2.11.05

Mikil lifandis skelfingar

óssköp er leiðinlegt að liggja einhversstaðar í eigin hori þegar svona margt skemmtilegt og spennandi er að gera, gæti maður.

Þessa vikuna ætlaði ég þvílíkt að vera dugleg að vera úti á Eyjarslóð á leikæfingum á kvöldin og föndra hlandkoppa úr pappamassa og hlæja að öllu skemmtilega fólkinu. Mér finnst þetta æfingatímabil vera búið að vera svo þrælskemmtilegt að mér finnst alveg hrikalega leiðinlegt að vera bara að missa af heilli viku þegar það er alveg að verða búið. Það sökkar feitt. En ef maður vill vera Pollýanna, þá er náttlega skárra að liggja núna en t.d. í næstu viku (aðfaraviku mánaðarlex í þjóðleikhúskjallara) eða þarnæstu (aðfaraviku frumsýningar).

Annars er ég að dunda mér við að liggja og mynda mér skoðanir á ýmsu, og geri allskonar aðgerðaáætlanir sem ég gleymi síðan alltaf þegar ég sofna. Annars var verið að stinga uppá að ég hætti að eyða þessu fína óráði í vitleysu og færi að brúka það í eitthvað af viti, eins og einþáttunga. Og það er í athugun.

Er að huxa um að láta blogger ráða nafninu, en hann segir: blpfsqiw.
Hvað segir það mönnum?

1.11.05

Heimsyfirráð og dauði

Flotinn er að leggja af stað norður á bóginn svo ég verð heilt alein heima fram á sunnudag. Er hins vegar búin að finna ýmsar aferðir til að stjórna heiminum af sóttarsæng með aðstoð tölvu og síma. Birgðir eru allt um kring af snítupappír og kvefléttandi meðölum ýmis konar, svo sterkum sem ástandið leyfir, svo ég hef ekki huxað mér að láta væsa um mig, hvað sem það nú þýðir.

Annars er ég með hálfgerðu óráði, þannig að heimsyfirráð eru kannski ekkert svo svakalega góð hugmynd akkúrat núna. Búin að eiga heilmikil tölvupóstsamskipti út um allt, en er ekki alveg viss um hvað af þeim mig hefur dreymt. Held samt að ég hafi örugglega boðað æfingu á Bara innihaldið heima hjá mér í kvöld... vonandi.

31.10.05

Hor og slef

Flensudraugurinn náði mér. Ég vaknaði meira að segja við það í nótt. Og á versta tíma, Rannsóknarskip og smábátur halda norður á bóginn á morgun og verða í næstum viku. Unnustinn minn getur auðvitað ekki á heilum sér tekið af áhyggjum af að skilja mig aaaaaleina eftir en ég er nú búin að vera að reyna að segja honum að það verði lítið hægt fyrir mig að gera á meðan ég ligg í mínu hori og slefi.

Verst finnst mér að missa af æfingum, en þá kemur æfingadagbókin að góðum notum. Svo er ég auðvitað með kvíðaröskun yfir öllu sem ég er ekki að gera í vinnunni, en það verður bara að hafa það.

Þannig að, þessa vikuna verður væntanlega mest óráðshjal á þessu bloggi. Sem gæti reyndar alveg orðið áhugavert.

Best að gera nokkur létt Sudoku þangað til Rannsóknarskip kemur úr yfirstandandi svaðilför, sem snýst um að bíða endalaust í biðröð þangað til bíllinn kemst af inniskónum, með pizzu!

PS. Jú, það verður að viðurkennast, það er hryllilega gott að láta stjana við sig þegar mar er veikur. Ég bara man ekki til annarrar eins þjónustu þannig að ég kann ekki að ætlast til hennar. Líklega eins gott að þeir yfirgefa mig á morgun. Annars gæti ég vanist þessu og gert mér upp samfleytta flensu næstu 10 árin.

Að gefnu tilefni er lag daxins söngur Kapítólu Karlsdóttur úr Jólaævintýri Hugleix, en þar kemur einmitt, margendurtekin, línan:
"Ég á svo góðan mann."
(Í laginu sem hann Snæbjörn samdi upp í konuna sína. Tilviljun?)