10.1.09

Fokkíng fokk!

Það getur vel verið að Sumarljós og svo kemur nóttin sé ágætisbók.

En næst þegar, í upphafi leiksýningar, telst ástæða til að segja mér að "leikurinn gerist í litlum bæ" ætla ég að gera sjálfri mér greiða og fara heim til mín og gá hvað er í sjónvarpinu. 

Hvað gengur mönnum til með þetta eilífðar smáþorp? Þar sem "allir þekkja alla" (og hafa áhuga á því sama) og flestir eru kallaðir starfsheitum sínum með greini? 

Það þekkja aldrei allir alla. Sama hvort samfélagið inniheldur hundrað manns eða milljón. Það vilja aldrei allir þekkja alla. Menn velja sér alltaf samfélag. Og umgjörðin "sona týpískt íslenskt sjávarþorp" verður aldrei hvorki trúverðug né áhugaverð í sjálfri sér. Og að í plássinu sé engin kirkja, staðreynd sem kynnt er til sögunnar og síðan ekkert meira gert með, gerir ekkert fyrir pleisið. Ja, nema þá kannski helst að með heiðni samfélagsins sé unnið. Eins og til dæmis er gert í kvikmyndinni The Wicker Man.

Og hvar í andskotanum er tilgangurinn með því að hefja leikritið á einhverjum klisjukenndum náttúru- og mannlífslyfirferðum sem síðan kemur innihaldi verksins ekki rassgat í bala við. Ef það kallast þá innihald að hundavaða í gegnum þetta "dæmigerða smáþorp" og káfa flausturslega inn í nokkra misóáhugaverða söguþræði? Það dramatískasta sem gerðist var að hundur og fjölskylda voru skotin og grafin. Og maður vissi ekki af því fyrr en eftirá.

Leikmyndin var ekkert ljót. Leikurinn var ekkert slæmur. En ég nenni ekki kaupa mig inn til að að horfa á fólk í vinnunni.

Ég eyddi fyrstu 19 árum ævi minnar í "smáþorpi" og upplifði þar aldrei þrjá jafnleiðinlega klukkutíma í röð og undanfarna þrjá.

Salurinn var næstum fullur af fólki sem nennti varla að klappa að sýningu lokinni. Það er nú gott að almannafé skuli vera að fara í eitthvað uppbyggilegt, á krepputímum. Ég er helst á því að rækilega mætti skera niður með því að leggja niður Þjóðleikhúsið sem stofnun. Ráða í bygginguna nokkra húsverði sem hefðu það eitt á sínu starfssviði að ganga um með lyklakippur og hleypa inn leikhópum sem haldnir eru leikhúsgreddu og sköpunarþrá og telja sig hafa eitthvað fram að færa og tjá. Nóg er til.

Rand


Það er helst að frétta að Hraðbáturinn er ekki með eyrnabólgu!
Hann var búinn að vera órólegur á nóttunni og við þorðum ekki annað en að láta athuga það eftir hremmingarnar um jólin. Hins vegar sá læknirinn glitta í jaxla þegar hann var að skoða í hálsinn. Það er svo langt síðan hann tók sínar átta fyrstu tennur að ég var hreinlega búin að gleyma að von væri á fleiri tönnum.

Eftir þessar gleðifréttir fórum við í Kringluna og spreðuðum í ýmislegt misgagnlegt. Til dæmis varð ég ástfangin af peysu og verslaði hana þrátt fyrir þá staðreynd að hún væri ekki til í stærðum á milli 8 og 18. Ég verslaði nr. 18 og get þrengt hana þegar vaxtarlagi ársins 1999 verður náð. Svo sem fyrirhugað er á þessu ári.

Ég mátaði ekki og þegar ég fór í hana eftir heimkomu flugu mér í hug orðaskipti úr hinum stórgóðu þáttum "Buffy the Vampire Slayer." (Lauslega þýtt)

Vampíra 1: Lít ég út fyrir að vera feit í þessari peysu?
Vampíra 2: Nei. Þú lítur út fyrir að vera feit af því að þú ert feit. Í þessari peysu ertu fjólublá.

Ég er nákvæmlega jafnfeit án og í nýju flíkinni minni. 
En í henni er ég þó allavega röndótt í öllum regnbogans litum.

9.1.09

Svandísi heim!

Seláshverfið hefur mér alltaf þótt svolítið sjarmerandi. Síðan ég lagði á mig talsvert erfiði og villur vegar við að finna það í fyrstu drögum að íbúðarleit árið 2004. Í gær fór ég allt aðra leið þangað. Tókst að villast alveg heilmikið um hverfi Árbæjar.

En á leiðarenda biðu fundir mikilla fagnaða. Hún Svandís mín er komin heim! Átta árum eftir að ég sýndi það fyrirhyggjuleysi að fara að kynna hana fyrir einhverju fólki úti í Montpellier, algjörlega meðvitundarlaus um hvaða afleiðingar það gæti haft.

Sat þar lengi dax, sötraði kaffi, tafði fyrir húsmóðurinni og kjaftaði úr mér garnir og lifur um gamalt og nýtt. Jónatani brá fyrir. Þvílík heppni að hann skyldi reynast sá afbragðs- og indælismaður sem hann er. (En ég var nú bara ekkert búin að kynnast honum almennilega þegar ég skutlaði vinkonu minni, alsaklausri, í krumlurnar á honum. ;-)

Mikið óskaplega er nú skemmtilegt að fá þau til landsins. Ekki það að maður hitti fólk utan heimilis (og leikfélags) oftar en einu sinni eða tvisvar á ári þessi árin þá mun ég leggja mig fram um að rekast á þessi hjónaleysi. Kannski meira að segja alveg á þriggja til sex mánaða fresti!

8.1.09

Mótmælum Allir

Blogg Doktorsins er mesta snilld. Hvort sem menn hafa áhuga á þjóðfélagsmálum, tónlist eða hvurutveggja. Í fyrradag var ég óvenjusammála honum:

"Fyrst var landið undirlagt í röfli um peninga. Hvað allir væru að græða rosalega mikið. Trilljón skrilljón á fyrsta ársfjórðungi. Verg þjóðarframleiðslu amma mín er pulsa. Dow Jones. Grægði er góð. Halelúja. Eftir hrunið er enn verið að röfla um peninga, bara á hinum endanum, og eiginlega er peningaröflið enn meira yfirþyrmandi en áður. Við skuldum trilljón skrilljón eða sjö ömmur með dýfu á mann í þrjár kynslóðir, ó ó ó æ æ æ. Dow Jones. Grægði er góð, en samt bara í hófi. Halelúja. Ég segi: Troðið þessum peningum í mínus eða plús upp í rassgatið á ykkur."

Ójá. Það eina sem vantar er ný ríkisstjórn sem skilur þá einföldu staðreynd að það mun aldrei renna ljúflega niður að kreista peningana sem nú vantar út úr heilbrigðis- og menntakerfinu.
Bara kosningar, ríkisstjórn með Steingrími J (VG), Ómari Ragnarssyni/Andra Snæ (Íslandshreyfingin) og Jóhönnu Sigurðar (Þjóðvaka, hennar tími er kominn) í forsvari.

Svo mega menn bara milljarða á mér rassgatið.

Skemmtilegt hvað ráðamenn eru kurteisislega klumsa yfir "ofbeldinu" í mótmælunum. En við skulum nú sjá hvað gerist þegar menn fara að missa vinnuna, húsin sín og hafa ekki efni á að fara með börnin sín á bráðamóttöku. Þá fyrst held ég að Geir og Ingibjörg Haarde fari að hafa ástæðu til klums.

Enda, mótmælendur og þeir sem sækja borgarafundi eru víst ekki þjóðin. Skoðanakannanir eru ekki kosningar. Allir sem skrifa greinar, halda ræður, stofna byltingargrúppur eru afturhaldskommatittir. Skríll.

Og hr. Hor finnst greinilega allt í lagi að Palestínumenn séu brytjaðir niður. Allavega engin ástæða til að setja sig sérstaklega upp á móti því. (Ástandið á Gaza get ég ekki tjáð mig um nema kannski einhverja nóttina. Hræði alla á heimilinu ef ég grenja of mikið.)

Allavega:

OPINN BORGARAFUNDUR #7

Í Iðnó, fimmtudaginn 8. janúar kl 20-22.

Fundarefni: Mótmæli (ólík viðhorf, ólíkar aðferðir, sömu markmið?), aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.
Frummælendur
• Hörður Torfason – Raddir fólksins
• Eva Hauksdóttir – Aðgerðasinni
• NN anarkisti
• Stefán Eiríksson – Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Auk þeirra munu Katrín Oddsdóttir, laganemi og talsmaður Neyðarstjórnar Kvenna, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson, prestur, taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fleirum og svara spurningum viðstaddra.
Þá hefur Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra sérstaklega verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.
Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.
Fyrirkomulag
Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

Við hvetjum fundargesti til þess að mæta tímanlega vegna takmarkaðs húsrýmis.
Sýnum borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn. Spyrjum, hlustum og fræðumst.



7.1.09

Kassi


Raxt á merkilegan skókassa uppi í jólaskáp. Í honum var, meðal annars:

- Stúdentaskírteini frá 1993 með ótrúlega ljótri mynd af mér. (Henti.)
- Kveikjari. Hefði komið sér vel að eiga um jólin. (Varðveiti til næstu jóla.)
- Þrjár ferkantaðar tölur sem ég hef einhverntíma keypt með töskusaum í huga. (Varðveiti er ske kynni að ég kláraði einhvern tíma aðra tösku.)
- Lítill platti og skeið og gaffall úr Færeyjaferð 1986. (Varðveiti í pjattskápnum)
- Gyðingaharpa guðmávita hvaðan. (Sami staður.)
- Sígarettuhylki úr silfri sem afi minn átti og amma mín gaf mér eftir hans dag. Sem ég gat aldrei notað þar sem það passar bara fyrir filterslausar sígarettur. (Varðveiti þrátt fyrir að líkur á því að ég fari að reykja filterslaust héðan af séu hverfandi.)
- Bréf frá Heiðu skrifað árið 2002 með öppdeiti um hjúskaparstöðu og bralli ýmissa á þeim tíma. (Fleygði og var að hugsa um að brenna þar sem allar upplýsingar voru hræðilega úreltar og engum til góðs að kæmust í hámæli í framtíðinni.)
- Vasareiknirinn sem ég átti í menntaskóla og uppúr sem varð m.a. til þess að efnafræðikennarinn minn á Akureyri tjáði mér að ég væri ekki eins vitlaus og ég liti út fyrir að vera þar sem þessi ágæti reiknir birti allar útkomutölur sinnum 10 í einhverju veldi. (Strauk mjúklega og ákvað að hann væri ekki ónýtur.)
- Átekin filma. (Varðveiti þangað til ég á leið í framköllun, með skelfingarblandinni forvitni. Huxanlega sönnunargögn um eitthvað sem þarf að brenna um leið og innihaldið kemur í ljós... ellegar birta á Fésbók.)

Hvað þessir munir hafa átt svo sameiginlegt að mér hefur þótt hæfa að geyma þá svo rækilega saman í skókassa í jólaskápnum kem ég aldrei til með að vita. En ég held að ég hafi fengið skó í þessum kassa þegar ég var um 12 ára aldurinn. Tæmdi hann og henti honum þar sem það er greinilegt merki um alvarlega geðveilu að varðveita skókassa í meira en 2/3 hluta ævi sinnar.

Nema hann innihaldi bréfasamskipti eður servíettusafn, auðvitað.

6.1.09

Dáindi

Það er ljóst að nú verður hart í ári og þröngt í búi og allt það. Ekki síst á heimilum þar sem verið er að reyna að framfleyta fimm manns og borga af okurlánum á yfirprísaðri íbúðarholu með einu fæðingarorlofi af kennaralaunum og einu námsláni.

En hinu verður ekki neitað.

Dagurinn í dag var dáááásamlegur og ber tímanum fram í ágúst fögur fyrirheit.

Fyrst skiptumst við hjónin á að sofa fram yfir hádegi. Svo hófst dagurinn.
Ég fór í ræktina og duddaði þar við allskyns æfingar fyrir alla vöðvahópa sem ég fann, lengi dax. Var í fyrsta sinn ekkert með hjartað í buxunum um að allt væri grenjandi heima hjá mér eða brjótandi heilann um hvern skrattann ég ætti að galdra í matinn á fimm mínútum þegar heim kæmi. Enda var bara miður dagur og Rannsóknarskip úti að labba með Hraðbátinn. Aðrir vistaðir á viðeigandi stofnunum. Svo var bara komið heim og allir glaðir. Börnunum hjálpað við að rusla rækilega til í íbúðinni. Hangikjet eldað og étið í tilefni þrettándans og meira að segja Siffa bró og Bjarkeyju boðið í mat. Svo fóru allir nema við Hraðbátur út að sprengja afganga og barnahópnum komið í bólið á nokkuð skikkanlegum tíma. Svo tókum við Rannsóknarskip til draslið eftir daginn og matinn. Enginn þreyttur né með taugaáfall.

Á mánudaginn hef ég störf hjá honum Bjarti. Ekki sýnist mér það nú ætla að verða sérlega stressað. Ég ætla að mæta þanga galvösk eftir að hafa skilað Freigátunni á leikskólann sinn og sinna svo verkefnum mínum af kostgæfni. Í heilar 12 vikur.

Og hvað svo? Ætli það verði ekki bara meira letilíf á atvinnuleysisbótum? Kannski eitt og eitt atvinnubótanámskeið? Annars væri mér svo sem trúandi til að fá einhverja dúndrandi vinnu. Fá Góðæri í kreppunni.
Den tid, den suck.

Flobb-flobb

Jaaaaææææjjjah! *Teyg og geysp*

Bara kominn þrettándi og ætli maður ætti ekki að fara að fara að huxa um að koma sér eitthvað í gang? *geeeeeysp*

Allir að leggja sig sem ekki eru í skólanum og leikskólanum. Eða, báðir. Og ég er allllveg að verða komin með leið á jólaskrautinu. Sem er ágætt. Það skal niður á morgun.

Í útvarpinu er maður sem segir að allir eigi að "verða hver öðrum ljós" í kreppunni. Mig langar nú meira að fá mér "helvítis fokking fokk"-bol og mæta með úldna matinn úr ísskápnum á næstu mómtmæli. Menn halda kannski að það fari eitthvað að draga úr mótmælum? Ég er til dæmis ekki einu sinni byrjuð. En núna á ég tuttuguþúsund kall til að draga fram lífið út mánuðinn og þarf virkilega að drepa tímann á ókeypis og uppbyggilegan hátt.

Sá sjálfa mig úti um allt í skaupinu. Ég er líka þessi sem söng Ævintýri í bankanum. (Nema að mér finnst það ömurlegt lag og myndi aldrei syngja akkúrat það. En... inntakið.)

En þetta gengur ekki. Best að reyna að hjassast í ræktina. Með viðkomu á Bjartinum.

5.1.09

Komin heim

Þá er nýjárið bara löngu byrjað og við vorum að velta heim úr norðinu. Það sem liggur fyrir að gera á morgun er að koma eldri börnunum í skóla og leikskóla og svo bara... þessi pakki.

Er annars búin að fara á Ljótuhálfvitatónleika og éta á mig göt og spik.