30.9.05

Nýyrðasmíð...

Fann upp orðið þrívíddarkúkur.
Held ég hjóti með því að hafa unnið mér fyrir laggningu.

Þá veit maður það

Ef bloggerinn manns birtist á kóresku í tölvunni manns, og maður sé kannski pínu fullur, þá borgar sig ekki að fara að fikta í settöppinu sínu og giska á hvaða takka skal ýta á til að vista. Þessi fróðleiksmoli var í boði Varríusar.

Annars er að koma klukkan 13.00 á föstudegi og það ætti að þýða helgarfrí, eða hvað? Nei það er nú eitthvað annað. Bandalagið heldur námskeið í Hafnarfirðinum, þannig að þar sé ég fram á að halda til, allavega eitthvað, í húsnæði Leikfélags Hafnarfjarðar en svo þarf ég að reyna að þýða og endurskrifa eitthvað í Jólaævintýrinu. Rannsóknarskipið sækir téð námskeið sem nemandi, en svo vill til að Smábátur siglir eftir hádegið norður í sín önnur föðurhús þannig að hann ætti aldeilis ekki að verða jafnvanræktur um helgina og horfur voru á.

Er annars búin að kenna allri fjölskyldunni að éta spínat, meira að segja Smábáti, sem er annars ekki mikið fyrir fæði að hætti sauðkinda.

Og það verður nú samt fjölmenni í Imbu-Skjálf um helgina. Þau eigendahjón eru á svæðinu vegna frumsýningar hjá Hugleik (semsagt, Dagssyni, þess sem minn Hugleikur heitir eftir) auk þess sem Jón "Eymundson" mágur ætlar að gista hjá okkur eina nótt á leið sinni erlendis þar sem hann kemur til með að baða sig í ljóma rokkstjörnunnar með hljómsveitinni sinni Hekkenfeld á leið sinni til Suður-Ameríku, hvar hann hyggst ala manninn langt fram á næsta ár.

Sem sagt, gargandi gestagangur sem við hjónaleysin megum minnst vera að því að sinna.

29.9.05

Mikil sorg skekur bloggheima

Varríus þurrkaði út bloggið sitt með manni og mús. Vil ekki einu sinni byrja að hugsa um öll gullkornin sem þar hurfu yfir megabætamóðuna miklu. Sennilegast ætti maður einhvern veginn að reyna að bakköppa bloggið sitt. Geri það um LEIÐ og ég nenni...

Er að borða spínat. Finnst það ágætt bara svona hrátt og allslaust. Verst að ég heyri stöðugt fyrir mér rödd Sollu á Grænum kosti að mæla með þessu "grammiddi"...
Hef óbeit á þessari konu. Hún getur bara sjálf verið "grammiddi".

Seinni hluti aðalfundar Hugleiks á Eyjarslóðinni í kvöld. Er sybbin og í engu ástandi til funda. Þaraðauki að vaxa upp úr síðustu buxunum mínum. En varaformaðurinn verður líklegast bara að láta sig hafa að mæta með augnlokin á hælunum og standandi útúr.

Og Smábátur á speki á veraldarvefnum. Ekki laust við að í mér örli á foreldrunarlegu stolti. Þó ekki sé nú hægt að segja að ég sé orðinn neinn gífurlegur áhrifavaldur enn sem komið er, en það kemur með tímanum. Er að fara á minn fyrsta foreldra-kennara-fund í skóla Smábáts á morgun. Þvílíkt fullorðn...

28.9.05

Jah... mik... helv...

Þá veit maður hvernig tilfinning það er að vera næstum 70 kíló. Hef aukið eðlisþyngd talsvert undanfarin mánuð. Sem er merkilegt, þar sem ég er víst ekki með neitt blóð. Þetta eru sumsé bara 70 kíló, dræ. Lofaði ljósmóðurinni að éta allskonar grænmetisviðbjóð. Menn mega geta einusinni hvort ég ætla að standa við það.
Og í framhaldinu gekk sjúkraþjálfarinn frá mér.

Er annars afar hrifin af leikhópnum sem er að myndast í kringum Jólaævintýrið. Hann er hreinasta snilld. Nú er bara að klára að skrifa leikritið, svona fram yfir helgi.

Kom heim, leikæfing í stofunni. Rannsóknarskipið kemur til með að fara á kostum í Þjóðleikhúskjallaranum um þarnæstu helgi, heyrist mér. En þetta fer að verða annnsi löng og þreytandi vika. Eitthvað eru nú battríin ekki alveg að hlaða sig eins og venjulega. Sennilega verður mar bara að fara að láta sig hafa helv... spínatið.´

(Man þá tíð, fyrir ekki mörgum mánuðum síðan, að ég gat vikur saman af æfingum hvers kvölds og oftast bjór á eftir og lítið sof og bara alltílæ. *Andvarp* Jæja, það kemur vonandi aftur einhverntíma.)

Jó!

Allt að gerast. Samlestur í gær heppnaðist einkar vel. Líst vel á gengið sem vill vera með. Hef stóran hluta hópsins grunaðan um að hafa streymt á öldurhús að lestri loknum. Stungið var uppá að ég þyrfti að læra að tengja framhjá... held ég fari fljótlega í þá rannsóknarvinnu, takist ekki að finna upp aðferð til að rækta afkomendur í krukkum eða kálgörðum. Þetta lítur allavega út fyrir að ætla að verða hinn félaxlegasti hópur, og svo missir mar bara af þessu, mest.

Annar samlestur í kvöld, þannig að enn er séns fyrir þá sem vilja vera með! Stykkið er allt að skríða saman, þó svo að stefni í einhverjar upphreinsanir, fyndnanir og endurskriftir um helgina. Og í dag er hálft starf að vera óléttur. Mæðraskoðun og sjúkraþjálfun og hvaðeina.

Sjittfokkbissí, bara.

27.9.05

Aftur í tímann

Var að lesa mig upp á Jódísarbloggi og sá m.a. að fyrir nokkru hefur hún sett inn mynd af sjálfri sér nýborinni og Heiðu systur sinni alveg að fara að. Mér alveg krossbrá. Þær voru svo litlar! Og mér sem fannst við allar vera orðnar alveg rígfullorðið fólk, þarna fyrir 13 árum eða svo.

Hjúkk

Geðvonsk gærdaxins virðist vera liðið hjá í bili. Við mikinn feginleik allra viðstaddra. Að fara á leikritunarfund er nefnilega góð skemmtun. Heyrði skemmtilegar sögur af testósteróni í stóðréttum og mörgu fleiru spaugilegu. Fékk síðan jafnvel meira knús og dekrun heima fyrir en venjulega (sem er nú alveg slatti) og svaf síðan eins og grjót og dreymdi að ég væri í partíi og þyrfti að fara að svakalega mörg fleiri slík um allan heiminn. (Mesta furða að ekki skuli vera þynnka.)

Ekki að undra að maður skuli vera orðinn glaðari í geðinu.

Og talandi um skít:

Fyrsti samlestur á Jólaævintýri Hugleix í kvöld klukkan 20.00!

Veri menn þar eða ferkantaðir ella.

Allir velkomnir.

Nefndin.

26.9.05

Grenj

Nú er ég hrædd um að upp sé runnið þriðja skeið meðgöngu. Dópamínskt jafnlyndi undanfarinna mánaða á hröðu undanhaldi undan krónísku kvíðakasti sem lýkur sennilega ekki fyrr en með fæðingarþunglyndinu.

Verð að viðurkenna að mér finnst ekkert sérstaklega gaman að vera ólétt. Og skil ekki hvað margt kvenfólk sem ég þekki meinar með að þykja það, held það sé kannski meira gaman eftirá. Og bókaskræðurnar fara sennilega aftur að fá flugferðir um híbýlin, sérstaklega þær sem ætla að fara að segja manni "hvernig móðurinni líður". Grrrrr.

Nú er líklega ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær ég verð sett í endanlegt farbann vegna grinverks. Til að reyna að koma í veg fyrir það í lengstu lög þarf ég að fara að takmarka útferðir úr húsi meira og meira, og ekki er langt í að þær takmarkist alfarið við vinnu og sjúkraþjálfun, eða annað meðgöngutengt. Sé ekki fram á að eiga skemmtilega daga við einhverja semí-með-leikstjórn á Jólaævintýrinu. Eða nokkurn skapaðan andskotan annan hlut, fram yfir jól.

Kafbátur virðist ekki láta þetta ástand neitt á sig fá, siglir bara sinn sjó og tekur kollhnísa og fótboltaæfingar. Sorrí ef ég er ómóðurleg, en mér finnst það nú bara aðallega óþægilegt. Og fer versnandi með harðnandi spörkum í bris og blöðru og önnur innyfli.

Só, ðe vördikt is inn. Ólétta er ekki mitt eftirlætisástand og mér þætti vænt um ef menn væru til í að finna aðra aðferð til að rækta fólk áður en ég fer í næstu umferð. (Sem verður farin, no matter what, ójá.)

Þetta var geðvonsk daxins.
Vonandi get ég þá hamið mig um að taka það út annars staðar.

Draugagangur

Þar sem ég eyddi helginni í að huxa um djáknann á Myrká, Glámur hélt fyrir mér vöku í nótt og ég er búin að berjast í allan morgun við andsetna fiskiflugu í vinnunni, finnst mér nauðsynlegt að deila með mönnum nokkrum athygliverðum staðreyndum sem ég hef verið að grafa upp undanfarið um "hefðbundna" íslenska drauga.

-Eyjaselsmóri er glasabarn. Hann reis upp úr meðalaglasi.
-Útburðarvæl eru fyrir veðurbreytingum.
-Draugar lögðust líka í vesturferðir. En þegar vestur um haf var komið hættu þeir gjarnan að vera mórauðklæddir og þungstígir en tóku uppá að klæðast hvítu og svífa eins og hverjir aðrir útlendingsdraugar.
-Sumir draugar voru taldir samkynhneigðir þar sem þeir sóttu í að laumast aftan að mönnum!

Mest af þessari visku hef ég af þessum vef.

Og ég myndi vilja bæta við einum flokki af draugum. Það eru stalkerdraugarnir. Það eru ótrúlega margir sem verða bara geðveikt skotnir í einhverjum og sjá síðan það fólk bara hreint ekkert í friði, langt fram yfir gröf og dauða. Jafnvel þrátt fyrir yfirlýst áhugaleysi viðkomandi, svo sem eins og séra Oddur reyndi að koma henni Miklabæjar-Sólveigu í skilning um.

Svo sá ég treilier úr mynd í gær sem mér sýnist vera að setja skemmtilegt "spinn" á svona mál. Ætla ekki að láta næstkomandi afrek Tims Burton, The Ghost Bride, framhjá mér fara.

25.9.05

Nú ætla ég að tjá mig um baugsmálið:

ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ
ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ
ZZZZZZZZZZZZZZZZZ

Gott að vera búin að því.

Nutum annars einstaklega fjölskylduvænnar helgar. Smábátur var aðeins lasinn í gær, en varð gestakoma Guðmundar E og sonar í dag til snarlex afturbata. Í framhaldi af því undum við okkar kvæðum í krossa og flækjur og fórum í bíó að sjá Kalla og sælgætisgerðina. Sem var alveg skemmtileg og full af skemmtilegum fróðleik um uppeldi, eins og upprunalega sagan er. (Ég verð reyndar að taka undir með Nönnu og fleirum að fjölskylduvæmi Wonka var algjölega ofaukið og ljóslega gert fyrir sauðstjúpid markað sem þarf að fá boðskapinn með teskeið.)

Ég lærði líka eitt um uppeldi af hrókasamræðum á milli mæðgna sem sátu fyrir aftan okkur: Það alfyrsta sem Kafbáti verður kennt, um leið og hann kemur í heiminn, verður að snarsteinhalda sér saman í bíóum, leikhúsum, og öðrum stöðum sem til er ætlast. Og þangað til þeim lærdómi hefur verið náð, skilyrðislaust, fer barnið EKKI þangað. Og hananú. (Ég held ég hafi verið farin að gnísta tönnum þannig að það heyrðist á tímabili. Og við færðum okkur langt í burtu í hléi og nutum þess að heyra BARA í myndinni það sem eftir var. Sumt fólk er bara algjörlega fokkíng fífl.)

Og nú er Law&Order að byrja og þar með er ég búin að blogga frá mér tímann sem ég hefði huxanlega getað notað til að skrifa í leikritinu.
Enda nennti ég því ekkert...