16.9.11

Áhugaverðir tímar


Megir þú eiga áhugaverða ævi segir einhver útlensk bölbæn. Ég held það sé vegna þess að þegar tímarnir verða áhugaverðir má maður hvorki vera að því að pissa, kúka, þrífa sig eða sofa. Mér líður dáldið þannig. Þarf að stelast heim í dag áður en ég sæki krakkana til að komast í sturtu og setja í vél.

Held ég sé líka búin að komast að því hvers vegna ég var með kinnholusýkingar í allan fyrravetur. Loftræstidæmið hérna í miðjum glerkastalanum er ógeð. Nú er ég með hverfandi kvef, en eftir klukkutíma hérna inni er ég komin með stíflað nef og hausverk. Svo fór ég að horfa upp í loftdæmið fyrir ofan hausinn á mér. Og það er nú bara alveg ógeðslegt, satt að segja.

Ég held að við eigum eftir að komast að því að loft er nauðsynlegt fyrir fólk. Og þá bara venjulegt útiloft. Loft er ekki lengur loft þegar það er búið að liggja í einhverjum "stokkum".  Allavega. Ef ég verð hausinn á mér stíflast aftur þegar ég kem heim frá London, þá ætla ég að prófa að skipta um borð og færa mig frá óbjóðnum. Annars langar mig líka, ef einhver kraftaverk skyldu nú einhverntíma gerast í fjármálum, að taka bílskúrinn hans Ella frænda á leigu líka og búa mér til skrifstofu í einu horninu á honum. Með engu interneti, en þar sem ég get haft eins hátt eins og mér sýnist og spilað og sungið á milli ritgerðaskrifa. Það væri nú osom.

Og nú er allt á síðustu metrunum, einhvernveginn. Lesið úr 8 leikritum á Grósku í gær. Það var gaman. Úr 10 í viðbót í kvöld, þ.á.m. mínu. Ekki verður það nú öldungis leiðinlegt heldur. Og á morgun verður eitthvað lítið og sætt málþing um stöðu leikskáldsins. Þar ætla ég að framsegja allt sem mér dettur í hug. Og mikið verður nú gaman seinnipartinn á morgun þegar ég verð búin að því. Þá get ég einbeitt mér að því að hafa áhyggjur af hálfþýsku egghöfðunum sem ég ætla að messa yfir í London á fimmtudaginn.

Maður lifandi. Áhugaverðir tímar, aldeilis.

15.9.11

Bðeee

Ferlega erfitt að hunska sér að verki þessa dagana. Ég kenni um myndinni sem ég horfði á í gær (The Shock Doctrine) og byltingarkastinu sem ég er í, í framhaldi af heimsókn Chomskys, Vandana Shiva og fleiri snillinga. Mig langar alls ekki neitt að vera að reyna að skrifa einhverja "gáfulega" fyrirlestra, heldur bara að hreiðra um mig og lesa Empire eftir Hardt og Negri, horfa aftur á allar Zeitgeist myndirnar og
óverlóda af TED-fyrirlestrum. Pikka upp vögguljóð róttækrar móður, skrifa í Risastóru Bókina um Allt (sem er ekki enn í smíðum) skrifa geðbiluð ádeiluleikrit og gera síðan byltinguna. Bara sisvona.

Við eyðum miklum tíma í að forðast að upplifa hann. Tímann, semsagt, bara svona á þeim tíma sem hann líður. Mér finnst ég alltaf vera að reyna að láta hann líða hraðar... eða hægar. Held ég þurfi að halda áfram að vinna í að komast til Montpellier með allt liðið í júní. Suður-Frakkland var fyrir mér existensíalísk upplifun þar sem ég lærði listina að gera ekkert og láta sig berast með straumnum. (Enda segir kínverska stjörnuspekin að það vanti vatn í persónluleikann minn. Ég held það geti vel verið. Ekkert nema eldur og eldiviður, hérna inni.)

Nú eru orðin 10 ár síðan ég var að berjast við að læra að ganga á frönsku (í staðinn fyrir að vera alltaf æðandi fram úr öllum og þurfa tvær sturtur á dag út af flýtisvita) og verða ekki geðbiluð í óralöngum biðröðum (einfalt, maður tekur með sér bók) og ég er að verða búin að gleyma þessu aftur. Allt þarf ævinlega að gerast NÚNA. Enda er ég búin að vera þreytt og stressuð frá því að ég man eftir mér. Samt alltaf eitthvað skemmtilegt og spennandi að gerast, sko. En þreyttur og stressaður nýtur maður alls ekki neins.

Og nú þarf ég að hringja á leikskólasvið Kópavogsbæjar.
Best að njóta þess alveg í tætlur...

14.9.11

Frestun á fresti...

Stjörnuspá - 14. september 2011
fyrir 4. apríl 1974

Andrúmsloftið er frekar dempað og tilfinningar þínar kaldar. Samskipti geta því verið frekar stíf og kallað á vinnu. Það er best að halda sig til hlés og vinna í friði, frekar en að fara út á lífið, eyða peningum eða fást við viðskipti. Þetta er dagur raunsæis og varkárni. (Venus 90 gráður Satúrnus) 



Þetta væri nú alveg í ljómandi lagi ef maður nennti einhverju. Fráfarandi flensa á líklega sinn þátt í því. Og svo var ég líka búin að harðákveða að skrifa upp eitt viðtal en komst svo að því að ég var með diktafóninn en ekki heddfón sem passar í hann og ekki heldur snúru sem passar til að færa dótið yfir á tölvuna (sem ég ætti líka löngu að vera búin að gera. Ekkert sniðugt að geyma einhver 10 viðtöl bara á oggulitlum diktafóni sem getur týnst, dottið í gólfið, verið stolið eða orðið fyrir kaffislysi hvenær sem er.


En, setningin sem ég hangi á þegar kvíðaröskunin ætlar allt lifandi að drepa: There is more to life than being on top of things!


Svo nú get ég ekki gert það sem ég var búin að ákveða. En ég get haldið áfram að vinna í þrennu. Fræðilegi inngangurinn að ritgerðinni minni er í þróun. Ég á eftir að fara betur í orðræðugreininguna og yrðingarammana sem ég er að búa til, svo er ég með góðan bunka af bókum sem ég þarf að glugga í, vitna í og lesa í. Brýnna og meira aðkallandi er þó að reyna að klára framsöguna sem ég ætla að flytja á málþingi um "stöðu leikskáldsins" á vegum leikritunarhátíðarinnar Grósku í Norræna húsinu á laugardaginn. Já, og klára fyrirlesturinn sem ég er að fara að halda á einhverri alveg viðbjóðslega gáfulegri ráðstefnu í London eftir rúma viku.


Já, þetta er allt jafnsvalt og það hljómar, ef ekki svalara. Og í byrjun vikunnar vann ég heilmikið í báðum þessum "ræðum". Og var meira að segja nokkuð ánægð með mig. En nú þori ég ekki fyrir mitt litla líf að opna þau aftur eða lesa þau. Vegna þess að þau gætu sökkað. Eða kannski sökka þau og ég sé það ekki. Eða... eða... Bðeeerrrgh. Þetta er ástæðan fyrir því að maður frestar helst því sem maður ætti alls ekki að fresta. Og svona er þerapían mín, þegar ég er alveg að gera sjálfa mig vítlausa: Skoða stjörnuspána (sem segir venjulegast eitthvað ömurlegt) skoða tarotspá dagsins (sem boðar venjulega hamfarir, skilnað, dauðsfall og þvíumlíkt) skoða síðan Zen-tarot spil dagsins (sem gefur manni ævinlega eitthvað einstaklega gott heilræði sem maður fer síðan ekki eftir) og skrifa síðan eitthvað út úr rassgatinu á mér hérna. Það er svo skrítið að það er allt í lagi þó það sé ekkert „merkilegt.“ Bara fréttir af barnahori, pirringur yfir einhverju eða upptalning á því sem er fyrirliggjandi... þegar ég er búin að senda eitthvað ekki-neitt-neitt út í heiminn er auðveldara að opna frestunarskjölin og reyna að gera eitthvað.


Já, og áður en maður gerir það er mjög góð regla að drepa á internetinu. Bara með því að slökkva á vafranum (þetta er asnalegt orð. Af hverju ekki vafraranum?) tekst mér stundum að láta Fésbókina í friði alveg fram yfir hádegi, jafnvel.


Ókei. Einntveirog...