4.12.04

Útlitsdýrkun í jólalagi

Í fyrra var ég að hlusta á hina snilldarlegu jólaplötu með Þrjú á palli. (Gjarnan nefnd JólaplatAN með ákveðnum greini á mínu heimili.) Og fór að hlusta á textann í jólalaginu sem byrjar:

Ég þekki Grýlu og ég hef hana séð.
Hún er sig svo ófríð og illileg með.


Í þessu lagi er sumsé gerður aðsúgur að útlitinu á konugreyinu, því haldið fram að hún hafi 3 höfuð, eyru niður á læri og fleira. Hins vegar er ekkert minnst á hvað hún gerir, svona að öðru leyti. Boðskapurinn er einfaldlega sá að Grýla sé óheppin í útliti og þar af leiðandi vond og ill.

Segiði svo að útlitsdýrkun Íslendinga sé nýtilkomin!

3.12.04

Meira af jólalögum...

Um árið var mikil umræða um jólalagið „Jólasveinar ganga um gólf“. Ég hélt í einfeldni minni að þetta væri nú bara einhver bóla, menn myndu átta sig á því að það gengi náttúrulega ekkert að ætla að fara að breyta þessu með einhverju handafli. En, í gær heyrði ég útundan mér að það var einhver hljómsveit að spila jólalög á rás 2. Og, hvað heyri ég? Stúlka með fallega rödd syngur:

...uppi á hól stend ég og kanna...

og skammast sín ekki einu sinni. Ég bara tek ekki þátt í þessu. Ég segi heldur ALDREI Mexíkói. Mér er alveg sama hvað hver segir. Á meðan ég dreg andann skal ég syngja: Uppi á STól stendUR MÍN KANNA, og Lítill MexíKANI með somsombreró, þegar mér þykir henta. Og ekkert rugl.

Það er annars helst í fréttum að nú sér fyrir endann á prófarkalestrarferli mínum. Þykir mér það allt hið besta mál og hef sennilega aldrei verið jafn kát yfir að vera rekin úr nokkurri vinnu. Nú skal spýtt í lófa og lögð drög að aukafjáröflunum sem eru LÍKA skemmtilegar. Er þegar komin með nokkrar hugmyndir og vilyrði frá valinkunnum einstaklingum og lízt vel. Ekkert er nú samt enn á hreinu og allt veltur á því að ég vinni almennilega úr, sem er kannski ólíklegt að gerist miðað við minn letistuðul, þannig að ef einhver veit um einhver skemmtileg hlutastarfsverkefni sem tengjast mínu fagi og/eða áhugasviði og borgar eitthvað þá mega þeir gjarnan setja sig í samband.

2.12.04

Með vísnasöng ég kökuna mína hræri...

Þessi gullmoli barst mér að norðan í gær. Og ég fór að hugsa um jólalögin. (Hef reyndar ekki heyrt eitt einasta ennþá.) En datt í hug nokkuð sem mig hefur lengi langað til að gera. Nefnilega skoða aðeins texta Sveinbjörns Egilssonar við Heims um ból, út frá heilbrigðri skynsemi og orðabók menningarsjóðs. Það er nefnilega margt skrítið í kýrhausnum.

Heims um ból
helg eru jól.


Gott og vel. Svolítið verið að benda á hið augljósa kannski en...

Signuð mær... (!)

Bíddu nú við? Signuð? Er það gott eða slæmt? „Æi, þú veist, hún Mæja. Hún er eitthvað svo siiiiignuð, mar...“

...son Guðs ól,...

Lengi vel hélt ég að þetta ætti að vera son Guð sól, og fannst það bara alveg í samræmi við vitið í þessum texta.

...frelsun mannanna, frelsisins lind
frumglæði ljóssins,...


Frumglæði! Ójá. Og frumglæði ljóssins? Það eina sem mér dettur í hug er kveikjari. Þá er þetta orðin skemmtileg myndlíking. En svo kemur meira undarlegt:

...en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.

Takkfyrir það. Það eina sem mér dettur í hug er að hér sé verið að þýða sum orð beint úr ensku: Mannkind=mankind, Meinvill=meanwhile. Semsagt, á mannamáli, gjörvallt mannkyn var í myrkrinu á meðan. Meikar sens. Annars er þessi meinvill búinn að þvælast fyrir mér alla ævina.

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,...


Tímaflakk, gott og vel.

...liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,...


Hins andlega... seims? „Já, góðan daginn, ég er að huxa um að ganga í þennan sértrúarsöfnum, ég þarf nefnilega að finna minn andlega seim. Hef grun um að hann sé einhvers staðar við hliðina á konunni í sjálfri mér...“ Nema hér sé aftur verið að beinþýða... lifandi brunnur hins handlega, seems... og þá erum við farin að bregða sálmaskáldinu um vantrú.

konungur lífs vors og ljós.


Gottogvel.

Heyra má himnum í frá
englasöng: Allelújá.
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér


Tilreiðir sér? Já, ég tilreiddi mér íbúð um daginn. Svo tilreiddi ég mér nýjan kærasta... Ég er að huxa um að fara að nota þessa ágætu sögn. Að tilreiða.

samastað syninum hjá.

Og það.

Það eru mörg jólalög sem ég skil ekki. Hef til dæmis aldrei skilið hvað lögin „Gekk ég yfir sjó og land“ og „Adam átti syni sjö“ hafa með jólin að gera. Og hvað var hann líka að klappa saman lófunum og stappa niður fótunum og snúa sér í hring eins og fífl? Varð það bara svona almennt eitthvað sem menn gerðu þegar þeir voru búnir að eignast sjö syni og sá? Var maðurinn eitthvað bilaður? Það var kannski líka hann sem var gamli maðurinn sem bjó hinu megin við sjó og land og gat ekki ákveðið hvar hann átti heima? Sá stappaði líka og klappaði og lét öllum illum látum.
Ég held það hafi nú bara verið eitthvað að honum Adam.

1.12.04

Druslan búin í skoðun, fékk ljótan endurskoðunarmiða. Það þarf víst að laga eitt og annað. (Hvur skrattinn eru stýrisendar, til dæmis?)

Fékk fagkast og hafði samband við nokkra til að skoða mig um í verkefnum í menningartengda heiminum. Viðbrögðin létu ekki neitt á sér standa og nú þarf að dusta rykið af heilasellunum og setjast niður og skrifa niður eigin hugdettur í sambandið við ýmislegt. Gangi það sæmilega get ég huxanlega lagt stafsetningarskóna á hilluna einhvern tíma á næsta ári. Það væri nú vel þar sem ég hef komist að því að stafsetningar- og málfræðiáráttu minni er stórlega ábótavant.

Og Lalli Vill missti legvatnið yfir Memento Mori. Enda fyllsta ástæða til. Sýning í kvöld, allir áana.

Og, Gleðilegan Desember! Nú má víst hengja upp jólaljós og þruma jólalögin hástöfum án þess að nokkur fái hland fyrir hjartað.

Já ég vildað alla daga, væru jól! (Syngi hver með sýni nefi og Eiríks Haukssonarlegum tilþrifum.)

Og, hið ódauðlega tilþrifaverk, Þegar Grýla stal jólunum, eftir mig sjálfa, verður haft til sýningar á litlujólum Grunnskóla Seyðisfjarðar. Ósköp yljar það nú.

30.11.04

Nú er Gunna á nýju skónum, og bíllinn minn líka. Kominn á flunkunýja takkaskó að framan, þar sem dekkjamaðurinn úrskurðaði tvö gömlu dekkjanna óviðræðuhæf. Einnig tjáði hann mér að minn bíll væri einn af kannski tíu á landinu sem væri á þessari stærð af dekkjum. Frekar pirraður. Ég var hins vegar hin kátasta, alveg hamingjusöm með að bíllinn minn væri soldið spes.

Og Rannsóknarskipið hefur haldið úr höfn og ég veit ekki hvort mér auðnast að berja það augum eða útlimum aftur á þessu ári. Eitt fyndið kom nú samt upp á yfirborðið, svona fyrir þá sem þekkja brekkum****-húmorinn. Frá hvaða bæ í Eyjafirði haldiði að maðurinn sé? Já, það er margt í mörgu.

Í dag eru orðin 36 ár síðan foreldrin mín giftu sig. Það var nú gott hjá þeim. Mér finnst við hæfi að minnast á það hér, þar sem þeim þykja brúðkaupsafmælin sín svo ómerkileg að þau muna yfirleitt ekkert eftir þeim.

Í dag ætla ég líka að fara að grafa upp jólaskrautið á skrifstofunni.

Og á morgun kemur desember. Aftur. Þetta er nú ekki fyndið með tímann.
Líklega best að fara að huxa upp hverju maður ætlar að ljúga í næsta áramótapistli.

29.11.04

Nú ætla ég að éta ofan í mig orð mín og gera leikskáldin ómerk sinna.

Í gærkvöldi þegar ég kom heim úr vinnunni var þar fyrir maður. Ójá, rannsóknarskipið mitt var búið að ELDA! Og var svona líka ógurlega kátur yfir sigri Liverpool á Arsenal. Ókei. Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki annað en glaðst með Dásamlega Manninum og svarti listinn er farinn veg allrar veraldar.

Enda er bara ekki hægt að vera með einhverja fjúríu þegar lífið er svona dandalagott.

Sennilega þarf maður að ákveða hvort maður nennir að vera Scorned.

Þetta var annars með betri helgum í heiminum. Frumsýning á Mementó á fimmtudag gekk ljómandi, held ég. Nú er bara að gá hvað rýnendur segja. Mér skilst að þeir hafi mætt á sýningu í gær.

Svo var bara gargandi rómantík, svona inn á milli helgarvakta á DV og stjórnarfundar á Bandalaginu. Og rannsóknarskipið siglir eftir hádegi. Alheiminum til armæðu. Og ég veit ekki hvenær ég hitti það aftur. *Andvarp*

En það þýðir víst lítið að væla yfir því. Komin vinnuvika og allt mögulegt að gera í henni. Er með mikil plön um aðventuföndur, ekki get ég þó enn séð hvenær tími gefst til slíks. Bíllinn er enn óskoðaður með sprungna framrúðu á inniskónum og á víst líka að fara í sprautun einhverntíma. Gluggatjaldamál í helberum ólestri, enda saumavélin að leika í Mementó, og yfirhöfuð undarleg afstaða á milli hlutanna heima hjá mér og ýmsar mublur ósóttar út um allan bæ.

Já, ég held að það verði örugglega komin jól áður en ég verð tilbúin fyrir þau.