22.12.06

Skápur með gleri og allt

Það hefur verið ljóst í nokkurn tíma að ég hef tapað eftirsókninni eftir kúlinu. Þetta er ekki afleiðing fjölskyldunar vorrar, giftingar og barneigna, heldur hluti orsakar. En það er allt önnur saga.

Fyrr í vetur játaði ég ílöngun í hillusamstæðu.

Það bar til um þessar mundir að fjölskyldan fluttist búferlum. Í minna og sætara húsnæði, sem fylgdi minni og sætari eldhúsinnrétting. Ljóst var að puntglasaeign fjölskyldunnar komst hreint ekki fyrir í hinni mínímal eldhúsinnréttingu. Við Rannsóknarskip skipulögðum afmarkað svæði í stofurými þar sem mætti sem best koma fyrir skáp með gleri, fyrir puntglösin og fleira tilfallandi. Og leitin hófst. Hún barst víða. Nokkrir þóttu líklegir, en enginn almennilega útvalinn að svo komnu máli.

Víkur þá söguna til fólksins uppi. Uppi hafa staðið yfir miklar framkvæmdir og sýndist okkur helst hljóta að vera búið að henda öllu innanstokks, á því sem maður var að rekast á í stigaganginum. En lengi er von á einum. Fyrir nokkrum dögum rákumst við á, bókstaflega, forláta skáp með gleri. Var honum snyrtilega saman pakkað, og þótti okkur víst að hann ætti sér áfangastað. Gríntumst samt með að við ættum að gá hvort við mættum ekki bara hirða hann. Héldum við því áfram í hvert sinn sem við tróðumst framhjá honum næstu daga. Þar kom að að Rannsóknarskip rakst á eigendur skápsins í stigaganginum og bar upp erindið. Í ljós kom að skápafmánin var á leið á haugana og var okkur mikið velkomið að hirða hann og spara fyrri eigendum ferðina. maðurinn uppi hjálpaði Rannsóknarskipi meira að segja að bera hann á sinn stað.

Nú erum við sumsé orðin stoltir eigendur að þessum fínasta skáp með glerhurðum, sem kostaði ekki krónu, en lætur okkur samt líða eins og við séum þvílíkt ríkt og fínt fólki í vesturbænum, þegar við sjáum hve hann ljómar fagurlega, við hliðina á píanóinu. (Sem við erum með í láni.)

Þetta var saga af skáp með gleri.

Tökum þá upp allt annað hjal, og segjum frá flónsku húsmóðurinnar.
Ég ætlaði, í fyrsta sinn í aldir, að senda jólakort. Þar sem ég átti svo fína mynd af krökkunum til að setja á það. Skemmst frá því að segja að pöntunin sem fara átti til Hans Petersen (á síðustu stundu) fokkaðist eitthvað upp hjá mér, og ég fattaði það ekki fyrr en löngu síðar. Okkur Photoshop tóxt hins vegar að búa til mynd sem lítur út nokkurn veginn eins og jólakortið átti að verða. Hún verður birt hér á aðfangadag.

Ég lít þannig á þetta að ég sé að spara mönnum pappír til að geyma í geymslunni sinni og henda eftir 10 ár. Þeir sem haldnir eru söfnunaráráttu geta prentað út fyrir eigin vélarafli.

21.12.06

Gullmolar

Í gær fórum við í IKEA. Það var aðallega Freigátan sem verslaði. Fjárfesti hún í einhverjum hirslum undir veraldlegar eigur sínar og einni flensu. Hún var því með 39 stiga hita í dag og ég var heima að halda á henni í staðinn fyrir að fara í vinnuna. Seinnipartinn var Rannsóknarskip í áhaldinu meðan ég fór í Smáralindina í fárviðrinu og eyddi mannskemmandi fjárhæðum í jólamat og gjafir. Það var gaman.

Gullkorn undanfarinna daga eru í boði Smábáts:
Á leiðinni heim úr IKEA fór Rannsóknarskip að láta ófriðlega, eiginlega að hætti félaganna Bívisar og Böttheds, við undirleik Eminems. Smábáti þótti ómaklega að sínum manni vegið. (Þ.e.a.s., undirleikaranum.) Eftirfarandi samtal átti sér stað:

Smábátur: Hvað ertu eiginlega að gera?
Rannsóknarskip: Ég er að vera unglingur.
Smábátur: (Þurrlega) Voru unglingar svona í þinni tíð?

Áðan vorum við að horfa á Geimtíví. Þar klikktu umsjónarmenn út með því að hvetja menn til að spila úr sér augun um jólin. Þetta fannst okkur fyndið. Smábáti þótti nú samt rétt að taka fram að hann ætlaði ekki að gera það.

Ég: Eiga menn ekki líka bara að fá ferköntuð augu af því að glápa of mikið.
Smábátur: (Eftir nokkra umhugsun.) Af hverju eru sjónvörp þá ekki bara höfð augnlaga?


20.12.06

Drullujól

Það verður rok og rigning um jólin. Held að Bogomil þurfi eitthvað að endurskoða textann í mæjónesjólalaginu sínu.

Drullujól gæti verið góður titill á jólaplötu paunkhljómsveitar.

Lögin á henni gæti til dæmis verið:
Glögggubb
Kjötskita

og
Skítagjafir

Paunkarar allra landa mega fara eins og þeim sýnist með þessa hugmynd.

19.12.06

Heimtur

Trúi ég verði góðar þessi jólin. Meira að segja skatturinn ætlar að gefa mér feita jólagjöf. (Reyndar fjármunir sem hann er búinn að geyma fyrir mig vegna kæruleysis míns viðo skattframtalsgerð undanfarin ár, en það er nú sama.)

Ég er ferlega löt, þessa dagana. Enda er ekkert mikið af neinu að gera. Þetta er síðasti dagurinn sem Smábáturinn er "eðlilega" í skólanum, og svo er mest lítið eftir nema að jólast eitthvað. Við Freigátan ætlum í bæinn í dag og spóka okkur í rigningunni. Sækja myndir í framköllun og versla pínu og tjilla. Í hlýjunni.
Freigátan er alveg að fara að labba. Henni finnst það hins vegar svo fyndið að þegar maður setur hana á lappirnar þá hlær hún bara þangað til hún hlunkast á rassinn.

Og nýja vídjóupptökuvélin fær allt of mikið að vera í friði. Eiginlega bara alltaf. Rannsóknarskip fór með hana á "Jólasmiðju" hjá Smábátnum, en skemmti sér svo vel að hann steingleymdi að taka upp. Vonandi stöndum við okkur betur við alla merkisviðburði um jólinn. Kannski maður taki þetta bara fyrir svona eins og hverja aðra kvikmyndagerð og geri t.d. bara heimildarmynd um aðfangadag? Til að allar ömmur geti séð hvernig hann gengur fyrir sig? Og hafi það svo fyrir árlegt brauð?

Ég er öll í að stofna fjölskylduhefðir.

18.12.06

Heimskaut

Það er hádegi og næstum alveg myrkur.
Ætli sé kominn heimsendir?

Margt

Það fer að verða hefð fyrir því að síðasta helgi fyrir jól sé svona hreint arfaskemmtileg.

Föstudagskvöld byrjaði vel.
Fór á afmælissýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Skemmst frá því að segja að ég hló allan tímann og alla leiðina heim. Þessi sýning, Ráðskona Bakkabræðra, er algjör gargandi snilld. Hún byggir á handriti sem var ógurlega vinsælt í kringum 1945. Er samt fyndin í dag. Sem er því meiri snilld.

Enn hálfflissandi mætti ég síðan á tónleika Ljótu hálfvitanna á Rósenberg. Það var líka hrrroðalega gaman. Ekki voru nú margir kunnugir á staðnum til að byrja með. (Það er asnalegt að fara úr á pöbba um helgar. Allir ókunnugir og fullir.) En úr því rættist nú þegar á leið. Ég flissaði að lögum sem mér eru búin að þykja fyndin í 12 ár. Fór að huxa um tímann með Hugleik og finn á mér að væminn pistill um þann félaxskap allansaman er alveg á leiðinni.

Á laugardag fórum við Júlía og röðuðum til á Eyjarslóðinni til þess að ofvirka leikfélagið okkar geti æft þar fram að áramótum. Já, menn eru klikk.
Seinnipartinn á laugardag vorum við Freigátan síðan bara heim að leika okkur á meðan Feðgar fóru í bíó. Þeir skemmtu sér konunglega á Eragon.

Á sunnudegi var síðan gluggatjaldasaumur næstum kláraður. Svo fórum við með fjölskylduna á Pítsu hött, í Nettó hvar verslaður var forláta hamborgarhryggur, og efni til piparkökugerðar sem framleiddar voru með miklum tilþrifum þegar heim kom.

Og í gærkvöldi gerðum við Rannsóknarskip lista yfir hvað væri eftir af jólaundirbúningi. Hann varð styttri en við var að búast.