29.9.07

Saltfiskur

Fyrir nokkrum árum fór Gunnar Björn ofan í kjallara og varð vítlaus. Í gær vaknaði Gísli Örn allur á hliðinni.
Já, Hamskiptin eftir Kafka eru oft sett upp. Hvers vegna? Tja, í hvert sinn sem ég sé þau detta mér alltaf í hug nokkrar leiðir í viðbót til þess. Kannski er það þess vegna.

Hittti annars Huldu Sónar Hákonardóttur í leikhúsinu í gær og hún minnti mig á að hún hefði verið svo spáglögg að vera búin að spá fyrir um ásettan fæðingardag Ofurlitlu Duggunnar. Og er enn sannfærð um að barnið brjótist út úr sjálfri mér á þeim degi, þeim 8. febrúars. (Sjálfri finnst mér ágætt að hafa í huga að daginn 23. febrúar. Daginn eftir gangsetningardag.)

Búin að eyða mestu af deginum uppi á útvarpi að hlusta á tvo spekinga leiða Menningarogfræðaíútvarpi bekkinn minn í allan sannleikann um þáttagerð að hætti Rásar 1. Það tók rúma 3 tíma og gerði það að verkum að ég missti af næstum öllu Orð skulu standa.

Þegar heim kom var Rannsóknarskip búinn að gera alþrif á heimilinu. Í staðinn fékk hann að fara og horfa á fótbolta úti í bæ.

Það verður saltfiskur í kvöldmatinn. Það er svo laugardaxlegt.

28.9.07

Siðaskipti

Ég er helst á því að þessa dagana liggi ég mjög vel við heilaþvotti. ég veit ekki hvort um er að kenna (eða þakka) óléttu, daglegri heilaítroðslu, hori, eða hvað. En fátt er nú skemmtilegra en að skipta um skoðanir. Svo ekki sé minnst á lífsviðhorf.

Um daginn las ég grein um byltingarkenndar hugmyndir um form á skjátextum. Þessa grein ætla ég að vinna með í þýðingafræði. Fyrri hlutann af henni var ég alveg brjáluð. Tautaði "tuh" og "þvuh" fyrir munni mér og "veitekkertumhvaðhanneraðtala". Var ég óneitanlega frekar fúl yfir því að þarna væri verið að hnýta ú viðteknar reglur kúnstarinnar í skjátextun, sem ég hef nú eytt nokkrum árum í að tileinka mér sem fullkomlegast. En svo fóru að renna á mig nokkrar grímur. Undir lokin var ég búin að komast að því að hugmyndir þessa manns, þó framúrstefnulegar væru, í framtíð skjátextunar væru í það minnsta skemmtilegri en það sem gert er nú. Og honum tókst bara alveg að færa sæmilegustu rök fyrir því að þær væru síst ógáfulegri. Svo nú er ég eiginlega bara farin að hlakka til að hafa textann um allan skjá, stundum litaðan eftir því hver er að tala, stundum með þýðingalegum skýringum til hliðanna, og rauðan ef er hávaði. Jah, hví ekki?

Svo er hann Gotti kennari líka kominn á góða leið með að heilaþvo úr mér þjóðernisstefnuna. Ég hafði nefnilega ekki græna glóru um að þetta með að sortera fílk eftir löndum og þjóðtungum væri eitthvað sem var "fundið uppá". Og það meira að segja fyrir ekkert löngu síðan. Þetta með menningararfinn og hreintungustefnuna og land og þjóð og allt, er orðið eitthvað svo inngróið í mann að maður tekur ekki einu sinni eftir því. Var í skólanum á miðvikudaginn að ræða grein um þessa flokkun bókmennta eftir löndum og þjóðtungum, eða ekki, og er á góðri leið með að verða enn meiri óþjóðalýður en ég var. (Og það orð hefur nú heldur betur öðlast nýja merkingu.) Hef horfst í augu við þjóðernishyggjuna í sjálfri mér, og líður eiginlega eins og hálfgerðum nasista. Ég huxa að hann Gotti hafi þarna hrundið af stað ógurlegri byltingu í hugskoti voru, sem gvuðmávita í hvuslax þjóðleysi endar.

Jæja. ætli sé ekki best að fara að afhára lappirnar, fyrst svo undarlega vill til að maður kemst í bumbusund í dag!

Að lokum, óstjórnlega sæt mynd af okkur Freigátu síðan í fyrra, í tilefni þess að ég er í tölvu Rannsóknarskips og var að skoða myndirnar þar.

27.9.07

Erlendur starfsmaður

tók við dóttur minni, hágrenjandi með eiturgrænt hor niður á höku, þegar ég kom með hana í leikskólann í dag. Þessi dýrðarmanneskja ætla að hugsa um Freigátuna, snýta, hugga, skemmta, leika við, fæða, klæða og skipta á, í allan dag. Á sjálfboðalaunum leikskólastarfsmanna.

Í staðinn mætti barnið alveg læra ekkert nema óskilgreinda útlensku á leikskólanum, mín vegna.
Ég kenni henni þá bara íslensku þegar hún kemur heim.
Ef það borgar sig þá eitthvað að vera að læra hana.
(Kannske óverdósaði ég aðeins á andþjóðernisstefnulega áróðrinum í hagýtunni í gær.)

Annars, Rannsóknarskip hefur verið dæmdur vanhæfur til atvinnulífs fram yfir helgi. Ég er sjálf með hausverk dauðans og stíflur í ætt við þær á Káranjúkum. Eftir leikskólann ætlum við Freigáta nú samt í Kringluna með Ömmu-Freigátu, svo það er nú víst betra að reyna að ná heilsu. Ætla að fara í bað og leggja mig áður en ég fer að læra eitthvað.

26.9.07

Jahér

Nú tók kennarinn minn í Hagnýta Rannsóknarverkefninu þá óvenjulegu ákvörðun að taka pásu á lögbundnum pásutíma skv. stundarskrá. Eins og við manninn mælt að niðri á kaffistofu var hálfur heimurinn og ég á kjaftatörn við alla. Ég hitti líklega fleiri sem ég þekkti heldur en alla mína háskólagöngu fram til þessa, samanlagt.

Þess vegna verður bloggræpan eitthvað smærri en á venjulegum miðvikudegi. Spilar líka inní að ég fer líklegast heim í hádeginu og kl. 13.00 er mæting hjá öllum í Menning og fræði í útvarpi uppi í Útvarpi, þar sem á að leiða okkur í öll sannindi um gagnasafn ríkisútvarpsins. Veeerí spennandi, en ég huxa að tölvan fái ekki að koma með.

Eftir þá heimsókn vend ég líklegast kvæði mínu í kross, sæki Freigátuna og skrópa svo í Fræðilegu skrifin til þess að geta klárað heimaverkefnið í þeim. (Frekar leiðinlegt, þetta eru að verða hinir skemmtilegustu tímar hjá honum Höskuldi málvísindamanni.)

---

Sjitt. Og ég fer alveg að þurfa að éta ofan í mig því sem ég var að hreyta útí eldgamla bókmenntasögukennarann minn. Það er ekki hægt að kenna bókmenntasögu.

Búin að vera í löngum og flóknum umræðum og það eina sem ég veit núna er að það er ekki hægt að skoða neina sögu nema eftirá og frá sjónarhorni nútímamannsins. Þar með er öll söguskoðun orðin lituð af kenningum nútímans, og öllum kenningum fortíðar sem leiddu til hennar, og þar með ekkert að marka.

Ég er alveg að missa sjónar á tilgangi lífsins.

---

Á útleiðinn mætti ég hinum verðandi séra Oddi. Sá var í lopapeysu að hætti guðfræðinema með stóreflis Biflíu í handarkrikanum. Ræddi ég stuttlega við hann og Lubba Klettaskáld um andleg málefni.

Þegar ég settist inn í bílinn tók hinn sami Oddur á móti mér með söng:
"Ef ég geri nokkuð geri ég það ekki vel..." og svo framvegis.
Það fannst mér nú fyndin tilviljun og raulaði með: "Drekkum einn, drekkum tvo..." og svo framvegis.
Ekki lét hann þar við sitja, heldur náði að byrja aftur á diskinum ("Við erum á leið til andskotans...") og fara nokkuð inn í lagið Bjór meiri bjór, ("Bara andskotans nógu oft...") áður en ég komst heim.

Ekki laust við að myndin af séra Oddi með Biflíuna í handarkrikanum hafi afhelgast nokkuð á heimleiðinni.

25.9.07

Masó

Mig rámar í að einu sinni hafi maður stundum ekki mætt í tíma, bara af því að maður, til dæmis, nennti ekki að vakna. Eða nennti ekki að fara út í vonda veðrið (og ferðast alla leið frá stúdentagörðunum í aðalbygginguna.) Nú er öldin svo gjörsamlega allt önnur. Maður djöflast í tíma án þess að sjá né heyra fyrir hausverk og horleifum. Tilhuxunin um að skrópa í tíma rænir mig bóxtaflega lífslönguninni og vekur mér endalausa skelfingu um að missa af einhverju svo gífurlega mikilvægu að minn akademíski ferill eigi sér aldregi von til viðreisnar. (En þetta er reglulega kjánalegur huxunarháttur að hafa, sérstaklega núna á síðustu tímum tæknialdar þegar upptökur og glærur úr fyrirlestrunum eru aðgengilegar á alnetinu um 5 mínútum eftir að tíma lýkur og æ síðar. Svo fátt væri hægara og huggulegra að gera en að glugga í þetta í hægindum heimilis síns, með tebolla og teppi. Rugl í manni. Í staðinn pínir maður sig í skítkaldri skólastofu, skilur ekkert annað en að horið vill út um öll líkamsop og er illt á bak við augun.)

Hvenær í veröldinni varð eiginlega þessi umsnúningur í akademískum huxunarhætti?

Og hvaðan kemur þessi endalausi bloggandi sem svífur alltaf yfir mér í skólanum?
Huxanlega frá því að ég þarf ekki lengur að æða út að reykja í öllum pásum? (Úff, hvað kvefið mitt fékk mikinn hroll við tilhuxunina. Í gamla daga hefði það nú samt ekki stoppað mann. Þokkalega hefði maður heldur hlaupið út og reykt sér endanlega til óbóta.)

Allavega. Auk blox er ég búin að vera að skemmta mér við að taka saman hvenær ég á að skila hverju á þessari önn. Það er nú margt, og sumt er frekar bráðum. Niðurstaðan er sú að það mega hreinlega ekki koma fleiri flensur!
Til dæmis þarf ég að lesa 30 blaðsíðna grein, geta rætt hana af einhverju viti í fyrramálið og reyna að berja saman eitt verkefni úr henni, ekki seinna en annað kvöld. (Meika alls ekki að lesa aðra grein og á að gera verkefni úr "einhverri" grein fyrir annað námskeið. Bara rétt eins fokkíng gott að ég finni eitthvað sem hægt er að kalla fræðilega fullyrðingu sem reynt er að rökstyðja með dæmi. Betra ef það er illa gert.)

Og ég mun skrópa í einn tíma á morgun. Það verður ekki hjá því komist. Spurning hvort maður þarf róandi.

Freigátan fær að fara á leixkólann á morgun. Enda er hún hitalaus í dag og komin með brjálaða innilokunarkennd. Og mikið ógurlega hlakka ég til að baða hana í kvöld! Börn sem eru lengi með hor og hita, svitna líkamsþingd sinni í hvert sinn sem þau sofna og losa sig við annað eins í horformi þegar þau vaka, verða minna frýnileg með hverjum deginum sem líður. Sama hvað maður er mikið með þvottapokann á lofti.

Ég trúi þessu ekki. Helv... þýðingafræðin ætlar framyfir tímann.
Ég sem verð að komast í apótek!
Rannsóknarskip er enn lasið og fær líklegast ekki að fara í skólann sinn á morgun. En til að hann hlýði því þarf að dópa hann. Hann er svo brjálað samviskusamur kennari að hann er að fara yfirum úr áhyggjum og finnst hann standa sig geðveikt illa að vera svona veikur. (Ég hef minni áhyggjur... hef séð launaseðilinn hans.)

24.9.07

Meira hor

Ný vika, ný veiki. Hvorki Freigáta né Rannsóknarskip fóru í skólana sína í dag. (Reyndar ekki Smábátur heldur, en það er af náttúrulegum orsökum, starfsdagur í hans skóla.) Ég Huxa að helmingur flotans verði aftur heima á morgun, en vonandi text mér að gera eitthvað af heimavinnunni og druslast í þýðingafræðina. Er annars líka hundslöpp.

Tóxt þó að gera mig út af örkinni áðan og versla í Krónunni fyrir tíuþúsund kall. Aðallega vítamín. Nú skal troðið í liðið allskonar fyrirbyggjandi galdrameðulum, lýsi og C. Svo fara Smábátur og Rannsóknarskip í flensusprautur sem endanær og vonandi þurfum við ekki að nenna þessu neitt mjög oft lengur.

Annars var laugardagurinn ljómandi. Maraþonworkshop í þýðingarfræði þar sem ég er að þýða hið merka verk "A Number" eftir Caryll Churchill, sem skrifaði Cloud Nine, Top Girls og fleira. Það er nú heldur en ekki trikkí, sem er spennandi. Mér kom mest á óvart hvað mönnum þótti ég huguð að ætla að þýða leikrit. Mér fannst það nú bara liggja svo þráðbeint við...

Freigátan hoppar hér og skoppar og er ekkert að vera kjur. Mér finnst hún nú vera orðin óttalega horuð og föl eftir öll þessi veikindi, en vona að hún nái sér nú, og vona að það verði fyrr en næsta sumar. Ofurlítil Duggan sparkar og sparkar, og er öll einhvern veginn raunverulegri eftir að við fengum að sjá hana. En spörkin eru nú ekkert farin að finnast "í gegn" svo Rannsóknarskip verður að bíða eftir að finna svoleiðis, enn um sinn. Annars fékk hann þvílíka opinberun við sónarinn að ég hef hann grunaðan um að hafa haldið að ég væri bara svona feit.

Best að gefa Freigátunni einhver galdralyf svo hún verði orðin leixkólafær á miðvikudag.