22.1.04

Góðan dag og gleðilegt nýtt ár í Kína!
Nú er víst hafið ár apans. Kínverjar eru kátir yfir því, enda búnir að halda í sér barneignum fram yfir áramót til að forðast að eignast börn á ári sauðkindarinnar. Sauðbörnin ku vera hinar mestu vandræðamanneskjur.
En, nú kemur ekki annað sauðár fyrr en eftir 12 ár svo við sem verðum komin úr barneign þá erum alveg sloppin við sauðbarnahættuna. Systir mín yngri er reyndar sauður, og ég veit ekki til þess að hún hafi verið mikið til vandræða. Nema náttúrulega þegar henni datt í hug að fæðast á milli jóla og nýjárs.

Annars þykja mér allar hjátrúr skemmtilegar. Nema náttúrulega þegar ég fæ vondar tarot- og stjörnuspár sem segja að maðurinn minn (sem er bæðevei líka sauðkind) sé djöfullinn og þar fram eftir götunum. (Djöflasauðkind? Orustufé?) Svo er svosem enginn kominn til að segja að svoleiðis "trúr" séu eitthvað meira "hjá" en ýmis önnur vitleysa sem maður trúir. Ég hef t.d. aldrei séð í mér lifrina. Tek nú samt orð annarra fyrir því að hún sé þarna einhversstaðar...

Þetta gæti verið síðan mín á kínversku: http://minnaok.blogspot.com/ (er í makka, einhverra hluta vegna ekki hægt að setja linka...)

21.1.04

Og það er ennþá rólegt eins og í meðalgröf.
Þá gerir maður svona:

flowers
You're not dark!!! Did you take the quiz just to
discover that? I mean, you must be some kind of
angel to get this result between all the
darkness...


Please rate ^^


What kind of dark person are you?
brought to you by Quizilla

Og allt í einu er ekkert að gera í vinnunni. Síminn hefur ekki einu sinni hringt í dag. Það eru kannski bara allir voða glaðir að leika sér úti í hlákunni.

Þá er um að gera að reyna að blogga flókna vangaveltu, en þá gerist yfirleitt eitthvað til að trufla mann. (Svona eins og þegar maður er einmana eða jafnvel aleinn í eyðimörk. Þá er um að gera að fara að leggja á kapal. Einhver kominn yfir öxlina á manni um leið!)

Þannig að. Eftirfarandi vangavelta hefur verið að veltast um í mér talsvert lengi, en vaknaði úr dvala í framhaldi af athugasemd á spjalli leiklist.is sem laut að því að kominn væri tími á konu í Þjóðleikhússtjórastól. Í framhaldi af því komu nokkur komment um "pólitískan réttleika" þessarar athugasemdar.

Málið er það að ég á í smá vandræðum með femínisma þessa dagana. (Eða árin... Jafnvel bara þetta lífið.) Ýmislegt sem ég hef heyrt í kvenréttindabaráttu seinni tíma hefur vakið hjá mér langar og flóknar vangaveltur, með litlum niðurstöðum.

Mér finnst fínt að vera kona. Ég er að mörgu leiti mjög fegin því. Mér finnst ég t.d. búa við miklu meira atvinnufrelsi! Nú er það algjörlega orðið samfélagslega samþykkt að konur geta stundað öll störf. Öll. Það er ekki snefill eftir af þeirri kröfu að konur skuli setja ljós sín undir mæliker og læðast um lífið í kvenlegri uppgerðarhógværð með biturð í hjarta og sinni. (Sumar af kynslóð móður minnar gera þetta reyndar af gömlum vana, ekkert nema pirrandi og ég held að það sé á leiðinni út.) Þeir afturhaldspúkar sem halda slíku fram eru að flestra mati kjánar sem enginn hlustar á, og konur í því sem áður kölluðust kallastörf eru bara kúl.

Í kallaheiminum er þessi þróun ekki að gerast eins mikið. Þar eru ennþá í gangi einhver undarleg "matsjó" viðmið og ég hugsa að margir karlmenn myndu seint "láta sjá sig" í einhverju sem hefði stimpil á sér sem "keeeellingastörf". Alveg burtséð frá því hvar áhugasvið þeirra liggur. Eins eiga þeir við allskonar komplexa að stríða, sumir, ef þeir þurfa að vinna undir stjórn kvenna o.s.fr.v.

(Eða reyndar undir stjórn neins, sumir, þar sem það er ennþá stutt í "Bjarturísumahúsum" komplexinn hjá mörgum og þess vegna þurfa allir að eiga sitt eigið fyrirtæki á Íslandi, en það er nú allt önnur vangavelta.)

Að einu leyti erum við Íslendingar þó nokkuð á undan, allavega bæði Frökkum og Bretlandseyingum, í jafnréttisbaráttunni. Við íslenskar keeeellingar ætlumst ekki lengur til þess að karlmenn sjái fyrir okkur. Ég held allavega að það sé mjög sjaldgæft. Sá hugsunarháttur er hins vegar ennþá áberandi á áðurnefndum svæðum. Þar held ég að karlmenn búi við einstaklega slæmar aðstæður. Konur eiga að fá að gera hvað sem þær vilja, en ekki að þurfa að taka fjárhagslega ábyrgð á gerðum sínum eða lífsstíl. Kallinn á bara að halda kjafti og borga. Í staðinn fær hann kannski reglulegt kynlíf... kannski. Þarna held ég séu að alast upp kynslóðir ídjótískra frekjukvenna sem hafa aldrei vanist því að þurfa að hafa vit fyrir sér. Uppihald fyrir að vera til. Að vera kona er nefnilega sums staðar fullt starf (!) Hver fann upp á þessari dellu? Að sama skapi og það er ekki hollt fyrir börn að fá allt fyrirhafnarlaust upp í hendurnar, gildir ekki það sama um fullorðið fólk?

Hér á landi ber sem betur fer ekki jafn mikið á þessari firru. Samt stingur það mig alltaf í eyrun þegar ég heyri þetta með að "konur eigi að geta valið hvort þær vinna utan heimilis eða ekki". Hvað með karlmenn? Eiga þeir þá ekki líka að eiga sama val? Mér finnst þetta hljóma eins og að konan eigi bara að velja hvort hún vill vinna eða ekki og kallinn á heimilinu verði síðan bara að haga sér og skaffa samkvæmt því. Ég held að þetta sé spurning um samninga á hverju heimili fyrir sig og kjánalegt að reyna að búa til einhver svona boðorð. Hversu mikið fólk vinnur hlýtur fyrst og fremst að fara eftir því hversu mikið það vill, eða hversu mikilvægur lífsstíll er fyrir hvern og einn.

Ég lifi t.d. þannig að ég vinn eins mikið og við það sem mér finnst skemmtilegt. Svo lifi ég á því sem ég vinn mér inn. Mér finnst ekkert atriði, að "eiga dót" eða "geta ferðast" eða halda uppi einhverjum "lífsstíl" hvað sem það nú er. Svo er ég líka með ofnæmi fyrir stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Ég sé ekki betur en að mér sé það líka alveg óhætt, það er til fullt af fólki sem finnst svoleiðis gaman. Ég veit ekki hvort ég hef þessa lífssýn vegna þess að ég er kona og ég veit að mörgum finnst hún "skrítin". Ég get bara ekki keypt þau trúarbrögð nútímans að lífshamingjan felist í eignum eða "fjárhagslegu öryggi" hvað sem það nú er. Þessu gæti verið um að þakka að ég er keeelling. Er ekki hluti af matsjó heiminum og þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum eða slá um mig með því sem ég á. Dótið mitt eða dótleysi, starfsframi eða ekki eða hversu dýran mat ég ét, segir ekki neitt um mína tilvist.

Og nú hef ég vafrað inn á hliðarstíg og er komin út í eitthvað rant sem kemur femínisma eða jafnréttismálum eiginlega ekkert við.

Sko! Það er þetta sem gerist alltaf!

20.1.04

Snilld daxins er msn. Þarf aldrei að nota síma framar.

19.1.04

Argaþras dagsins

Minn gamli heimabær (Egilsstaðir, Austur-Héraði) hefur verið pínulitið í fréttum undanfarið, mér finnst gaman að sjá myndir þaðan, það dregur úr fráhvörfunum. Tilefnið gerir mig hins vegar pöddubrjálaða í hverst skipti sem ég heyri minnst á þetta nýja fréttamál.

Það er nefnilega verið að fara af stað með samkeppni um miðbæjarskipulag í því ágæta plássi og í það á að spandera einhverjum 8 milljónum, þ.e.a.s., bara í verðlaunafé. Þess má geta að Minjasafn Austurlands sem býr í hálfkláruðu húsi við húsnæðis- og starfsmannaeklu var látið skera niður hjá sér kostnað á þessu ári, hluta af grunnskólanum er kennt í skúrum úti á skólalóð og leikfélagið verður að gera sér að góðu heilar 250.000 krónur á ári í styrk, engin aðstoð með húsnæði.

Aukinheldur. Þennan bæ má ganga horn í horn á fimmtán mínútum. Þarf miðbæ?
Aukin-aukinheldur. Ef endilega á að vera "miðbær" er þá alveg nauðsynlegt að hann sé á bílastæðunum við Kaupfélagið, í neðra horni bæjarins, fast við þjóðveg 1?
Svo veit ég ekki betur en að téður "miðbær" sé fullur af húsum og allskyns. Ef einhverjum dettur í hug að græða sér nokkrar milljónir til að hanna eitthvað á þessu svæði, þá þarf væntanlega að eyða nokkrum grilljónum í viðbót til að framfylgja því. Ekki satt?

Einhversstaðar heyrði ég þá fásinnu og firru að "flottur miðbær" myndi "koma Egilsstöðum á kortið". Eftir því sem ég best veit eru Egilsstaðir á öllum kortum, allavega þeim sem gefin hafa verið út síðan 1950.

Hvaða dauðans kjaftæði er þetta? Það er ekki undarlegt að illa gangi að reka bæjarfélög í landinu þegar verið er að eyða peningum í að hanna gosbrunna á meðan mennta- menningar og væntanlega öll önnur strarfsemi sveltu heilu fjárhungri. Allir skólar á svæðinu búnir að sprengja utan af sér og allar stofnanir kveinandi yfir blankheitum hvert sem litið er.

Hvað halda menn líka eiginlega að "nýr miðbær" geri?
"Já, förum í sumarfrí til Egilsstaða og eyðum öllum peningunum okkar þar. Eða flytjum bara þangað! Það er nefnilega svo gasalega lekker miðbær..."
Nei, ég held ekki.

Þetta er náttúrulega íslenska leiðin í hnotskurn, Eyða peningum sem eru ekki til í ekki nokkurn skapaðan andskotans hlut með viti. Ég vorkenni þessu bæjarfélagi alltént blankeheitin ekki rassgat þessa dagana. Heimska markaðsvæðingarinnar sýnist mér þarna vera að fara út í öfgar dauðans. Það er hálfvitalegt að eyða peningum í umbúðirnar á meðan innviðirnir svelta.
Og hananú!
Hmm. Aldrei slíku vant er ég ekkert að farast úr blogggleði. Sjáum nú samt hvað kemur.

Helgin var alveg ágæt.
Á föstudagskvöldið varð ég þeirrar óvenjulegu ánægju aðnjótandi að verða smá veðurteppt í ædol-partýi. Naut ég þar einnig í fyrsta sinn gestrisni frændsystkina minna þeirra Ella og Halldóru, og Skottu sambýlungs þeirra. Var þar vel veitt og gestkomandi sýnd blíða í hvívetna.

Á laugardegi gerði ég mér ferð, að afloknum snjómokstri, til systur minnar, hvar ég hlýddi á hið ágæta tónverk "Hver tók ostinn minn" sem nú er tilbúið undir slagverk. Er það að verða hin mesta snilld og ég hlakka mikið til að hlýða á frumflutning þess sem er áætlaður hjá Lúðrasveit Reykjavíkur þann 20. apríl næstkomandi.

Um kvöldið gerði ég síðan víðreist og fór í neyðarleiðangur til Hafnarfjarðar hvar unnusti minn lá með fastan bíl og heiftarlegt þunglyndiskast sökum knattspyrnuliðs erlendis sem hafði eigi hagað sér eftir hans geðþótta þann daginn. Já, það er margt, mannanna bölið. Var neyðarástandi aflýst, að ég held, eftir nokkuð DVD gláp og neyslu huggunarríks nammis í óhófi.

Á sunnudag þvældist ég fyrir á leikæfingu hjá Hugleik, þar er allt að gerast og viðhöfð hin besta skemmtan í æfingahúsnæði hvar hitastig er jafnan við frostmark. Við stefnum að því að gera Hugleikhúsið (sem er staðsett hálfa leið út á sjó) æfingarhæft fyrir næstu helgi.

Seinnipartinn var haldið í þrítugsafmæli Heiðu nokkurrar Skúladóttur í Breiðholtinu. Þar þótti ekkert fínt undir sautján sortum og veitt gífurlega af mikilli alúð. Þar fór sumsé eftirjólamegrunin endanlega í hundana, var þó farin langt með það, það sem af var helgar.

Kvöldið fór í áframhaldandi tilraunir til að gera unnustann að Buffy-fíkli, árangur óljós.

Og svo er bara aftur komin vinnuvika. Time's fun when you're having flies...