19.10.07

Það er komið að því

Enginn fær umflúin örlög sín að eilífu.
Ég þarf að fara og læra í bókhlöðunni.
Í allan dag og meira á næstunni.

Andvarp.

18.10.07

Grey

Freigátan var með bullandi hita í nótt og morgun svo ég endurskiplulagði læriplan daxinx á næstu daga í staðinn og bjó mig undir mikil kósíheit. Enda erum við búna að eyða morgninum mest í að kúra og syngja og lesa. Nú er hun farin að leggja sig... ég gæti svosem farið að læra... en er meira að huxa um að fylgja bara fordæminu.

Rannsóknarksip lufsaðist í skólann, hundslappur og hóstandi.

Ég skipulagði yfir mig og komst að því að eftir verkefnin sem ég á að skila í næstu viku er ekkert endilega svo geðveikislega mikið eftir af verkefnum á önninni. (Jújú, einhverjar ritgerðir og eitthvað, en það er nú ennþá bara október.)
Hef aldrei áður haft svona geðveikt mikla yfirsýn í námi.

17.10.07

Maður flýtur betur eftir því sem maður er óléttari.
Prófiði bara að taka kind og henda henni í stöðuvatn í janúar. Og svo aftur í apríl.

---

Fór á foreldrafund í leikskólanum.
Fattaði undir lok fundarins að ég skrifaði einu sinni ekki kvikmyndahandrit fyrir einn pabbann.
Djuls.

---

Freigátan er aftur komin með alveg bullandi hita og augnsýkingu. Er samt hin sprækasta.
Veit ekki hvað ég á að halda.

Morgunn

Freigátan ákvað nú samt að vera hitalaus og alveg spriklandi spræk í morgun. Fékk að fara á leikskólann þrátt fyrir örlítið hor. Með nýja kuldagallann og veitir örugglega ekki af. Það var líka eins gott þar sem Rannsóknarskip er óttalegt grey í dag og veitir ekki af að hvíla sig. Hann varð strax aftur veikur þegar sýklalyfjum sleppti, en í gær hitti hann bara vonda lækninn sem segir bara að maður sé með vírus og vill aldrei gera neitt fyrir mann. Rannsóknarskip á pantaðan tíma hjá góða lækninum með pillurnar á föstudag. Og flensusprautu í næstu viku!

Er í gagn og gamanlegum tíma í rannsóknarverkefninu og það er allt að mjakast.
En mikið svakalega þarf ég að eyða eins og einum degi í bókhlöðunni eða einhversstaðar við að grafa upp allskyns um Moliere og Baudelaire. Og Menandros.

Svo er ég að fara að taka viðtöl í útvarpsþáttinn minn, og finnst það mjög stressandi. Aðallega vegna þess að við erum búin að læra svo mikið um vondar spurningar og lélega viðtalstækni að nú finnast mér allar spurningar sem mér hafa nokkurn tíma dottið í hug að spyrja neinn, asnalegar.

Á er að bresta hreiðurgerðarkast. Nú langar mig að láta smíða hillur á ganginn. Svo langar mig líka í ruggustól. En hann þarf að vera voða lítill og komast fyrir í horninu á svefnherberginu. Og mig langar að breyta í svefnherberginu. Og skrifstofunni. Og á baðinu. Sem þarf reyndar að gerast fyrir Duggu, en ég má eiginlega ekki vera að fyrr en í desember, kannski. Gæti reyndar kannski farið og látið ráðleggja mér og jafnvel gera verðtilboð í þessar fínu hillur sem ég teiknaði um daginn.

Svo er millibilsástand. Venjulegu fötin eru of lítil. Óléttufötin eru ennþá of stór. Svo nú er ég bara með buxurnar í skopparastíl og eins og ég hafi bara klætt mig í poka í morgun.

Gotti kennari er einstaklega fyndinn á undirtexta.

Mér finnst ég sniðugt af mér að taka viðtölin uppi á Bandalagi.
Mmmmm. Bandalaxkaffi.

16.10.07

Það finnast ekki feitari buxur

en ég fann efripart sem ég get pollróleg orðið 200 kíló í. Af barneignum eða öðru. Ég held nefnilega að ég sé endanlega búin að jafna mig á nammiógeðinu sem ég fékk á fyrstu mánuðum meðgöngu. Allavega er ég núna farin að huxa, í nammileysinu, hvað ætli myndi gerast ef maður setti til dæmis síróp og súkkulaðisósu út á banana?
En vonandi fer þessi hugmynd aldrei af hugmyndastiginu neins staðar.

Ég held það þurfi að senda hann Vilhjálm í altzheimergreiningu. Maðurinn mann ekki neitt.
Og mér finnst Bingi vera með gleraugu. Þó hann sé það ekki.

Freigátan er komin með hita. Mér til happs er Rannsóknarskip líka slappur og er meir en til í að vera heima með veikt barn, ef því verður að skipta á morgun. Sem er eins gott. Á morgun er nefnilega fyrsti dagurinn sem ég var búin að skipuleggja í allskonar verk utan heimilis. Raðviðtöl við illínáanlega menn fundafjöld og hvur veit hvað.

Og hvað þarf eiginlega að gerast á þessu landi til að það sé eitthvað alminilegt í sjónvarpinu á þriðjudögum?
Ég held helst að það hafi ekki gerst síðan Derrikk var og hét.

Þar fór það

Síðustu lágstrengjuðu gallabuxurnar með nokkurn veginn eðlilegu sniði passa ekki lengur. (Lesist, ná ekki lengur uppfyrir hinn hraðstækkandi rass.) Til þjónustu hafa verið kallaðar hinar franskættuðu Óléttubuxur sem eru sérhannaðar fyrir bumbur og ólétturassa. Og áttu ekki að þurfa að brúkast fyrr en á næsta ári.

Andskotinn.

Ennfremur er Duggan óðum að vaxa mér upp í rifbein. Það er frekar óþægilegt, en gerir það þó að verkum að maður byrjar ósjálfrátt að rétta úr kryppunni.

Farin í Kringluna, í feitustu buxunum, að leita að enn feitari buxum.

Sundlaus dagur

Freigátan endurtók leikinn í morgun og stökk í fangið á leikskólakennaranum sínum og kvaddi Móðurskipið með virktum. Þar með hættir það að vera fréttnæmt.

Í dag er sundlaus dagur sem þýðir að ég ætla að vera hrrroðalega dugleg. Þegar er ég búin að klára fyrstu aðför að því að þýða tvo kafla úr einu leikriti (fyrir skólann) svo þarf ég að klára að læra almennilega á eina græju sem maður tekur viðtöl inná og klippiforrit til að klippa þau til (fyrir skólann) og svo þarf ég að klára að glöggva mig á smávegis úr Sögu Bandalaxins, en er einmitt að fara upp á Bandalag á morgun til þess að taka viðtöl við formann og söguritara. (Fyrir skólann.) Sjá menn hvað ég er lymskulega búin að lauma öðrum þáttum lífs míns inn í það sem ég kalla "skólann"?

Einnig þarf ég eitthvað að skoða betur þá félaga Moliere og Baudelaire. Ekki gerði ég mér grein fyrir því að eftir að hafa "lært" í Frakklandi sit ég uppi með ferlega mikið af Frökkum í verkefnum þar sem, til dæmis, þarf að skipta höfundum á milli. Og svo er ég orðin forfrömuð í frönskunni að þegar ég var að glugga í heimildir um hann Moliere í síðustu viku var ég alveg búin að glugga og glugga áður en ég fattaði að sumt af því var alls ekki á ensku, heldur frönsku. Svo eftirlifandi franskan mín er greinilega eitthvað betri en ég hélt.

En nú er bezt að halda á spöðum. Er að vona að ég geti búið mér til tíma til að skreppa upp í Kringlu og versla smá afmælisgjöf fyrir Smábátinn og athuga hvort ég finn ekki kuldagalla á Freigátuna. Allt í einu er nefnilega alveg orðið gargandi kalt og örugglega ekki í síðasta sinn í vetur.

Það eru ennþá óttalega mikil hóstakjöltur í Rannsóknarskipi og Freigátu. Ég fer alveg að senda þau í lungnaspeglun.

15.10.07

Stórmerki!

Í morgun gerðist hið langþráða. Freigátan stökk í fangið á næsta starfsmanni þegar við komum inn í leikskólann, kyssti Móðurskipið bless og vinkaði, eins og ekkert væri. Móðurhjartað var næstum sprungið úr stolti og feita Móðurskipið var furðu léttstígt á leiðinni yfir í Þrekhús þar sem var lyft og teygt með öllum vöðvunum í félaxskap Bubba Morthens og Jóns Ólafs.
(Sem er reyndar hálflygi. Þeir voru að mæta um leið og ég, stóðu í anddyrinu og spjölluðu Hástöfum. Og stóðu þar enn og voru með hávaða þegar ég fór. Ég eiginlega skil ekki af hverju þeir voru ekki bara á kaffihúsi. Kannski hefur verið búið að henda þeim út vegna hávaða.)

Allavega, þessi móralski stórsigur Freigátunnar varð mér svo gríðarlegur innblástur að ég er búin að koma gífurlega miklu í verk í morgun. Eiginlega bara meiru en var á planinu. Svo ég er ríflega á áætlun með vinnuplan verkefnavikunnar, þó ég hafi farið í ræktina. Svo er sundið á eftir og vonandi fer beinagrindin í mér eitthvað að skríða saman uppúr því.

Í millitíðinni ætla ég að halda áfram að vera dugleg.
Bezt að drífa í innkaupunum fyrir vikuna.

14.10.07

Sígur í...

Ég fer að halda að ég sé með sálrænan grindverk. Um daginn frétti ég að ég væri að verða komn 6 mánuði á leið. Og eins og við manninn mælt, í dag er ég óttalega eitthvað léleg í grindinni. Það er að segja, eiginlega bara allri beinagrindinni. Ætla að gá hvort trixið virkar einu sinni enn. Hingað til þegar ég hef fengið svona grindverksdaga hefur dugað að fara í ræktina, lyfta soldið og teygja svo ærlega, og ekki verra ef er sund með rækilegu potti seinna um daginn. Svoleiðis dagur er einmitt á morgun.

Ef það dugar ekki þá er það annað hvort að hafa samband við sjúkraþjálfarann, eða prófa eitthvað af þeim fimmhundruð hollráðum sem ég frétti af í bumbusundinu um daginn. Þannig var nefnilega að einhvern tíma þurfti ég að svindla og fara í sundhópinn sem er á undan mínum, og þann dag var einmitt stöðvaþjálfun. Sem er einmitt svakalega sniðugt til að kjafta út í eitt á meðan þjálfarinn er að tala við hinar stöðvarnar. Og þá brá svo við að sambumbur mínar fóru að segja frá ýmsu sem þær hefðu prófað, eins og meðgöngunuddi í Lótus Jógasetri, einhverjum snilldar hnykklækni, höfuðbeina- og spjaldhryggs leiðréttara, allskonar nálastungum, heilun, og kvur veit kvað.

Það er allavega nóg af dóti sem maður gæti prófað, nenni maður, tími og hafi tíma. Sem gæti reyndar huxast að yrði ekki mikið fyrr en í desember. Allavega, vonum að soldið góðar teygjur og syndir dugi aðeins lengur.

Á morgun hefst verkefnavikan.

Og núna hefst Law & Order SVU. Sem ég á voða erfitt með að horfa á ef eitthvað ljótt og vont kemur fyrir börn. Á hinn bóginn veit ég er sjaldnast neitt verið að velta sér uppúr persónulegum aðstæðum lögreglufólksins. Sem er mikill plús. (Vegna hins gagnstæða get ég einmitt aldrei horft á þætti eins og Judging Amy.)