26.4.08

Breyt

Í gær hringdi í mig skáldkonan amma mín að westan og boðaði komu sína í heimsókn, um sólarhring síðar. Þetta þótti okkur Rannsóknarskipi hið besta mál og hinn allrabesti fyrirvari. Nógu langt til þess að maður geri sæmilegt heima hjá sér, til tilbreytingar, en ekki svo langur tími að maður fari að þrífa ofanaf eldhússkápunum.

Í morgun skruppu Rannsóknarskip og Freigáta á bæi og urðum við Hraðbátur eftir í tiltektinni. Smábátur slapp þar sem hann er á Akureyrinni og var pískaður til að gljáfægja herbergið sitt áður en hann fór.

Eftir nokkra sópun datt mér í huga að sópa líka undan sjónvarpinu "og öllu því". Þegar það var alltsaman komið úr stað og búið að stinga undan datt mér í hug að gá hvernig sófinn færi hinumegin. Hann fór ágætlega þar. Skemmst frá að segja að nú snýr stofan öll hinsegin og er svo fín að ég tími ekki að fara út úr henni til að þrífa baðherbergið.

Ennfremur ætlar Rannsóknarskip að bæta um betur og elda lambalæri með "öllu" (sem heitir víst rauðkál og grænar baunir) í kvöldmatinn, handa fjölskyldunni, ömmunni og Huggu móðu. Og hann er einmitt að sigla heim úr búðinni núna.

Jæjah. Best að brúka lognið á meðan börnin sofa til að klára tiltektarþrifin.

25.4.08

Annar í sumri

Og ég heima með lasna Freigátu sem var með mikinn hita í gær og nótt, en er öll að skríða saman. Fær samt að fara til læknis á eftir og láta skoða í eyrun, til frekasta öryggis. Hún er lystarlaus, en borðar ímyndaðan ís úr bollastellinu sínu með áfergju yfir Barbapapa. En það hlaut að koma að þessu. Hún var búin að vera horlaus í... bara alveg hálfan mánuð eða eitthvað.

Ég fékk að heyra leikritið sem ég á að skila á fimmtudaginn, í gær. Mæltist það sæmilega fyrir, samt ýmislegt eftir, og ekki vinn ég neitt í því í dag. Er samt að reyna að fá ekki mjög slæmt taugaáfall eða neitt. Ég þarf bara að þræla aðeins meira en venjulega á Rannsóknarskipinu heldur en venjulega.

Og eftir 1. maí get ég alfarið farið að einbeita mér að því að lesa gamla hugleixdóma, gömul viðtöl við hullara, ávörp formanna í leikskrám fyrr og nú, fundargerðir fyrri tíma og síðari og hnoða síðan allt saman í eitthvað ritgerðarkyns. Og þar sem ég er í stuði fyrir langar sögur þessa dagana, ætla ég bráðum að skrifa hérna söguna af því hvernig ég varð næstum innfæddur Hugleikari... en samt ekki.

24.4.08

Það er eitthvað svo mikið að gerast

a�� ��g er a�� hugsa um a�� setja bara haug af myndum af b��rnunum �� tilefni af sumardeginum fyrsta. Gle��ilegt sumar!
(��g hef ekki hugmynd um af hverju ��essi mynd af Fri��riki lenti svona �� mi��juna... en m��r finnst ��a�� mj��g k��l!)






23.4.08

Af þunglyndunni

Ég er ekki alki.

En það er ekki mjög langt síðan ég varð alveg viss. Þar til fyrir tiltölulega skömmu gat ég nefnilega alls ekki huxað mér að lifa algjörlega án þess að fá mér stöku sinnum í tána. Þurfti ekki að gerast oft eða mikið, en það var eitthvað við neyzlu áfengis sem mér fannst ég alls ekki geta lifað án.

Þetta hefur oft valdið mér vangaveltum í gegnum árin. En ég hef mikið skoðað áfengissýkina og fyrir utan þetta eina, sem er reyndar mjög snar þáttur í þeim sjúkdómi, þá fannst mér ég samt ekki haldin neinu því sem einkenna á þann sjúkdóm. Hvað var þá málið?

Ég held ég hafi komist að því þegar ég lærði nýtt hugtak í heimildaþáttum Stephens Fry um Bipolar Syndrome, eða geðhvarfasýki. Þar talaði hann m.a. aðeins um self medication, eða sjálfsmeðhöndlun. Hann sagðist m.a. hafa sjálfsmeðhöndlað sín geðhvörf með áfengi og kókaíni um tíma. Og rann þá upp ljós fyrir minni.

Fyrir nokkru hætti nefnilega áfengisdrykkja af neinu tagi að vera mér nauðsynleg. Ég gerði mér ekki algjörlega grein fyrir hvað gerðist eða hverig. Allt í einu urðu samdrykkjur með skemmtilegu fólki... jú, alveg jafnskemmtilegar og áður. Ef ekki bara skemmtilegri. En alls ekkert nauðsynlegar. Og höfðu heldur ekki jafndramatísk andleg eftirköst. Meira bara svona venjulega þynnku. En áður en ég náði að upplifa þessa ljómandi skemmtan mjög oft (sem var þó óneitanlega líka sjaldnar, þar sem hún kom ekki lengur til af neinni innri þörf) var ég nú bara aftur orðin ólétt og tók hreinlega ekkert eftir neysluleysi áfengis sem því fylgdi í þetta skiptið. Ég tók hins vegar heilmikið eftir því síðast.

En eftir að ég skildi til fullnustu hugtakið self medication eða sjálfsmeðhöndlun, áttaði ég mig. Síðan ég nokkru eftir að ég hóf hina hugrænu atferlismeðferð hef ég ekki orðið vör við nokkurn skapaðan hlut af þunglyndi. Fyrst eftir að meðferð lauk þurfti ég að beita aðferðunum sem ég lærði í henni markvisst en þess þarf ég ekki lengur. Ég geri það sennilega alveg ósjálfrátt og án þess að taka eftir því. Heimurinn ferst aldrei lengur yfir neinu, ég er aldrei óeðlilega þreytt eða félagsfælin og hef ekki orðið vör við óyfirstíganlegt vandamál mjög lengi. Ég hringi hiklaust í fólk ef ég þarf (mitt fyrsta þunglyndiseinkenni er yfirgengileg símafælni) og fer algjörlega hvatningar- og ástæðulaust út úr húsi, helst á hverjum degi.

Ójá, ég er orðin algjörlega óþunglynd. Auðvitað ekki þar með sagt að þetta geti ekki hellst yfir mann "eins og hland úr fötu" eftir 27 ár eins og kom fyrir Árna Tryggvason, en ég er nú meira að segja svo léttlynd að ég hef ekki baun af áhyggjum yfir því.

En ég held að ég hafi, alveg fram á þarsíðasta ár, sjálfsmeðhöndlað mitt klíníska þunglyndi með áfengi. Fyrr á árum gerði ég það líklega með drama. Þá á ég ekki við þetta skemmtilega sem á leiksviðunum gerist, heldur lífsdrama. Gjarnan karlmanna- og sambandatengdu. Hætti því þó þegar ég áttaði mig á því að vandræðalausir menn væru vænlegri kostir en vandræðamenn og tók umsvifalaust upp hið vandræðalausasta samband við Rannsóknarskipið sem ég treysti mér til að fullyrða að líður ekki undir neins konar lok meðan við bæði lifum. En hann var til að byrja með, ólíkt öllum undangengnum, ekki haldinn neins konar skuldbindingafælni.

Þegar ég spekúlera í því huxa ég að mjög margt af ógæfufólkinu sem býr hvergi og hangir bara í miðbænum, sé í rauninni ekki með alkóhólisma, heldur sé að sjálfsmeðhöndla eitthvað allt annað. Með frekar litlum og dýrkeyptum árangri. Og ekki er einu sinni víst að það séu alltsaman geðsjúkdómar. Ég get alveg ímyndað mér að einhverjir séu að reyna að deyfa fortíðina, uppeldið, eða bara lífið og tilveruna. Sumir eru nefnilega óskapleg viðkvæmir fyrir öllu.

En þetta var allavega nokkuð sem ég áttaði mig ekki á fyrr en eftir á. Og ég held að óhætt sé að alhæfa nokkuð örugglega um að sjálfsmeðhöndlun með aðstoð áfengis eða annarrar sjálfseitrunar kunni ekki góðri lukku að stýra. Meðhöndlun kvilla manns ættu fagaðilar helst að stýra. Maður sér sig nefnilega svo illa.

Sijitt, maður

Var í mesta sakleysi að djöflast við að ná deddlæni í smá prófarkalestri þegar ég heyrði undarlega tónlist, miðað við þátt, úr viðtækinu. 

Huxaði: Hver er að spila Rangur maður í þessum þætti?

Fór fram til að gá hvort amma hans Umma væri kannski í viðtali
Fékk alvarlegt raunveruleikasjokk.

Þegar skólafélagar manns eru farnir að vera í viðtölum í Laufskálanum.
Þá er maður sko orðinn miðaldra!

21.4.08

Saga af flík

Systir mín ofurfrænkan segir að þegar maður sé farinn að blogga um veðrið sé kominn tími til að hætta því. Þess vegna er um að gera að hefja þessa færslu á veðrinu.

En þegar veðrið er svona, hitinn í kringum 10 stigin vindurinn frekar kaldur og aldrei að vita hvort er að koma sól eða rigning, þá dreg ég fram mjög merkilega flík. Við fyrstu sýn virðist hún vera ósköp venjuleg hettupeysa, svört eins og syndin, nema með nokkrum hvítum málningarslettum á bumbunni. En flík þessi á sér merkilega sögu.

Hana fékk ég "lánaða" hjá írskættaðri vinkonu minni Mel að nafni. Hana þekkti ég úti í Montpellier, en hún hefur síðan horfið af yfirborði jarðar, enginn veit um hana í Mont og ekki gúgglast hún. (Imelda Philpott frá Cork. Ef einhver hittir hana bið ég að heilsa henni.)

Hina ágætu flíka hafði hins vegar téð Mel fengið "lánaða" hjá félaga okkar, ameríska Tom. Svo kallaður til aðgreiningar frá enska Tom, sem bjó líka á svæðinu. Bróðir ameríska Tom hitti ég úti í Montpellier síðastliðið sumar, bað hann fyrir kveðju til upphaflegs peysueiganda með þeim skilaboðum að flíkin væri í gíslingu á Íslandi og yrði aldregi framseld. Bróðirinn, hvers nafn ég man nú ekki í svipinn, taldi engin tomerki á að færa bróður sínum skilaboðin, næst þegar hann heyrði til hans, en sá var kominn eitthvurt til Englands, minnir mig. 

Bróðirinn kannaðist við málið, enda sá Tom sá ammríski mjög eftir flíkinni góðu. Reyndar svo mikið að síðast þegar ég hitti hann hótaði hann mér lögsókn og málaferlum fyrir peysuþjóðfnaðinn yrði henni ekki skilað hið fyrsta. Hefði ég þá nú skilað henni, hefði ég getað, en þá vildi nú svo við að flíkarfjandinn var farinn með flestum mínum tjörgum til Glaðskóga. Svo þegar Interpúll kemur og handtekur mig, þá veit ég hvað hann vill.

Fyrr en þessar hótanir komu fram vissi ég nú bara ekki um dálæti ammríska Tom á spjörinni. Né heldur þá staðreynd að hann hafði til að byrja með haft fyrir því að þjófstela henni frá móður sinni, alla leið vestrí Kalifornjuríki. En hvað menn hafa að gera við svo skjólgóðan fatnað þar syðra, því eftir því sem mér sýnist í sjónvarpinu er ævinlega sundfataveður þar um slóðir.

Málningasletturnar eru síðan minjagripir um leikmyndina í Gaukshreiðrinu á Egilsstöðum, sem ég málaði óvart í peysugarminum. Mér þykja þessar slettur gera flíkina síst ómerkilegri þar eð þetta eru hugsalega síðustu minjagripirnir um tilvist þessara fínu leikmyndar sem vísast er löngu kominn í gúanóið. Einu sinni átti ég rauðan bol með brúnni málningarslettu og bláar gallabuxur með gulri. Þessum flíkum henti ég með mikilli eftirsjá þegar hvurutveggja var orðið á þykkt við köngulóarvef af ofnotkun. Og dálætið kom að mestu til af málningarslettunum. Þær voru nefnilega úr Kardemommubænum.

20.4.08

Hvíthyski

Rannsóknarskip drakk sig fatlaðan á árshátíðinni og kom heim undir morgun í ástandi sem ég hef aldrei nokkurn tíma séð hann í, eða nokkru sem nálgast það. Og mun sennilega aldrei framar. Mér heyrist hann vera á leiðinni í Góðtemplararegluna um leið og Alkaseltzerinn fer að virka.

Meðvirka móðurskipið fór út með börnin í bítið, til þess að fulli pabbinn gæti nú klárað að sofa úr sér. Freigátan sagði hverjum sem heyra vildi að pabbi væri sofandi og lasinn. Ég ímyndaði mér að ég sæi fólk renna meðaumkvunarauga til aumingja illa giftu konunnar með ungu börnin og beið bara eftir að einhver kæmi með bækling frá Al-anon.

Núna er þunni pabbinn og þreyttu börnin að leggja sig, myglan í þvottahúsinu vex og vex og mér þykir meira í anda ástands fjölskyldunnar í dag að horfa á póker á Skjáeinum heldur en Silfur Egils.