4.2.11

F****** föstudagur...

Ætli ég sé ein um að vera alveg meinilla við föstudaga?

Á hverjum föstudegi rignir inn á fésbókina allskonar "thank god it's friday" athugasemdum. Og ég urra bara. Mér finnst föstudagar erfiðustu dagar vikunnar. Ég er alltaf orðin drulluþreytt eftir vikuna, krakkarnir líka, og ekki nóg með það, svo á maður oft að vera í "stuði" á föstudagskvöldi. (Ef ekki það þá er hálfur bærinn í stuði, og maður heyrir óminn af því í fjarlægð þar sem maður liggur í sínu geðvonskukasti undir sæng.) Á föstudagskvöldum er ekkert haft í sjónvarpinu sem horfandi er á. Á neinni stöð. Nema kannski fyrir unglinga. Ef maður er orðinn eldri en unglingur á maður að vera útí bæ. "Í stuði."

Ekki nóg með það, svo tekur við helgin þar sem allt þarf að gerast og þar fyrir utan þarf líka að hafa óstjórnlega GAMAN! Auðvitað þarf að viðra krakkaormana og svona, já og vera með samviskubit yfir öllu sem maður er ekki að gera, viðburðunum sem maður er ekki að sækja, vinunum sem maður er ekki að heimsækja. Svo ekki sé minnst á þvottinn sem maður nær ekki að þvo, herbergjunum sem maður nær ekki að þrífa, öllu draslinu sem maður nær ekki að skipuleggja eða holla matnum sem maður nennir ekki að elda heldur pantar pizzur í staðinn. Já, og kílómetrunum sem maður nennir ekki að hlaupa.

Ég verð nú bara að viðurkenna að ég verð alveg drullufegin á hverjum einasta mánudagsmorgni þegar hin rútíneraða rútína tekur aftur við með mætingartíma, fundum, skilafrestum, leikskóla og pasta. Reglulegum háttatíma og fótaferð. Fésbók og þremur kaffibollum á dag og prjónaskap yfir reglulegri sjónvarpsdagskrá á kvöldin.

En nú er víst föstudagur.
Ég þyrfti að leggja mig í svona 3 tíma.

En í kvöld á víst að "vera í stuði."

*Andvarp.*

3.2.11

Þrjú ár!

Klukkan 07.24 í morgun voru þrjú ár frá fæðingu þessa unga manns, Hraðbátsins. Fæðingin útheimti tæpa næturvöku og daginn eftir gat ég ekkert sofið í Hreiðrinu af því að ég þurfti svo mikið að horfa á hann. (En hann lét það ekkert raska ró sinni og vaknaði ekkert mikið fyrstu dagana.)

Hann er Vatnsberi eins og Freigátan og fæddur á kínversku ári svínsins með eld að frumefni. (Þess má geta að systir hans er líka Vatnsberi, fædd á ári hanans með tré í frumefni og þeim kemur afar vel saman... sem hægt væri að draga einhverjar ályktanir af, ef maður nennti.)

Það sem mér finnst merkilegast er að mér finnst Freigátan nýkomin af fæðingardeildinni og mér finnst ég nú eiginlega bara nýorðin ólétt af Hraðbátnum. Hætti bara ekki að furða mig á hraða tímans þessa dagana...

Hraðbátur viðhefur klósettferðir eingöngu eftir geðþótta og tekur ekkert undir samningaviðræður um bleyjuleysi. En tæpt ár er síðan hann lærði alla stafina. Vafalaust einhverskonar misþroski þarna á ferðinni.

Hraðbátur er búinn að halda upp á afmælið sitt, en á samt eftir að fá tvo pakka sem ég geymdi fram á réttan dag. Ég reikna með því að nýjasti Hálfvitabolurinn og bókverkið „Selur kemur í heimsókn“ komi til með að slá í gegn, eftir leikskóla.

31.1.11

Nokkrar staðreyndir um Arles


1. Arles er "lítil" borg í Suður-Frakklandi, ekki svo svakalega langt frá Montpellier.

2. Ég hef samt aldrei komið þangað.

3. Þar er rómverskt "arena" og miðbærinn er eldjökulgamall.

4. Fólkið sem bjó á undan mér í íbúðinni minni í Montpellier, flutti þangað.

5. Þar ku vera góður ljósmyndunarskóli.

6. Í gær sendi ég tölvupóst til Arles. Þar býr nefnilega fólk sem á hús og vill gjarnan komast í íbúðaskipti við fólk sem á hús í Reykjavík, Íslandi, í nokkrar vikur í sumar.

7. Ég veit bara ekki hvort við eigum fyrir farinu...