25.3.06

Laugardaxmorgunn

Freigátan rak okkur á lappir með harðri hendi, fyrir 10. Og fór svo sjálf aftur að sofa. Ég fékk hins vegar hugstrump og mundi allt í einu hvar allir skattframtalspappírarnir mínir voru niðurkomnir. Og er næstum alveg búin að kláraða! Jeij! Og klukkan er hálfellefu á laugardagsmorgni. Spurning hvað í veröldinni maður á að gera næst. Freigátan sofandi og Smábátur hjá afa sínum og ömmu. Og ég á ekki einu sinni þvott til að ganga frá. Hmmm...

Annars er loftið á heimilinu spennuþrungið og lævi blandið. Liverpool-Everton hefst 12.45.

24.3.06

Og meiri hamingja

Og hamingjuóskir til litlu systkina minna sem voru bæði að komast inn í einhverja fína skóla. Bára í tónsmíðanám (held ég) tónlistarskóla í Osló og Sigurvin (sem ég ætla ALDREI að kalla "Siffa") í viðskipta-mastersnám í London.

Til hamingju, litlu krútt.

Til gamans má geta þess að þegar ég eignaðist Freigátuna þá sá ég hvað var stutt síðan þau Bára og Sigurvin fæddust. Þegar þau voru ponkulítil fylgdist ég nefnilega af feikilegum áhuga með umönnun móður minnar á krílunum og endurtók síðan gjarnan handbrögðin við dúkkurnar mínar. Og, viti menn, þegar á reyndi var þetta ennþá alvega á hreinu. Er skrítið að mér skuli stundum finnast litlu systkini mín vera í mesta lagi 5 ára?

Mikið svakalega

var gott prógrammið í Þjóðleikhúskjallaranum í gær. Ég hafði ekki séð helminginn af því, en ég held þetta sé nú bara með betur heppnuðu einþáttungadaxkránum okkar. Við erum sennilega bara að verða flínkari í þessu? Samt voru jómfrúarstykki á alla bóga á boðstólnum.

Óska Nönnu og Sigga sérstaklega til hamingju með sínar frumraunir, henni í Hugleikstjórn og honum í hugleikskrifi. Þær voru sérlega glæsilegar, að öðru ólöstuðu. Og svo voru náttlega Hjörvar og Svavar báðir í fyrsta skipti í Hugleik. Séu þeir sem velkomnastir.

Þessari daxkrá var minna fagnað hér heimafyrir. Afi og amma Smábáts fengu að passa Freigátu í fyrsta skipti sem við förum bæði að heiman. Og það skipti engum togum að hún skemmti þeim með kveinstöfum allan tímann. Það er greinilega ekki vel séð að fara burt með matinn í heilt kvöld. Áður en slíkt verður reynt aftur þarf greinilega að kenna henni á pela. (Sem ég hef ekki nennt að gera.)

Fórum í verslunarferð. Nú á Freigátan sundbol og smekki. Svo erum við búin að kortlegggja næstu stórinnkaup næstu vikna. Ljómandi.

23.3.06

Áminni:

Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum. Fyrri sýning í kvöld kl. 21.00.

Er með smávægilegar geðbólgur og taugadrullur í dag af þeim orsökum. Þó merkilega litlar. Held ég hafi aldrei verið, fyrir mína parta, jafntilbúin á frumsýningu. Í gær fór ég á hárgreiðslustofu og lét gera mig ljóshærða. Það tók allan daginn, en minni fjárútlát en ég átti von á. Fór svo í ljós í morgun og er á hraðri leið að endurheimta fyrri fegurð á alla kanta. Get þó ekki mætt í kjallarann jafn glyðrulega útlítandi og ég ætlaði þar sem nú ríkir þvílíkt heimskautakuldakast að vissara þykir að draga lopasokka á fætur sér og læsa dræsugallann sem fastast inni í skáp. Þannig að ég verð bara að monta mig af mjóinu seinna. Vona bara að það verði ekki útrunnið...

22.3.06

Nýjustu afrek...


Freigátan vill ekki sjá nein snuð en er farin að gera miklar tilraunir til að sjúga á sér þumalputtann. Alveg eins og ég gerði þegar ég var lítil. Þannig að hún er allavega lík mér að einu leyti.


Smábátur er orðinn mjög flinkur og duglegur að passa litlusystur.


Og svo er hún farin að geta legið á maganaum, svona þegar hún nennir.

Plögg!

Og þó fyrr hefði verið...

Þetta mánaðarlega verður í Þjóðleikhúskjallaranum á morgun (fimmtudag) og sunnudag. Sýningar hefjast kl. 21.00 en húsið opnar 20.30. 1000kall inn. Að þessu sinni eru 6 einþáttungar á boðstólnum og við hjónin erum að leikstýra sitthvorum. Þar að auki er ólétta nágrannakonan mín hún Nanna að gera sína jómfrúarleikstjórn í Hugleik. Og mér sýnist þetta allt ætla að verða hreinasta afbragð.

Allir að mæta sem mögulega nenna.

21.3.06

Fuss

Er gúrka eða hvað? Horfði á hálft Kastljós. Þar var fyrst talað við mann sem sagði að annar maður hefði verið vondur við sig. Svo var talað við þann mann sem sagðist ekkert hafa verið það. Og enginn sagði um hvað málið snerist. Sá fyrrnefndi hafði víst skrifað eitthvað í einhvern svæðissnepil sem hinum líkaði ekki. Og það var skautað fimlega í kringum innihald þess máls með því að tala endalaust um "ákveðin atriði" og "tilteknar staðreyndir". Semsagt, fyrrihluti Kastjóssins var um einhverjar persónulegar krytur sem ekki var sagt frá því hverjar væru og líklega væri öllum sama um þó svo hefði verið. Þetta minnti eiginlega á hugmyndasnauðustu síður DV. Þessar sem enginn nennir að lesa vegna þess að þær eru ekki einu sinni krassandi. Fussbara.

Þessa dagana er síðan offramboð af of löngum auglýsingum. Fyrsta má telja hina forkastanlega leiðinlegu, Velgengni er: ... Idjótískt. Orðið "Söxess" þýðist nú bara ekki. Og allir vita að velgengni er að ganga vel. Ég meina, það liggur nú bara íðí. Svo er þessi auglýsing svo löng að ég fékk leið á henni áður en ég var búin að horfa á hana einu sinni. (Sorrí Toggi og Sævar, vona að þið berið ekki ábyrgð á þessu.)

Hin er laaaanga Sparisjóðsauglýsingin þar sem allt sem hefur gerst undanfarin 10 ár er talið upp. Og Rannsóknarskip átti eitt af sínum gullpunktum í lok hennar í eitt af mörgu skiptunum sem við sáum hana í gærkvöldi:
- Og sjáðu hvað þeir eru með marga viðskiptavini! Tíu hræður úti á túni!

Það fannst mér fyndið.

Og bloggið mitt átti 3 ára ammæli í gær. Að huxa sér...

20.3.06

Sáttur með?

Leiðréttið mig ef ég er að rugla, en er maður ekki "sáttur við" og "ánægður með"?
Hvenær fóru allir að vera "sáttir með"?
Eigum við kannski líka að fara að vera "ánægð við"?

Skattframtöl

eru uppfinning Zatans til að firra mannkynið vitinu. Ef ég kaupi mér einhvern tíma aftur fasteign, eða bara eitthvað, þá ætla ég í leiðinni að ráða mér endurskoðanda.

Annars, það borgar sig greinilega að auglýsa eftir því sem mann vantar á blogginu sínu. Er byrjuð í ljósum, búin að panta í höfuðpunt og Hugrún syss kom með fullt af fötum sem ég má fá lánuð auk góðra ábendinga um verslanir, hugnist mér ekkert af hennar klæðaskáp. Svo er ég búin að fá svo fínar ábendingar um ljósmyndara að nú er bara að velja.

Takktakk.

19.3.06

Ammli

Fjölmiðlatröllið hún Hugrún systir mín á afmæli í dag. Og er að öllum líkindum þunn. Til hamingju!

Fleiri fyrirspurnir...

Og ég gleymdi að minnast á hina tvo föngulegu menn sem við hjónin rákumst á á Laugaveginum á föstudag. Úr því varð leikstjórafundur fyrir utan Lyfju á Laugavegi. Í haugarigningu. Mér finnst gaman að búa við miðbæinn.

Allavega, fann sólbaðsstofu og fékk mér yndislega gönguferð þangað í vorregninu í gærkvöldi. Í leiðinni heim kom ég við á vídjóleigu og tók ógeðslega hryllingsmynd (Emily Rose) sem stóð algjörlega undir væntingum okkar. Það var nú rómó.

Rannsóknarskip fór í golf á þessum þokukennda sunnudaxmorgni og í dag erum við að fara að æfa þættina okkar í Þjóðleikhúskjallaranum. Þeir eru báðir á góðri leið og það verður nú gaman að komast á rétt svið. Og fyrst ég ætla að stilla mig um að vera dræsó á skírninni hugsa ég að ég fari alveg yfirum í ílandi dræsugangi í Þjóðleikhúskjallaranum á sýningunum í staðinn.

Og ég gleymdi einni fyrirspurn. Þannig er að mig langar að láta mynda bæði Freigátuna og flotann allan á skírnardaginn. Veit einhver um flínkan ljósmyndara sem er sérlega góður í að mynda lítil börn?