28.9.06

Ammlismyndir

Í tilefni 8 mánaða afmælis Freigátunnar reyndi ég að fara í dúkkó. Tróð henni í einn frænkukjól frá Láru og Laugu og reyndi síðan að fá hana til að sitja kjura.


Ef maður á að sitja kjur, þá brosir maður sko ekki baun.


Það kemur hins vegar þegar maður fær að hnoðast.


Og svo kann maður líka að standa.

Svarti hundurinn

Ég er alltaf að heyra að menn séu að að burðast með þunglyndi árum saman án þess að fatta það og/eða gera neitt í því.

Fékk allt í einu óyfirstíganlega þörf og löngun að skrifa pistil til að vekja athygli á og vara menn við þessum sjúkdómi. Margir ganga með hann lengi án þess að gera neitt í honum ýmist af vanþekkingu eða af því að menn vanmeti hversu alvarlegur hann er. Þess vegna langar mig að byrja á að taka það fram, fyrir þá sem ekki vissu að:

Þunglyndi er lífshættulegur sjúkdómur!


Og það í tvennum skilningi. Þunglyndissjúklingar ákveða GJARNAN að binda endi á líf sitt. Ég þekki allavega fáránlega marga sem hafa farið þá leið. Það gerir ekki boð á undan sér. Hvorki hjá sjúklingunum sjálfum eða öðrum. Eftir sitja svo aðstandendur með sektarkennd og sálarflækjr.
Auk þess er þessi sjúkdómur til mikilla leiðinda í lífinu. Hver einasta mínúta sem eytt er í að ganga með ómeðhöndlað þunglyndi er sóun á lífi. Lífið nefnilega oft of skemmtilegt og frábært til að eyða einni mínútu af því í ómeðhöndlað þunglyndi. Auðvitað verða allir fyrir áföllum og erfiðleikum í lífinu. En er ekki alveg nóg að líða þannig þegar slíkt dynur yfir? Það er óþarfi að vera með hamfaratilfinningar út af einhverju pikklessi í heilanum á sér þegar allt er í raun og veru í lagi?

Ég greindist sjálf með þunglyndi fyrir algjöra tilviljun. Vegna þess að ég bjó með manni sem kannaðist við einkennin og kom mér einhvernveginn til læknis þegar ég var helst ekki búin að vilja fara úr sófanum mínum og búin að vera í stanslitlu dramakasti í örugglega ár. Eftir á að hyggja var ég sennilega búin að vera þunglynd frá unglingsaldri. Um tíu ár áður en vandamálið greindist hefðu verið mér talsvert auðveldari hefði ég vitað eitthvað. Eins veit ég ekki hvar sjálfseyðingin hefði eiginlega endað hefði ég ekki greinst þarna.
En þetta er vandamálið, maður veit ekki neitt. Ég hélt bara að ég væri löt og aumingi.

Ég vissi ekkert um þunglyndi. Það litla sem ég hélt að ég vissi voru ranghugmyndir og fordómar. Og í því held ég að þjóðfélagsmeinið liggi. Fræðsla um þunglyndi þarf að sjálfsögðu að vera allsstaðar, ekki síst í landi sem liggur norður undir heimskautsbaugi og er með sjálfsmorðstoll á við okkar. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi sjúkdómur tekur fleiri mannslíf á ári hverju heldur en umferðin. Og spilar sjálfsagt inn í mörg dauðsföll sem opinberlega eiga að heita að séu vegna fíkniefnaneyslu. Það þarf forvarnir gegn þunglyndi.

Hluti af þeim þarf að vera að útrýma fordómum. Það er í eðli þunglyndis að sjúklingar reyni að fela það, til þess að þurfa ekki að takast á við það. Það gengur ekki að við bætist að maður þurfi að fela það fyrir samfélaginu vegna fordóma. Það þarf að kenna þunglyndisfræði í skólum. Sem og skattaskýrslugerð.

Nokkur atriði:
- Þunglyndi er ekki það sama og fýla. Maður getur alveg verið kátur framan í fólk þó maður sé drulluþunglyndur. Þunglyndi snýst um hvernig manni raunverulega líður, en ekki hvernig aðrir halda að manni líði. Þess vegna er enginn í betri aðstöðu til að fylgjast með gangi sjúkdómsins en sjúklingurinn sjálfur.
- Þunglyndi er ekki það sama og aumingjaskapur. Þunglyndi orsakast af því að serótónínframleiðslan í heilanum á manni fer í eitthvað fokk. Þetta á sér stundum ákveðnar orsakir, stundum ekki. Ef þetta hefur einu sinni gerst er aukin hætta á að það gerist aftur. Og það er ekki eins og menn fái þunglyndi að gamni sínu, eða vegna þess að þeir "nenni ekki". Þetta er hins vegar tilfinning sem sjúklingurinn sjálfur glímir gjarnan við.
- Þunglyndi er geðsjúkdómur. Og geðsjúkdómar eru alveg jafn "miklir" sjúkdómar og aðrir sjúkdómar. Mér finnst maklegt og réttvíst að líkja þunglyndi við fótbrot þegar ég finn fyrir fordæmara í sjálfri mér eða öðrum.
- Þunglyndi lagast ekki af sjálfu sér. Það er hægt að fara í göngutúr eða fá sér súkkulaði og kikkstarta framleiðslunni í einhverjar mínútur eða klukkutíma, en vandamálið er samt enn til staðar. Eins og ef maður er fótbrotinn. Brotið grær kannski saman þó maður láti ekki setja sig í gifs. En það er lengur að því, getur gróið vitlaust... og hversu gáfulegt er það að fara ekki til læknis ef maður veit að maður er fótbrotinn?
- Þunglyndi kemur næstum alltaf aftur. Það getur legið í dvala, jafnvel árum saman. Að því leyti er það eins og krabbamein. Stundum er hægt að sjálfshjálpa sig út úr vægu þunglyndi, en þá verður maður að greina það snemma og vita hvað maður er að gera. Að detta íða er til dæmis alls ekki lausnin.

Þetta rant mitt er að sjálfsögðu ekki unnið upp úr neinum formlegum heimildum, heldur aðeins upplifun minni á sjúkdómnum. En ég vona að ef eitthvað af þessu ranti mínu hringir einhverjum bjöllum hjá einhverjum lesanda þá rífi hann sig upp á rassinum og fari til læknis. Ég meina, maður fer til læknis ef maður er með hor í lungunum lengur en manni finnst þægilegt. Er ekki enn mikilvægara að fara til læknis út af "hori" í heilanum?
Það eru til nokkrar meðferðarleiðir. Þær sem ég hef mest heyrt um eru annars vegar lyf og hins vegar samtalsmeðferðir. Ef manni finnast lyfin ekki virka eins og manni finnst þau eiga að gera er aðeins eitt ráð við því. Tala aftur við lækni. (Tek þetta fram vegna þess að ef maður er mjög þunglyndur finnst manni þetta hreinast ógjörningur.) Ég hef ekki prófað samtalsmeðferð sjálf, en hef trú á svoleiðis og ætla að reyna að koma mér í svoleiðis í einhverju kastinu. Vegna þess að, og hér kemur uppáhaldssetningin mín: "Hvernig á ég að vita hvað ég er að hugsa fyrr en ég heyri hvað ég segi?"

En hér er svona "almennilegt" efni:
- Vefhluti um þunglyndi
- Sjálfspróf til að athuga hvort maður sé haldinn þunglyndi (Mjög gott að taka annað slagið ef maður á vanda til þunglyndis, eins bara ef maður er eitthvað súr. Það er allavega aldrei hættulegt.)
- Þunglyndispróf Goldbergs
- Grein á doktor.is
- Landlæknisembættið – Þjóð gegn þunglyndi
- Fræðsluefni Landspítalans um þunglyndi

Og svo nenni ég ekki að linka meir. Örugglega út af þunglyndi.

27.9.06

Plögg

Hugleikurinn minn er með ofvirkni eins og endranær. Nú á að fara að sýna Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í næstu viku. Frétt hér.

Sama leikfélag sýnir um þessar mundir sýninguna Systur í Möguleikhúsinu. Það eru ekki margar leiksýningar sem ég hef nennt að sjá tvisvar. Þetta er önnur þeirra. Alveg svakalega gargandi snill þar sem höfundur, leikstjóri og leikarar toppa sjálfa sig hver um annan þveran.

Í Freigátufréttum er það helst að frétta að hún er búin að fá þriðju tönnina, sem er vígtönn. (Ég rek það beint til þess að við Rannsóknarskip erum búin að vera að plægja í gegnum Buffy og Angel seríurnar undanfarið ár.) Svo kann hún líka að standa uppvið. Svona þangað til hún dettur niður og rekur þá venjulega hausinn í eitthvað og upphefst mikill grátur og gnístran. Samt er engan veginn lært af reynslunni. Það er ástæða fyrir því að 7 mánaða börn eiga ekki að vera búin að læra að standa. Annars er hún alveg bara kát, á milli niðurfalla. Er reyndar að fara í skoðun og sprautun í dag sem ekki er víst að verði svo ánægjulegt.

Einnig er samráðsfundur með kennara Smábátsins í dag. Hann er að standa sig ágætlega, þrátt fyrir allt annríkið, en hann mun debjútera í sínu fyrsta hlutverki hjá Hugleik í Þessu mánaðarlega. Nú erum við að reyna að ala upp í honum Sjálfstæði í Skipulagningu Heimalærdóms og Píanóæfinga. Fer allt að koma.

Og þetta er nú aldeilis ljómandi fína haustveðrið. Og er spáð áfram um helgina. Og, eins og við manninn mælt, ég og Bandalagið ætlum einmitt að sitja hana alla af okkur inni á fundum.

25.9.06

Bátar

Ég er landkrabbi. Meira að segja svo mikill landkrabbi að maður úr miðjum Bandaríkjunum hefur kallað mig landkrabba. Þess vegna veit ég ekki baun um skip eða báta. (Sem er fyndið í ljósi þess að ég er búin að giftast Rannsóknarskipi og bátkenna alla fjölskylduna mína.) Þess vegna er hálfgerð sóun að ég skuli hafa útsýnið sem ég hef úr stofuglugganum mínum. Það snýr yfir smábátahöfnina og slippinn, og það gáfulegasta sem ég get nokkurntíma haft um það að segja er: Nei, sko. Þarna er bátur! Svo er ég nýbúin að fatta uppá hvað það er miklu sniðugra að hjóla hafnarbakkann en Tryggvagötuna í vinnuna. Þó ég sé jafn fákunnandi um bátana þar og í smábátahöfninni.

En á föstudaginn sá ég nokkuð merkilegt. Nefnilega grátt skip með einhverju á sem leit út eins og fallbyssa. Og DANSKA fánanum! Í dag var sama skipið í höfninn, og nú var komin þyrla á dekkið. Mig grunar að Danir séu búnir að bíða í öll þessi ár eftir að ammríska hernáminu linni og ætli nú að koma aftur, með einokun og dönskuslettur. Ætla sennilega bara að bjóða okkur þyrlur og halda að málið sé dautt.

Annars er ég miðaldra í dag. Mig langar í hillusamstæðu.