31.12.05

Áramót!

Eins og ævinlega hóf ég hönnun áramótapistilst á því að skoða þann síðasta. Honum lauk eitthvað á þann veg að nú ætlaði ég ekki að gera sviftingar miklar á árinu 2005, heldur horfa á sjónvarpið, prjóna og geispa. Held það hafi nú ekki alveg farið svo. Við skulum athuga þetta, í rökréttri röð.

Atvinnur og fjárhaxstjórn

Svo undarlega brá við á þessu ári að ég var bara mest lítið í lausbaeisluðum verkefnum. Bara á Bandalaginu mínu, næstum allt árið, og að þýða eitthvað mismikið. Hina vegar varð ég fyrir því happi að selja aftur nýkeyptu íbúðina mína, með milljónar gróða eða svo. Sparnaður sem felst í hamingjusamlegu fjölskyldulífi sem felur í sér að maður þarf ekki út fyrir veggi heimilis eftir félagsskap, sem og hverslags ólifnaðarleysi vegna óléttu, hefur síðan falið í sér svo mikinn sparnað að nú veit ég ekki aura minna tal. Og er það nú mikil snilld.

Leik-árið

Var óvenju gjöfult, held ég bara. Hófst á nokkrum sýningum á Memento Mori, sem hefur hlotið fádæmaviðtökur, þó reyndar allt of fáir hafi séð það. En síðast þegar ég vissi hugði nú sú sýning á einhver heimsyfirráð. Strax í upphafi árs hófust líka æfingar á Patataz, eftir Björn Margeir í leikstjórn Bergs Ingólfs. Það aðstoðarleikstjóraðist ég og sýningarstýrði. Það var lifandis skelfingar ósköp gaman og lærdómsríkt. Og vissulega meðvitaður þáttur í því að rækta leikstjórann í sjálfri mér, sem ég hef áhuga á að athuga betur næstu árin. Í beinu framhaldi leikstýrði ég líka mínu fyrsta verkefni, Bara innihaldið eftir Sævar Sigurgeirsson. Tefldi reyndar ekki á eitt einasta tæpt vað, fékk með skotheldan þátt og fékk pottþétta leikara, þau Heiðu mína og Sigga Páls og síðan leikstýrði þetta sér auðvitað bara sjálft. Var frumsýnt á aðalfundi Hugleiks í vor, hvar ég lét líka kjósa mig í stjórn og varð í framhaldinu varaformaður þess ágæta félax.
Í sumar héldum við vinnan mín síðan leiklistarhátíð á Akureyri sem tóxt með miklum sóma.
Eftir umræður um fjölskylduleikrit á aðalfundi Hugleix ákváðum við Toggi, eftir margra ára vangaveltur, að hefjast handa við að skrifa Jólaævintýri Hugleix. Fengum til liðs við okkur Sigrúnu Óskars, einn frumhöfunda Hugleix, og Snæbjörn “Bibba” Ragnarsson, pönkara og ungleikskáld. Varð það samstarf allt hið farsælasta og náði yfir leikstjórn verksins og allt. Eitthvað hefur virkað, aðsóknartölur eru allavega fram úr öllum vonum og ekki sér enn fyrir endann á Ævintýrinu. Ein sýning er eftir, verður hún á þrettándanum, (sem er 6. janúar) og ættu menn sem ekki hafa nú þegar að drífa sig, allir sem einn.

Og svo hamingjan

Og þetta var árið sem á brast með fjölskyldulífi. Ekki hafði ég nú fyrirframgefnar hugmyndir um að leið mín myndi óhjákvæmilega liggja þangað á endanum, en í ljós kom, heldur betur. Með sambúðarupphafi með Rannsóknarskipi í ágúst eignaðist ég eiginlega eitt barn, hann Róbert Smábát, sem skolaðist upp í hendurnar á mér, 9 ára og vel upp alinn, fyrir skólabyrjun. Þá þegar var líka búið að leggja í fyrir einum heimabrugguðum, sem ég vona bara að eigi eftir að taka eldri uppeldisbróður sinn til fyrirmyndar í sem flestu.
Og svo þróaðist auðvitað samband okkar Árna míns í skemmtilegri áttir en mig hefði nokkurn tíma dreymt um. Eins og sannir Íslendingar gerum við nú samt allt í öfugri röð, fyrst kom óléttan, þá sambúðin og síðast trúlofunin, og barnið sem nú er rétt ókomið í heiminn mun að sjálfsögðu fæðast í lausaleik. Eins og 64% barna sem fæðast á Íslandi. Maður fer nú ekki að skera sig úr!
En, mikilvægasta uppgötvun ársins 2005 er tvímælalaust þessi:
Eilíf ást og hamingja er hreint ekki sem verst. Heilsubót á sál og líkama.
Hvern hefði grunað...? Ég sem var búin að láta ljúga í mig, öll þessi ár, að þetta væri alltaf “einhver vinna” og að “í öllum samböndum væru vandamál”. Og síðast en ekki síst: Öll kærustupör rífast!
Já, það er nú margt bullið sem maður ætti ekki að hlusta á.

30.12.05

Ég vil þakka

fyrir snöfurmannlegar upplýsingar um hvað skal hafa með á fæðingardeild í síðustu kommentaskriðu. Mikil snilld. Gærdagurinn reyndist hreint ekki vera dagur fæðingar, heldur bara magapestar. Svoleiðis er ekki sérlega þægilegt að fá ofan í 38 vikur af óléttu.

Vorum að koma úr verslunarferð einni mikilli, hvar verslað var m.a. kengúrukjet til áramótamatar. Svo er bara spurning hvernig til text með matreiðslu. Svo eru húseigendur að flytja frá okkur og þá fáum við annað herbergi til umráða og að því tilefni ætlum við að fjárfesta í rúmi. Erum búin að máta allt sem til er í bænum, og held við höfum tekið ákvörðun. Verður pantað í upphafi næsta árs.

Og í kvöld er síðasta skipulagða sýning af Jólaævintýri Hugleix (fyrir utan eina, sem verður á þrettándanum). Ég reikna nú síður með því að mæta... en langar samt ógurlega... Rannsóknarskip er búinn að bjóðast til að bera mig... þannig að maður veit aldrei.

29.12.05

Hmmmmmm...

Kannski er eitthvað að gerast. Eða kannski er ég bara að finna fyrir eftirköstum matarsukks yfir fótboltanum í gær. Pizzur og kók eru auðvitað fæðutegundir Zatans, eins og allir vita. Blandað saman við beiskan ósigur minna manna fyrir mönnum allra annarra í partíinu, á heimavelli, er auðvitað ekki laust við að samsetningin geti valdið meltingartruflunum.

Fer allavega ekki baun að vekja Rannsóknarskip eða gera usla.

En, ágætis áminning um að 38 vikna meðgöngu ku eiga að vera náð á morgun, og það væri kannski ekki alveg óvitlaust að fara að leita að listanum yfir það sem maður á að setja í fæðingadeildartöskuna, sem enn er ímynduð. Annað en Kafbátsföt sem trúlega eru þegar orðin of lítil.

Það er bara ekki fræðilegur séns að ég nenni því eitthvað.

28.12.05

Ekki stal ég...

...afmælisdeginum hans Hjalta í gær. Virðist líka ætla að láta fæðingardag Báru systur, í dag, alveg vera. Held reyndar, í augnablikinu, að ég verði bara alvega pollróleg fram yfir áramót. Gæti heldur ekki nennt að vera vakandi nógu lengi til að eignast barn þó ég reyndi.

Vorkenni mikið öllum sem eru farnir að þurfa að vinna. Þ.e.a.s., svona eins og fólk. Við Rannsóknarskip erum reyndar eitthvað að þýða, svona á milli þess sem við sofum og stelumst í jólaafgangana. Smábátur er á Akureyri þannig að okkar sólarhringur snýr bara einhvernveginn.

Á áramótunum er planið að elda kengúru og éta með Hugrúnu syss, sem er víst munaðarlaus þetta árið. Að því gefnu að við verðum ekki á fæðingardeildinni. Sem er ekki planið. Annars fær víst fyrsta barn ársins allskonar dót... en ekki finnst mér nú líklegt að mín börn fari að hafa metnað í að verða fyrst í einhverju.

26.12.05

Þá er búið að jóla...

...dáldið. Og öll fjölskyldan komin með appelsínuhúð með negulnöglum. Ég hef aldrei fengið annað eins gígantískt magn jólagjafa, eins og sést á mynd með jólakveðju, og pakkana sem lágu ofan á Kafbáti átti hann sjálfur. Já, einhverjir ættingjar misstu sig í barnafatabúðum fyrir jólin og Kafbátur fékk soldið af hryllilega sætum oggupoggufötum. Sem hann vex upp úr ef ég borða eina jólasmáköku í viðbót.
*Hrámm* Þar fór það.

En nú vil ég bara að hann fari að fæðast. Mig langar að klappa honum. Hef líka ákveðnar áhyggjur af því að ef hann þarf að þrífast þar sem hann er staddur yfir áramótaofátið líka, verði ég búin að gera hann að krónískum offitusjúklingi fyrir fæðingu. Ekki yrði það nú fallegt afspurnar.

25.12.05

Gleðileg jól

og farsælt komandi ár.
Frá:

Árna Rannsóknarskipi,

Róbert Smábáti,

og mér og Kafbáti.