29.5.09

Jahám.

Einhvern veginn var ég haldin þeim miskilningi að það yrði eitthvað lítið að gera annað en að spóka sig með fjölskyldunni nú á milli skóla. En öðru er nær. Daginn eftir Færeyjar fór ég og hitti atvinnuleysisfólkið, reddaði einu blaði frá háskólanum og öðru frá Bandalaginu og hitti svo annað atvinnuleysisfólk. (Ég er greinilega alveg að rugla kerfið með því að vera ekki búin að ákveða hvort ég fer í nám í haust. Það veit ekkert hvar það á að setja mig.) Allavega, er búin að panta viðtal hjá Guðnanum um doktorsnámið.

Svo er búið að sýna tvær sýningar, undirrituð sýningastýrði reyndar bara annarri, en svo er lokasýningin í kvöld. Fyrir utan tvær aukasýningar á þriðjudag og miðvikudag.

Rannsóknarskip og Smábátur eru að fara til jarðarfarar á Selfossi, langamma Smábátsins var að fá hvíldina nú í síðustu viku. Vegna sömu jarðarfarar fæ ég kannski að sjá hana Rannveigu mína í kvöld. Hún ætlaði kannski að koma á sýningu hjá okkur.

Og tíminn æðir áfram. Ég er ekki byrjuð að taka til og hægt miðar í árásinni á þvottafjöllin. Ekki hjálpar síðan orkunni að ég er búin að vera í algjöru letikasti og vil helst vera sofandi og/eða borðandi. En nú skal þessi leti og fitnun snúin niður. Hefi ákveðið að Hraðbáturin fær að sofa í vagninum í dag, á fleygiferð um bæinn. Verður það hressandi tveggja tíma ganga.

Best að sérvelja í ípottinn.

28.5.09

Lokadagurinn Ógurlegi

Jæja, þetta gerist aldrei með þessu áframhaldi. Er alltaf að bíða eftir að ég hafi tíma til að gera þessu skil, svo ég geri það bara núna.

Lokadagurinn í færeyska skólanum var með svarfdælsku sniðið. Fimm hraðsoðnar sýningar voru búnar til, eftir fjórum leikþáttum. Listin að lifa og Sigurvegarinn eftir sjálfa mig höfðu verið þýddar á færeysku (Kynstrið að liva og Vinnarinn) og auk þess voru settar á svið tvær senur úr verkinu sem hann Eiðfinnur var að vinna með, Intro og Cafe, sem var leikin tvisvar. Vér höfundar leikstýrðum líka þar sem leikstjórnarnemar voru aðeins þrír. Ég fékk í minn hlut annan Cafe-leikinn. Mikil forréttindi. Eins og einhver sagði, þessi sena er eins og sjortkött í gegnum brúðuheimili. Afskaplega flott atriði. Og leikararnir sem ég fékk voru hreint ekki af verri endanum. Gamalreyndir leikarar úr Sjónaleikarahúsinu. Þarna bjuggum við líka við þann lúxus að vera með leikmyndahönnuði með í ráðum. Ég fékk hann Ragnar, lítinn og feiminn senógraf sem var algjörlega með mér í "less is more"-inu. Útkoman var algjör snilld. Og eftir að hafa þar að auki fengið að horfa á flottar uppfærslur af tveimur verkum eftir sjálfa mig fannst mér ég algjörlega eiga daginn.

Svo var það þegar allir voru að verða farnir, um fimmleytið, að mér bárust þær fregnir að við værum að fara í mat til íslenska sendiherrans í Færeyjum. EFTIR KLUKKUTÍMA! Enginn tími til að slaka á, bara skella sér í skárri leppana og bruna. Þar var tekið vel á móti okkur með kostum og kynjum, heilmiklu víni og fantagóðum mat, og vorum við þar í besta yfirlæti. Um hálfellefuleytið, eftir föroyskan dans og svona, var kvöldinu ekki aldeilis lokið. Neineinei. Færeyski formaðurinn tróð okkur öllum í bílinn sinn og brunaði með okkur í annan í færeysku brúðkaupi. Það fer þannig fram að allir hittast, borða mikið og syngja saman, hátt og mikið. Hellt í mann bjór og snöfsum og svona. Einhvern tíma uppúr miðnætti fórum við nú samt í Fólkaháskúlann okkar, til að eiga smáspjall fyrir svefninn.

Og svo bara, upp ellldsnemma morguninn eftir og þrusað uppá klaka.
Allt í einu er þreytan síðan bara orðin næstum skiljanleg...

24.5.09

Appelsínur og typpateikningar...

Lokakvöldið var með súrrealískara móti. Eftir að setið hafði verið yfir dýrindis purusteik og samsöng á öllum norðurlandamálunum brast allt í einu á með hinum undarlegasta samkvæmisleik. Hver maður fékk tvær appelsínur og leikurinn fól í sér að þeim skyldi kastað upp í loftið og gripnar aftur... og eitthvað svona á færeysku. En eftir að nokkur rauðvínsglös voru umfallin og allt var á leið í rústir fór yngri kynslóðin út með appelsínurnar og þar voru gerð nokkur fyndin atriði. Síðan brast á keppni hvað appelsínum var þrusað af fullum krafti í minnismerkin fyrir utan húsið... skólastýran kom út og fórnaði höndum, sökudólgar týndu upp appelsínur og Jáararnir grenjuðu af hlátri.

Síðan tók við einhver lausbeisluð kvöldvaka sem átti að fara fram í einni skólastofu. Við vorum fá komin þangað, til að byrja með, og appelsínufíflin hófust handa við keppni í að teikna typpi á töfluna. Var hún orðin hið mesta meistaraverk.

Svo var sungið og spelað og meðal annars spilaður mikill söng- samkvæmisleikur sem mér skilst að sé upprunninn úr "Who's line is it, anyway." Fantaskemmtilegt.

Frásögn frá lokadagsvinnunni í dag verður að bíða aðeins betri tíma þar sem við erum víst á leiðinni í veislu til sendiherrans hérna. Svo heim í fyrramálið.