14.12.06

Þetta helzt

Það er verið að rífa vinnupallana utan af húsinu mínu. Spurning hvort maður ratar heim?

Og Pínósjett er dauður. Fáum harmdauði.

Einhver geðsjúklingur a la Criminal Minds veður um í Englandi og drepur vændiskonur. Á Maggabloggi er vitnað í glæmaumfjöllunamann Daily Mirror í viðtali við Sky News, en sá sagði eitthvað á þá leið að síðan væri nottla enn hræðilegra að nú þegar vændiskonur héldu sig innandyra vegna hættunnar þá væri "venjulegar, saklausar stúlkur" í hættu.
Á Bretlandseyjum eru hórur nebblega réttdræpari en aðrir.

Á Íslandi er löggan hins vegar réttdræp, í augum einhverra, þar sem maður lést í þeirra umsjá. Maðurinn átti að sjálfsögðu að fá að vera með ólæti þar sem honum sýndist, eða hvað? Mér finnst skerí að á íslandi geta Samtök Handrukkara hrætt lögguna í skothled vesti og stærri kylfur, og verið samt betur vopnuð. Ekki það að ég vilji að löggan sé vopnuð. Vil bara ekkert að neinn sé vopnaður neinu og að allir fari eftir lögunum. Er það skilið?

Og Stefán Jón Hafstein er á leiðinni til Afríku til að skipta sér af menntamálum. Spurning um að vara afríska tónlistarskólanema yfir 25 ára við?

13.12.06

Andvaka

Nú fer að styttast í hin árlegu fyrirjólarólegheit. Í ár hef ég huxað mér að brúka þau að mestu í gardínusaum. Undanfarið hef ég verið arfasyfjuð. Sofnað alveg örmagna yfir huxunum um allt þetta leiðinlega sem ég þarf að gera á morgun. Í dag þarf ég eiginlega ekki að gera neitt. Sem var sennilega ástæða andvakanna í nótt. Nú má ég nefnilega bara gera það sem mér sýnist. Gaman? Já, vissulega. En geðveikin mín er hrædd.

Mér finnst ég nefnilega ekki vera að gera gagn í mannlegu samfélagi nema ég sé stressuð. Nema það sé vandamál. Nema eitthvað sé neikvætt. Nema eitthvað mál þurfi að leysa. Ef allt er gaman og skemmtilegt og hvergi ber nokkurn leiðindaskugga á, þá er ég ekki að standa mig... í lífinu. Auðvitað veit ég að þetta er della.

Ég veit að utan örfárra skylduverka og skúringa þarf ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annan en það sem mér sýnist. Mér ber engin skylda til að vera stöðugt að stressa mig yfir einhverjum "málum". Ég þarf ekkert að fara í neins konar klessu þegar ég heyri vandamál sem aðrir eiga við að stríða eða hafa búið sér til heldur. Mér er fullkomlega frjálst að segja bara "iss" og nenna ekki að vera í kringum leiðindi. Augljóst? Kannski. Þess vegna geng ég til sálfræðings. Var að hitta hana í síðasta sinn fyrir jól í gær. Frábært eins og venjulega. HAM rúlar.

Við Freigáta erum að fara í sund á eftir. Þar eru allavega ekki leiðindin!

12.12.06

Bloggdofin

Það er óvenjumikið um fréttahlé. Það er svakalega óvenjulegt. Hef bara óvenjulitla þörf fyrir að tjá mig um nokkurn skapaðan hlut. Veit ekki hvort sálfræðingurinn minn segði að það væri fram- eða afturför. Spyr hana kannski á eftir.

Það er helst í fréttum að Freigátan kann að segja "datt". Þetta segir hún þó ekkert sérstaklega þegar hlutir detta. Eftir nokkra rannsóknarvinnu komst ég að því að þetta þýðir "takk". Um nokkurt skeið hafa líka allir hlutir verið "búdda". Eftir nokkra rannsóknarvinnu held ég hún sé kannski að reyna að komast upp með að blóta með því að gera það á frönsku. (Putain)

Fór í nýja IKEAÐ í gær. Það er STÓRT. Maður sér varla nokkra hræðu. Svo hefur verið fundið upp á þeirri nýbreytni að hafa hrausta menn fyrir utan sem hjálpa litlum konum að koma stórum hillum í bílana sína. Er það ljómandi.

Í morgun fórum við hjónin í blóðtökur vegna líftryggingar. Í kvöld ætla ég að gefa stjórn Hugleix súkkulaði. Svo vil ég að "geri" fari að aflétta svo ég geti farið að stytta gluggatjöld. Ýmislegt hefur þó hreyfst á heimilinu. Nú er búið að ganga frá næstum öllu sem var í stórum kassahaug inni í aukaherberginu (sem á að verða skrifstofa/gestaherbergi) og allar bækur að verða fluttar í hillur.

10.12.06

Umhreiðrun

Lítið um blogg eða tíðindi. Hér liggur allt í hreiðurgerð og jólaundirbúningi. Mig er farið að verkja af gluggatjaldaþrá og ætla að reyna að komast í IKEA. Er líka búin að vera að garfa í myndum heimilisins og var kannski að senda einar 204 í framköllun hjá honum Hansi Peterssen. Fer eftir því hvort það tóxt... tölvunni minni ber ekki saman við sjálfa sig. Ef það hefur gerst verða myndaalbúma og -rammamál heimilissins nú aldeilis tekin í gegn.

En heimilið okkar er ægifagurt og okkur líður alveg hrikalega vel hér. Og bara öllum sem rekið hafa inn nefið líka, hefur mér sýnst. Enda langar mig ekki baun út úr húsi. (Nema kannski pínu í Ikea.) Heldur vil ég bara vera heima og negla í veggina mína og raða.

Smábátur var í norðrinu um helgina og ég svaf heil ósköp og Rannsóknarskip þýddi og kvefaðist en Freigátan reyndi hins vegar að láta sér batna horfossinn.

Og enn tvær vinnuvikur til jóla.

*andvarp*