20.2.10

Sveitasælan

Það er næstum óheilbrigt hvað við erum að hafa það gott. Við hjónin skiptumst á að sofa syndsamlega lengi á morgnana. Þau litlu eru búin að hitta kindur og ketti og hnoðast heilmikið úti í snjónum. Freigátan er þar að auki búin að taka eina flugferð niður stigann og fara í Freyvangsleikhúsið og sjá Dýrin í Hálsaskógi. Það gerði nú aldeilis lukku.

Fermingarundirbúningsfundur með hinum helmingnum af foreldrateymi Smábátsins var frábær og nú eru veislurnar ógurlegu næstum ekki óyfirstíganlegar lengur. Sem er eins gott. Við Rannsóknarskip erum bæði að skipuleggja leikstjórn (ir?) sem hefst núna og stendur næsta mánuðinn eða svo.

Þegar maður fer svona út úr heiminum, vinnur ekki, sefur nóg, þá fer hausinn á manni á heilmikið flug. Ég er til dæmis búin að skipuleggja sumarið, svona í meginatriðum, og er í endalausum valkvíða um hvort ég á að:
- Fara á Leiklistarskóla Bandalagsins í júní, og ef ég fer, á hvaða námskeið ég á að fara þar sem ég held að tvö verði í boði sem mig langar á.
- Sækja um að fara á geðbilað höfunda-rítrít á Ítalíu í júlí sem bandarískt experímentalleikhúsbatterí heldur. Myndi ekki vita hvort ég fengi inni fyrr en 1. júní og kostnaðaráætlun hljóðar uppá hálfa milljón.
- Hvort ég ætti kannski ekkert að vera að fara neitt þar sem ég þarf að yfirgefa fjölskylduna í viku í ágúst og halda Norður-Evrópska leiklistarhátíð á Akureyri.

Sem sagt. Fyrir utan valkvíðann, og leikstjórnarplönin, og ferðirnar út í snjóinn að þreyta börnin, erum við að slappa ferlega af. Erum reyndar að missa af svo mörgum afmælum, viðburðum og allskonar í bænum að annars hefði þetta líklega verið annasamasta helgi ársins. En þetta er alveg nauðsynlegt líka.

Á morgun verður brunað í bæinn, eftir hádegi.

17.2.10

Litla jafnréttisdrottningin

Á leikskóla Freigátunnar búa börnin sjálf til grímubúningana sína. Og þá er líka alltaf þema og þau fá að velja hvaða persóna þau eru. Í fyrra voru það Múmínálfarnir. (Freigátan valdi að vera Snabbi.) Í þetta sinn er það ævintýrið um Stígvélaða köttinn.

Þegar Freigátan kom af leikskólanum í gær frétti ég að hún hefði verið að búa til fína kórónu. Móðurskipið dró að sjálfsögðu ályktun (gegnsýrða af fordómum um metnað fjögurra ára stúlkna) og spurði: Já? Ætlarðu að vera prinsessa?

Freigátan: (Djúpt hneyksluð) Nöjts! Auðvitað kóngurinn!

Segiði svo að ungar stúlkur sæki ekki í valdastöður...

Lausnin fundin!

Af hverju hafa bankar efni á að afskrifa hundruð milljarða á meðan þjóðfélagið þarf að skera niður alla opinbera þjónustu við trog?

Hvernig væri nú að þessir vellauðugu bankar lánuðu ríkinu fyrir skuldunum... og afskrifuðu þær svo?

Og afskrifuðu þessar skitnu krónur sem almenningur skuldar í leiðinni?

Það eru greinilega til nóóóógir peningar.

Ég ætla norður í snjóinn á eftir og eyða helginni með stór-tengdafjölskyldunni og gera mitt besta til að stunda enga líkamsrækt og pirra mig ekkert á helvítis fokkíng fokkinu.

Ókei?

15.2.10

Uppfokk

Ég hef ekkert montað mig af heilsuræktarbyltingunni nýlega. En það er ekki þar með sagt að hún fari eitthvað dvínandi. Bara orðið svo innbyggt í lífið að gúlla í sig Herbalife í 2/3 mála, hlaupa svona 3svar í viku, stunda kellingaleikfimi í hádeginu, jóga tvisvar í viku og bolta með hinum kjellingunum á hæðinni einu sinni í viku, að það þarf ekki að taka það fram. Og þó þetta sé kannski orðinn dágóður slatti, þá verð ég alveg dragúldin ef ég missi af einhverju af þessu.

En nú er orðið kalt. Og ég fattaði það ekki þegar ég fór út að hlaupa í gær. Með þeim afleiðingum að liðamót uppfokkuðust í hrönnum og bættust við allskonar uppsafnaða stífni frá þorrablóti um síðustu helgi, einum fótbolta á vitlausum skóm frá vikunni á undan, og hinu og þessu.

Enda er ég að hugsa um að gera nokkuð byltingarkennt um næstu helgi. Við erum að fara norður miðvikudag til sunnudags. Ég ætla hvorki að taka Herbalifið né hlaupaskóna með. Og helst ætla ég lítið að nenna að fylgjast með fréttum, heldur.

Semsagt, afeitrun og mýking í hvívetna!

14.2.10

Menningarglött

Fór á tónleika með Band on stage í gær. Það var hroðalega gaman. Gott stöff. Ármann, Sara og Loftur fluttu ýmis b-hliða lög alveg héðan og þaðan. Og afar vel.

Svo sá ég Ufsagrýlur áðan. Viðeigandi að sjá þær í dag, en í dag er einmitt fyrsti dagurinn á nýju kínversku ári sem ku vera ár tígursins, og það á að vera árið sem við Sjón, sem erum bæði tígrar, eigum að verða ógurlega heppin. Og það er óttalegur Grímufnykur af þessari sýningu, verð ég að segja. Klárlega besta hrunstykkið sem ég hef séð, ennþá, og alveg örugglega mikilvægari upplifun heldur en að lesa "rannsóknarskýrsluna" og alveg örugglega sannferðugri um eftirleik hrunsins.

Mikið svakalega er annars kalt úti!
Ég sem hélt að sumarið væri komin...