærslu eða staðhæfingu, öðru nafni ad hoc. (Í stuttu máli eitthvað sem er haldið fram og síðan bara rökstutt með einhverju einu, en engin dæmi eða frekari röksemdir til stuðnings. En það þykir nú frekar lélegt, svona þegar menn ætla að halda einhverju alminilega fram.)

En í ljós kom að lesefni vikunnar var nú bara ferlega vel fræðað og hreinlega ad hoc-laust, eftir því sem ég fékk best séð. Las meira að segja greinina sem ég ætla að fyrirlesa um í þýðingarfræði aftur, og þó víða sé orðalagið þar asnalega kjaftfort fann ég nú bara ekkert ad hoc þar heldur. Í örvæntingu minni las ég Lesbók Morgunblaðsins, allt sem ég nennti, í kvöld. No joy. En svo rak ég augun í sjónvarpið og fékk hugmynd og létti stórum.

Stefnuræða forsætisráðherra verður væntanlega í blöðunum á morgun.

Búin að fara í bað og ætla núna að horfa á glæpaþátt sem ég tók upp í gærkvöldi.
Treysti á að Geir reddi þessu fyrir mig á morgun.
Á maður ekki alltaf að treysta ríkisstjórninni?

ad hoc

Oj

Dr. Phil var bara að tala við einhverja fræga í dag. Ég er eiginlega alveg búin að gefast upp á honum. Þá sjaldan ég gái á hann þessa dagana er hann annað hvort að tala um eitthvað sem ég geri ekkert með nema fjargviðrast yfir. (Eins og fólk sem lætur dætur sínar keppa í fegurðarsamkeppnum um hverja helgi frá eins árs aldri.... siiiiríuslí.) Eða að tala við einhvern frægan. Mér er alveg sssskítsama hverng Bush-hjónin ala börnin sín upp.

Annars, er að drepa tímann. Rannsóknarskip skrapp með Freigátuna til læknis, hún fékk sér augnsýkingu á leikskólanum, sem ku ekki eiga að vera mikið mál... sé samt ekki alveg fyrir mér hvernig maður á að fara að því að setja dropa í augun á henni án þess að það sé einmitt talsvert "Mál". Smábátur er á leikæfingu. Ég er búin að vera í húsmóðurgírnum, pera í herbergi Smábátsins sprakk, bóxtaflega, svo ég er búin að vera í glerbrotamó. Er síðan líka búin að setja sveppasúpuna í startholurnar, á von á flotanum öllum jafnglorhungruðum á hverri stundu.

Fékk annars sjálf fyrsta svefn- og átkastið í dag. Mætti halda að maður væri óléttur eða eitthvað.
Þarf að gera eitt oggulítið verkefni í kvöld.
Dj... hvað ég er ekki að nenna því.

ARGH!

Kom heim úr hinni bráðhressandi gönguferð með Freigátun á leikskólann, albúin að rumpa af eins og einu verkefni áður en ég færi í hina margsvæfandi Bókhlöðu að gramsa í heimildum til að búa til örskamman ritalista um Moliere, en kemst þá að því að hið versta hefur átt sér stað.

Það er kaffilaust í kotinu.

Ljóst er að ekki verður meira gert í nokkrum sköpuðum hlut fyrr en úr hefur verið bætt. Er bara aðeins að hvíla grindverkinn áður en ég pota mér aftur í skóna og ráfa út. Sem betur fer er stutt í búð.

Annars er hjólandi dagur í dag. Rannsóknarskip fær að vera á bílnum dagana sem hann þarf að sækja Freigátuna á meðan ég er enn hjólfær. Enda óstjórnlega gott að hreyfa sig. Ekki varð nú samt af ræktarferð í dag, vegna skólaanna, en reynt verður að bæta úr á fimmtudag.

Svo fer að sjást í skiladaga á ýmsum stærri verkefnum. Svo sem þýðingunni á A Number og handritinu að útvarpsþættinum sem ég er að fara að klippa og klára í nóvember. (Þarf þá að vera búin að taka viðtöl... á græjuna sem ég er ekki enn búin að sækja. Til sagnfræðideildarmannsins sem ég veit ekki hvar er með skrifstofu. Hmmm.)

Ljóst að ekki er til zetu boðið.

Og, já, ef einhver sem kannast við Báru syss og líka fyrirbærið Soffíu mús, má sá hinn sami segja sögur af henni í kommentakerfið. Fyrir óútskýranlega duttlunga örlaganna vantar mig allar upplýsingar sem mögulega finnast í mannheimum um það fyrirbæri.

1.10.07

Hrmpf...

Og sumu væri nú kannski betra að geta ekkert flett uppá. Rak augun í það að um mánuði seinna á síðustu meðgöngu var ég að fjargviðrast yfir því að ég væri alveg að verða 70 kíló. Ég er hætt að monta mig af þyngdaraukningarleysi. Þegar ég var óléttari síðast var ég semsagt samt léttari en nú. Dem. Ræktin á morgun.

Annars, Rannsóknarskip fór á æfingu kl. 18.00. Gummi E mætir á æfingu hjá honum kl. 19.00, og skilur son sinn eftir hér í leiðinni, í "pössun" hjá Smábát. Klukkan 20.00 sækir hann hann síðan aftur, og Unnur Gutt sækir Smábát og fer með hann á leikæfingu. Eins gott að við Freigáta erum bara hér við umferðarstjórnun.

Hún var annars bara alveg svaka dugleg á leikskólanum í dag, hress og kát og hvers manns hugljúfi. Sullaði í pollum og söng og hló. Starfsmenn urðu alveg forviða, höfðu enda lítið séð af henni annað en rönguna, hingað til. Hefur kannski eitthvað með það að gera að hún svaf eins og grjót fram yfir hálfátta í morgun og borðaði að því loknu einar þrjár diskafyllir af hafragraut. Heilsan greinilega öll að koma á öllum sviðum.

Jæja, best að finna eitthvað fljótlegt til að gúlla í Smábátinn um leið og hann dettur inn úr dyrunum úr Tónmenntaskólanum. Svo þarf hann líka að læra. Ekki er það nú tekið út alfarið með sældinni að vera barnastjarna.

Dyggasti lesandinn

Einu sinni fór ég stundum í fýlu við bloggið mitt. Huxaði jafnvel um að hætta með það. Það var þegar mér fannst lítil hreyfing á kommentakerfinu. En þeir dagar eru nú satt að segja að baki. Eftir því sem bloggárunum fjölgar verð ég nefnilega sjálf dyggari aðdáandi bloggsins míns. Ég tek stundum upp á því, þegar ég þarf nauðsynlega að finna mér afsakanir fyrir að gera ekkert af viti, að lesa bloggið mitt aftur í tímann. Les þá gjarnan hvað var að gerast fyrir akkúrat ári síðan, tveimur, þremur, og nú undanfarið get ég farið heil fjögur ár aftur í tímann og skoðað hvað var að brjótast um í hausnum á mér.

Þetta er svo sem ekkert til að skoða merkilegu viðburðina. Maður man þá nú svona nokkurn veginn. En það eru ómerkilegu viðburðirnir sem mér finnst oft skemmtilegt að geta rifjað upp. Og svo getur þetta verið gagnlegt þegar sögur endurtaka sig. Núna hef ég til dæmis verið að skoða hvað var í gangi um svipað leyti á síðustu óléttu. (Og komast að því mér til mikillar gleði að þá var ég komin með miklu meiri grindverk en nú.) Það er líka að finna ýmsar uppástungur að nöfnum, sem ekki er nú ónýtt að fara að grafa upp núna. Daníel Gabríel, Vanilla Blær og Heljarslóð Orrusta eru öll algjörlega í stíl við það sem ég er að sjá á leikskóla Freigátunnar.

Ég hef aldrei nennt að halda dagbók af neinu viti. (Þangað til ég stofnaði Orðabókina.) En núna vildi ég eiginlega óska að ég hefði gert það. Ég hefði gjarnan viljað sjá þankagang minn, til dæmis þegar ég var í menntaskóla. (Man reyndar að einu sinni settumst við Svandís niður og skráðum nákvæmlega hvað hefði gerst um hverja helgi undanfarið, lesist; hvað við hefðum drukkið og hver hefði sofið hjá hverjum. Eins man ég að skóladagbækurnar mínar úr menntaskóla gátu falið í sér skemmtilegar vísanir... en ég er ekki frá því að ég hafi hent þeim í síðustu flutningum. Eins var einu sinni til eitthvað sem hét Góða bókin, sem var gjarnan ort í á góðum stundum. Veit heldur ekki um hana. Allavega eins gott að henni verði nú fargað áður en hætta fer að verða á þvi að börnin komist í hana. ;-)
Allavega, ef siðmenningin liði nú undir lok, bráðum, rafmagnið og internetið hætti að virka, eða eitthvað, þá huxa ég að ég myndi reyna að halda áfram að skrifa niður daglega hugþjöppun, bara á pappír, ef ekki vill betur.

En auðvitað hefur umferðin og lesturinn minnkað. Eins og gengur. Nýjabrumið er ekki lengur á bloggum heimsins, auk þess sem ég hef sjálf öll mýkst og afkjaftforast með aldrinum. Ég skil vel að minna sé nú spennandi að lesa um hor heldur en pirring yfir þjóðfélaginu og heimsmálunum. Nú er ég bara svo upptekin af horinu og sjálfri mér að ég hef takmarkaðan tíma fyrir huxjónirnar. Hafa verður það. Einu sinni bað ég alla að kommenta, bara til að gá hvað kæmu margir. Það var alveg haugur. Það er líka oft skemmtilegt að lesa kommentin, sérstaklega þegar menn fara á flug, langhunda og stunda bloggrán.

En ég ætla ekkert að vera að biðja menn að "kvitta". Ég les gífurlegan haug af bloggum á hverjum degi og kvitta aldrei nema ég þurfi að segja eitthvað. Ég veit að það eru líklega einhverjir þarna úti sem lesa, þegar þeir mega vera að. Annars er aldrei að vita nema framtíðarsjálf mitt eigi eftir að flissa að þessu á komandi áratugum. Og það er nú gaman.

Þetta var sumsé hinn narsissíski lofsöngur sjálfrar mín til bloggsins míns.

Góðar stundir.

30.9.07

Allskonar

Best að byrja á að plögga, áður en ég gleymi því. Næsta laugardag heldur Bandalag íslenskra leikfélaga stuttverkahátíðina Margt smátt í Borgarleikhúsinu. Þetta stefnir í að verða fjölskylduhátíð, Smábáturinn leikur, Rannsóknarskipið höfundar, leikstýrir (öðru) og leikur huxanlega (í enn öðru) og svo kemur Rannsóknarskipssystir að norðan og leikur líka. í alltalltöðru. Við Freigáta verðum hins vegar fjarri öllu þessu góða gamni, ég þarf að vera í þýðingafræðimaraþoni í skólanum og hún verður í pössun hjá Huggu móðu. Það verður nú skrítið að koma ekki einu sinni bara neitt nálægt þessu, en ég verð nú kannski bara að læra að lifa með því í bili að Bandalagið og Hugleikurinn komist nú bara alveg af án mín. Hafa gert það áður, og þurfa sennilegast að gera það í bili.

Ég þarf þvílíkt að taka mig á í skólamálunum eftir alla þessa veiki. Annars erum við Rannsóknarskip og Freigáta öll ennþá með hellings hor, hósta og sleppu, þó við eigum að heita vera orðin hraust. En þetta virðist ætla að taka tíma sinn að fara alveg. Smábáturinn er hins vegar fílhraustur, utan þess að hann fann engan til að leika við núna seinnipartinn, að aflokinni leikæfingu. Er nú samt að bíða eftir að einhver skilaboð skili sér, en þangað til "neyðist" hann bara til að hanga í tölvunni, eins og hann sagði sjálfur með uppgerðum mæðusvip. Ég huxa að ég láti það nú afskiptalaust í bili. Hann er búinn að vera svo hroðalega duglegur í dag, búinn að æfa leikrit og píanóleik og allt mögulegt, og svo hjóla heim til 12 manns til að gá hvort einhver sé heima hjá sér og geti leikið. En þetta getur nottla ekkert leikið. ;-)

Freigátan er auðvitað búin að krækja sér í nokkra ósiði á leikskólanum sínum. Það nýjasta er að lemja. Hún prófar það stundum á okkur, og fær einstaklega fúlar undirtektir, sem henni finnst fyndið. Svo lemur hún stundum sjálfa sig og dótið sitt. En ég held hún lemji ekki önnur börn. Ennþá. Ef hún heldur svona áfram fer ég að huxa mér með hana í glímuferð til Bolungarvíkur þar sem hún getur hitt þann heitmann sinn sem er, að mér skilst á móður hans, líka ofbeldishneigður.

Annars eru nú nokkrir í sigtinu. Einn þeirra er sonur Ásdísar sem er í bumbusundinu með mér í annað sinn. Síðast átti hún son um mánuði áður en ég átti Gyðu. Núna er hún sett mánuði á eftir mér. Og hún sagði mér um daginn að nú væri ég með strákabumbu. Hún er svo mikið hærri en síðast. Hún er hins vegar með stelpubumbu í þetta skipti. Þannig að kannski erum við búnar að leggja grunninn að tvöföldum mægðum.

Ég er annars eiginlega ekki búin að þyngjast neitt í þessari óléttu, en talsvert farin að breyta um lögun. Sem er gott. Ég ætla helst ekki að verða hundrað kíló. Og mátti alveg brúka dáldið af forðanum. En það er dáldið farið að grisjast í fataskápnum af því sem nær niðurfyrir bumbu. Og það tefur stundum dáldið fyrir mér á morgnana vegna þess að þegar ég vakna er ég stundum komin með hálfan hugann í skólann eða eitthvað og man ekki baun að ég er ólétt... þangað til bumban stendur allt í einu út úr öllum fötunum sem ég er í.

Í nótt dreymdi mig að ég ól sveinbarn, strákurinn var svakalega langur, 60 cm held ég, og voða sætur og skemmtilegur. En eiginlega ekki líkur neinum. Annars get ég einhvern veginn ekki ímyndað mér að eignast strák... Ég á reyndar Smábátinn, en eignaðist hann nú bara þegar hann var níu ára, þannig að hann hefur einhvern veginn alltaf verið stóri strákurinn minn. (Hann fær reyndar alveg að vera lítill þegar hann þarf, en það gerist sjaldnar og sjaldnar.) Og svo á ég Freigátuna, og hún er stelpa eins og ég. Ekki að ég reikni með að mikill munur sé á stelpu- og stráksmábörnum, en ég á erfitt með að ímynda mér það. Alveg eins og Rannsóknarskip gat ekki ímyndað sér hvernig væri að eiga stelpu, fyrr en það gerðist, honum algjörlega að óvörum. Hann var sannfærður um að Freigátan yrði strákur.

Þess vegna var það, daginn eftir að hún fæddist, að hann fór að furða sig á því að hann væri orðinn stelpupabbi. Honum fannst það undarleg tilfinning. Ég fór eitthvað að stríða honum á því hvernig honum yrði svo við þegar hún færi að koma heim með kærastana sína, (leðurklædda og reykingalyktandi með sakaskrá)?
Rannsóknarskip fölnaði og sagði svo: Hún fær ekkert að eiga neina kærasta!
Hann hefur aldrei bakkað með þetta.

Ég held að fátt sé karlmönnum hollara en að eignast dætur.

Þetta er nú orðið meira bullið.
Best að hætta þessari vítleysu og hunzkast til að reyna að þykjast gera eitthvað í einhverju.