29.3.17

Húsráð

1. Hafðu heimilið ógeðslegt.
2. Fáðu flensu.
3. Liggðu í nokkra daga í öllu ógeðinu með hundahár úti um allt.
4. Hugsaðu sérstaklega mikið um hundahárin.
5. Hugsaðu líka um hvað þarf hroðalega mikið að skúra.
6. Vertu heima einn dag vakandi.
7. Fáðu eldgamla fjármálaskandala í alla fjölmiðlana.
8. Vertu brjáluð... liggðu samt kyrr.
9. Hugsaðu meira um hundahárin og hvað þarf mikið að þrífa.
10. Horfðu á fjármálaskandalinn í Kastljósinu.
11. Slepptu brjálinu lausu!

Et Voila! Tiltölulega hundhára- og ólyktarlaust heimili!

2.12.14

RAUST

Um helgina var hin árlega höfundalest á Austurlandi og hélt upplestra á nokkrum stöðum. Þeir sem mættu fengu að heyra upplestrana. Enginn fær að heyra viðtöl við þá Að því tilefni. Hrönn Jónsdóttir á Djúpavogi sendi frá út bókina Árdagsblik. Um hana veit ég ekkert nema nafnið. Sennilega eru tónleikar og aðventukvöld í öllum kirkjum núna á aðventunni. Ég sé að það var kveikt á jólatrénu við kaupfélagið um helgina. Og ég held það hafi verið Grýlugleði á Skriðuklaustri. En ég veit svo sem ekkert um þetta.

Um hvernig viðburðir niðri á fjörðum hafa gengið fyrir sig veit ég ekki neitt.

Ég heyri ótrúlegasta fólk láta út úr sér þá bábylju að Ísland sé lítið land. Það er það ekki. Það er risastórt. Það er hins vegar afar sparlega mannað. Á Austurlandi búa um 10.000 manns sem dreifast um risastórt svæði. Það er langt á milli byggðakjarna og oft erfitt yfirferðar á veturna. Það er langt á milli okkar. Og það lengdist talsvert eftir að ákveðið var að loka Svæðisútvarpi Austurlands, RAUST.

Ég fann ekki muninn fyrr en ég flutti aftur austur árið 2012. En munurinn er mikill. Ég veit ennþá miklu meira um menningu og mannlíf á Höfuðborgarsvæðinu þó ég komi þangað sjaldan. Menningarumfjöllun einskorðast við höfuðborgarsvæðið. Sumt á alveg erindi, svo sem. En margt tilheyrir líka Svæðisútvarpi Suð-Vesturlands. Útvarp Reykjavík. Það sem við sjáum af fréttum og menningarumfjöllun af Austurlandi þarf að eiga erindi við landsmenn alla. En hér í samfélögunum í kringum okkur er ýmislegt um að vera sem enginn utan fjórðungsins hefur áhuga á.

Við viljum samt heyra það.

Hvernig gengur á nýja hjúkrunarheimilinu á Eskifirði?
Hvað er að frétta af Fish Factory á Stöðvarfirði?
Hvernig gengur tónlistarklúbbnum Brján?
Er verið að veiða einhvern fisk þarna niðurfrá?
Kom sumarið sæmilega út fyrir Borgfirðinga?

Af hverju veit ég þetta ekki?

Er það vegna þess að það er svo stórfenglegur sparnaður í því að leggja niður RAUST (sem stóð, er mér sagt, alltaf undir sér með auglýsingatekjum) og hagkvæmni í því að láta útvarpsstúdíóið á Egilsstöðum standa tómt?

RAUST var aldrei fjölmennur vinnustaður. En hann bætti heilli vídd í atvinnulífið á svæðinu. Möguleikanum á því að starfa við útsendingarmiðil. Ég fór í starfskynningu á Svæðisútvarpið. Var seinna með menningarpistla þar í nokkra mánuði. Tók seinna kúrs í útvarpsþáttagerð og gerði nokkra þætti fyrir Rás 1 í framhaldinu. Þetta hefði mér líklega ekki hugkvæmst, hefði ég ekki hafð aðgengi að ljósvakamiðli á svæðinu. Ég gæti vel hugsað mér að starfa meira við slíkt í framtíðinni. Til þess þarf ég að flytja aftur til Reykjavíkur.
Byggðastefna?

Í dag hefði Inga Rósa Þórðardóttir, sem talar ekki framar frá Egilsstöðum, orðið sextug. Hún er í hugum okkar margra holdgervingur Svæðisútvarps á Austurlandi og var okkar útvarpsstjóri lengst af. Inga Rósa kvaddi okkur langt fyrir aldur fram. En öll okkar samtöl síðustu árin snerust um Svæðisútvarpið og ótímabært andlát þess.

Í dag hefði verið viðeigandi að hafa útsendingu til minningar um Ingu Rósu.
En það er ekki hægt.
Stúdíóið á að vera tómt.

Og ljósin slökkt.

23.10.14

Kveðja



NÓTT

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal,
í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
þeir hafa boðið góða nótt.
Nú saman leggja blómin blöð,
er breiddu faðm mót sólu glöð,
í brekkum fjalla hvíla hljótt,
þau hafa boðið góða nótt.
Nú hverfur sól við segulskaut
og signir geisli hæð og laut,
en aftanskinið hverfur hljótt,
það hefur boðið góða nótt.


Hvíl í friði, elsku Inga Rósa Þórðardóttir.


7.4.14

Of mörg orð!

Hluti af þessari vefbók hefur verið gerður prenthæfur!
Með þeim afleiðingum að út er komin þessi hálfsjálfsævisögulega skáldsaga.

Aftaná henni stendur:

„17. október, 2007
Maður flýtur betur eftir því sem maður er óléttari. Prófiði bara að taka kind og henda henni í stöðuvatn í janúar. Og svo aftur í október.“

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir veltir fyrir sér íslensku samfélagi, barneignum, þunglyndi, hryllingsmyndum og fleiru í þessaru stórskemmtilegu bók sem byggð er á vefskrifum hennar frá árunum 2003 til 2008.





Verð: kr. 3000.
Pantanir í netfang: snotraehf@gmail.com
Póstsendum bækur ásamt greiðsluupplýsingum, um hæl.

Verður einnig fáanleg í einhverjum bókaverslunum, vonandi, einhverntíma.

Innilegustu þakkir fá eftirfarandi:
Helga Birgisdóttir sem ritstýrði snilldarlega.
Ingunn Þráinsdóttir sem hannaði þessa flottu kápu.
Sæbjörg Freyja Gísladóttir, Hanna Gyða Þráinsdóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Svandís Sigurjónsdóttir og Rannveig Þórhallsdóttir sem yfirlásu og veittu margvíslegan móralskan stuðning á síðustu metrunum.
Sigurjón Bjarnason prófarkarlas og lét örforlagið sitt gefa út.
Rögnvaldur Bjarnason og Leturprent sem eiga heiðurinn af útkomunni í blaðheimum.
En umbrotið er skrítið. Það er vegna þess að ég gerði það sjálf.

27.5.13

Deyr fje...


Ég fór að rífast við Framsóknarfrændur mína á Fésbókinni. Sem er náttúrulega ein versta tímasóun sem hægt er að finna uppá. En annar þeirra kom með umræðupunkt sem ég get ekki hætt að hugsa um. Honum fannst nefnilega sjálfgefið að þar sem ég starfa í menningargeiranum væri ég ósátt við launin mín.

Hmmmm.

Nú um stundir er ég með föst laun. Sem er frekar sjaldgæft. Fjallaði um það hérna áður.
Og þau eru kannski ekkert há. Og maðurinn minn er kennari.

En nú ber svo við að við erum að flytja. Ég var í Kópavoginum að pakka niður um helgina. Og hvílíkt og annað eins ógrynni af eignum. Sjálfsagt milljónavirði af einskisverðu drasli sem allir í fjölskyldunni hefðu alltaf getað verið án. Um rúmmetri af mismikið notuðum fötum fór í Rauða krossinn sem var svo heppinn að vera einmitt með fatasöfnun. Góður slatti af mublum og öðru endar í nytjagámnum. Alveg slatti kemur hingað austur í áttatíu fermetrana, fer inn í geymslu og líklega ekki þaðan út aftur fyrr en við flytjum næst.

Og það er fyrirsjáanlegt, vegna þess að áttatíu fermetrarnir eru auðvitað of litlir… einhverjir 16 fermetrar á mann eru náttúrulega ekki nóg. Ekki vegna þess að við séum svona stór um okkur né heldur að við séum hreyfingarnöttarar og þurfum að stunda íþróttir heima hjá okkur og enginn í fjölskyldunni gerir útilistaverk.
Heldur aðeins vegna þess að það er ó, svo ótalmargt sem við þurfum endilega og ævinlega að hafa við höndina.

En þegar ég horfi í huganum yfir kassafjallið sem ég fæ hingað um næstu helgi get ég ekki varist þeirri hugsun að fyrst launin hafa dugað til að fjárfesta í öllu þessu drasli hljóti þau nú að duga fjölskyldunni til viðurværis.

Þarf ég hærri laun?

Ég verð að viðurkenna að þegar lítið er um peninga þá sker ég bara niður. Eins og ekkert sé. Kaupi mögulega minna af drasli, hugsa um að rækta kryddjurtir og kartöflur (hef enn aldrei komist lengra en að hugsa það) og endurnýja ekki tækjakost heimilisins nema hann sé ónýtur. Og jafnvel ekki einu sinni þá! Miklu frekar heldur en að fá mér vinnu á 12 tíma vöktum í álverinu eða leita annarra leiða til að auka tekjur heimilisins til að geta keypt mér allt dótið sem ég hef síðan aldrei tíma til að leika mér með af því að ég er alltaf í vinnunni. 

Ef heimili mitt væri ríkissjóður væri ég Sjálfstæðisflokkurinn.

Peningar eru dóp. Ég hef aldrei hitt neinn sem finnst hann hafa nóg af þeim. 
Og nú er söngur dópsalanna byrjaður.

„Viltu ekki aðeins meira, væna?“
„Má bjóða þér lán inní eilífðina?“
„Af því að RÉTT BRÁÐUM fá náttúrulega ALLIR MIKKKKLU meiri peninga… ókeypis.“

Það er markvisst verið að fylla okkur öll af fráhvarfskenndri óþreyju.

Í „Gróðæri II – Endurtökum leikinn“ sem nú er að hefjast tek hins vegar ég engin lán. Ekki verðtryggð, ekki óverðtryggð uppá náð og miskunn geðþóttaákvarðana bankamanna um vexti, ekki einu sinni lán sem eru tengd við stýrivexti Seðlabanka. Frekar held ég áfram að flytja í nýtt gamalt og krappí leiguhúsnæði á eins til tveggja ára fresti og henda öllu draslinu sem ég er búin að eyða peningunum í, í leiðinni. Vissulega er líka séns í helvíti að mér auðnist á leiðinni viska til að hugsa mig betur um áður en ég kaupi það.

Ég neita að taka þátt.

Í næsta hruni ætla ég að ulla á nýju hrunkvöðlana og segja „tóld jú só“ við alla Framsóknarfrændurna mína sem verða auðvitað búnir að skuldsetja sig undir drep útá froðorðin hans Simma Hrafnabjörgum.

Valhoppa síðan skuldlaus og hamingjusöm inn í næstu lista- og nýsköpunarsprengingu, auðug í andanum eins og Þorvaldur Þorsteinsson heitinn.

19.4.13

Varúð! Pólitík!

Í umræðum allra flokka í gærkvöldi var mönnum gríðarlega umhugað um "stöðugleika" já eða "fyrirsjáanleika" íslensks fjármálaumhverfis.

Það sem okkur vantar mest hingað ku nefnilega vera "fjárfestar."

Ég spyr: Ætlum við ekki að hafa lýðræði í þessu landi?

Lýðræði okkar byggir á kosningum á fjögurra ára fresti.
Sem geta, og eiga að geta, haft í för með sér algjöra stefnubreytingu landans í hverju sem vera vill, þar með talið fjármálaumhverfi.

Persónulega vil ég ekki sjá að eiga afkomu mína undir duttlungum "fjárfesta" íslenskra né erlendra.

Ef einhver nennir að muna nokkur ár aftur í tímann, þá endaði það ekkert vel síðast.

Til hamingju með komandi ríkisstjórn, Íslendingar!

31.12.12

2012

Ókei. Hvað gerðist?

Síðasta ár hófst eins það næsta mun gera, hér í Kópavogi. Aldrei slíku vant vorum við reyndar með Smábátur heima á áramótum, en hann flaug til Flórída með móðurfólkinu sínu annan janúar og dvaldi í sólinni um tveggja vikna skeið. Og þar með hófst ferðabrjálaðasta ár í sögu fjölskyldunnar.

Ég kenndi í námskeið í háskólanum og kláraði að aðstoðarleikstýra og skrifa Þann glataða með Hugleiknum. Hann var frumsýndur... einhverntíma. Örugglega bara í byrjun febrúar, eða eitthvað? Í vor kláraðist kennslustyrkurinn sem ég var á, fékk engan styrk í doktorsritgerðina og langaði ekkert í annan vetur á stundakennaralaunum með tekjulausum sumrum á milli. Svo ég sótti um vinnu. Á Egilsstöðum. Og fékk hana.
So...there.

Þegar ég frétti það var ég á leiðinni til Frakklands með Hagaskólagenginu og Rannsóknarskip var búinn að skreppa til Rúmeníu í millitíðinni.
Og Smábátur útskrifaður úr Hagaskóla.

Á meðan við vorum í Frakklandi, nánar tiltekið Montpellier, var Smábáturinn í bænum að vinna, og var skipt á milli ættingjanna, og litlu börnin fóru með afa og ömmu að austan, vestur. Það var svo skemmtileg ferð að það var bókstaflega grátið yfir að hún væri yfirstaðin, löngu síðar.

Freigátan útskrifaðist af leikskólanum Grænatúni.

Í júlí fór ég til Chile. Hélt fyrirlestur. Fór síðan til Danmerkur. Á leiklistarhátíð NEATA með Þann glataða. Flutti síðan nánast lóðbeint til Egilsstaða þar sem ég hef verið í fjarbúð frá fjölskyldunni í allt haust. Til að byrja með í Ágúst var Árni hjá mér, en hann fór fljótlega með Róbert suður en þau litlu voru hjá mér þar til skólinn byrjaði. Ég fór síðan með þau í bæinn þegar skólinn byrjaði. Freigátan byrjaði í Snælandsskóla. Smábátur byrjaði í Fjölbraut í Ármúla.

Síðan fór ég bara austur og aftur í tímann, flutti inn í gamla herbergið mitt og fór að kenna í gamla menntaskólanum mínum. Vinna almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk. (Tímabundið, út 2014.)

Já, og í lok sumars kom nýja þýðingin mín að Önnu í Grænuhlíð út. Það var nú gaman. Bók 2., Anna í Avonlea, er farin í yfirlestra og er væntanleg á vordögum.

Svo var ég í Kópavoginum í hálfan mánuð í september þar sem Rannsóknarskip þurfti að fara aðeins til Tyrklands. Eins og menn gera.

Svo er ég búin að jójóast á milli í haust, og þau einu sinni austur. Mikið verður nú gott þegar þau koma alfarið til mín í vor eða sumar.

22. desember fór síðan Sigga amma mín „yfir í sælustraffið“ eftir margra ára erfið veikindi. Mikið var hún sjálfsagt glöð að fá að halda jólin öðruvísi en liggjandi á sjúkrahúsinu, eins og undanfarin ár. Við byrjum árið 2013 á að jarða hana svo jólin hafa að hluta til farið í minningagreinaskrif og kransapælingar.

Svo er ég örugglega að gleyma einhverju sem gerðist á árinu. Örugglega mörgu.

Og þá er að bresta á með 2013. Útlit er fyrir að atvinnuástand húsfreyjunnar verði nokkuð stöðugt, nema hún klúðri einhverju geðveikt illa en flutningar annarra í fjölskyldunni standa fyrir dyrum í vor eða sumar. Planið er að gefa Egilsstöðum séns í allavega ár eða svo.
(Hin halda að þau nái mér síðan kannski í burtu aftur. Hahahahihihoooo!)

Gleðilegt ár!
Takk fyrir það gamla!