7.3.09

Tíkin – Heimilið – Menningin

Búin að vera að reyna að fylgjast með niðurstöðum prófkjöra, eftir því sem ég nenni. Geri mér enga grein fyrir hvort við erum að sjá breytingar. Veit bara að allir eru að fara á hausinn nema ríkukallarnir. Sem eru það vegna þess að þeir stálu öllum peningunum með reikningskúnstum og eignarhaldsfélögum. Og það er ólöglegt að anda á þá. Smart.

Við hér í míkrókosmós erum annars ekkert að finna fyrir kreppu. Hraðbáturinn kominn með þessa líka fínu eyrnabólgu (þá skrilljónstu í röðinni) og á að fara til háls- nef- og eyrnalæknis að skínandi nýja sýklalyfjakúr loknum. Dagurinn fór annars (fyrir utan skrepp til læknisins eftir morgunjógað) í hin ýmsu heimilisstörf auk þess sem flestir lögðu sig einhverntíma dagsins. Næs, bara. Enda síðasta helgin sem fjölskyldan er öll saman komin í bili. Rannsóknarskip og Smábátur brugðu sér síðan í kvikmyndahús í kvöld og sáu Ístvúdd.

Ég fór hins vegar í Borgarleikhúsið í gær og sá Milljarðamærina. Sem er eitt af uppáhalds leikritunum mínum, þ.e. af þeim sem ég hef lesið, en ég hef aldrei séð það á sviði. Ég var nokkuð ánægð með sýninguna nema hvað mér fannst menn missa sig aðeins í eitthvað artífissjal sjabb á búningum og leikmynd. Ef fólk er fátækt (sérstaklega sé texti sérlega nútímalegur) er alveg eðlilegt að það sé snjáð. Ef það kann ekki að þrífa sig erum við hins vegar komin á einhvers konar hæli. Og ef föt eru bara almennt rifin og tætt erum við komin talsvert aftur í tímann, aftur fyrir tíma nála og spotta. Lúkkið á milljarðamærinni og co. fannst mér flott. Og Sigrún Edda var frábær í sínu hlutverki, eins og reyndar bara allir, fannst mér. (Hlutverk reyndar mjög misbitastæð í þessu verki.) Örlaði reyndar á einhverju Hilmisklámi í hans síðustu útgöngu.

Þetta er skrifað með annað augað á alveg ööööömurlegri mynd. Mæli ekki með The Core.

5.3.09

Endureinkavæða bankana? Til hvers í andsk...?

Ég vil geta treyst því sem bankinn minn segir mér. Ég vil geta treyst honum fyrir peningunum mínum og til þess að veita mér ráðgjöf sem hefur mína hagsmuni í fyrirrúmi. Ég vil ekki að sá sem ég tala við hjá bankanum mínum hafi það að leiðarljósi hvernig hann eða yfirmaður hans geti grætt grilljónir í bónusa eða hvernig eigendur eða stjórnendur bankans geta notað peningana mína í enn eina glæsikerruna undir feita rassgatið á sér.
Ég vil að bankar séu opinberar stofnanir sem starfa í almannaþágu. Ekki spillingarapparöt sem frekjudallar og græðgispúkar geta skafið innanúr þangað til næfurþunn skurnin er ein eftir og hrynur svo í næstu golu á fjármálamarkaði.

Ég á ekki eitt einasta orð yfir því að menn skuli í fúlustu alvöru ætla að fara aftur út í þetta kjaftæði. Ef bankinn minn verður einkavæddur ætla ég með peningana mína annað.

Ég vil eiga ca. 1/320.000 í bankanum mínum.

Þeir sem vilja eiga banka eru of gráðugir til að þeim sé treystandi fyrir annarra manna peningum.

3.3.09

Fjölskyldufréttir

Á þrettán mánaða afmæli Hraðbátsins er rétt að taka örlitla pásu frá pólitíkinni og fjalla um það sem máli skiptir. Áðurnefndur Hraðbátur hefur tekið stórstígum framförum undanfarna daga og er nú farinn að rölta skemmri vegalengdir að eigin frumkvæði. Hann fór að standa og taka eitt og eitt skref um jólaleytið en er nú fyrst farinn að ganga svo heitið geti. Hann er hins vegar mesti klifruköttur og prílar upp á allt sem hann mögulega kemst. Og það er orðið ansi hættulega margt. Á meðfylgjandi mynd er hann við eina af sínum eftirlætisiðjum, að tæma pottaskápinn fyrir þakkláta móður sína.
Freigátan er líka hin brattasta. Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur á dagvistunarstofnun hennar á dögunum og á meðfylgjandi mynd er hún í gervi Snabba úr múmínálfunum, ef það skyldi vefjast fyrir einhverjum.
Hún hefur mikið dálæti á sögninni að elska þessa dagana og tilkynnti mér í morgun að hún elskaði mömmu og pabba. En ekki bræður sína, var tekið sérstaklega fram. Nokkuð sem á líklega bara eftir að versna.

Smábátur tekur þátt í upplestrarkeppni 7. bekkinga í Vesturbæjarskóla þennan morguninn, reyndar stoppaður af kvefi. Rannsóknarskip fór að horfa á, enda er hann handónýtur til heimabrúks. Er með eitthvað ógurlegt hálsrígstengt skessuskot og hreyfir sig ekki án harmkvæla. Hvað þá að hann týni barnklumpinn upp úr gólfinu ef á þarf að halda. (Á pantað hjá lækni seinnipartinn.) En svo skemmtilega vill til að Móðurskip liggur kylliflöt í einhverri flensu og kemst hvorki lönd né strönd í vinnuna eða neitt. Er þess vegna bara að drattast á eftir stuttfót um húsið og reyna að bjarga honum úr lífshættu á ca. 5 mínútna fresti. En reyndar kemur fyrir að hann stoppar aðeins. Það kemur meira að segja fyrir að hægt er að gabba hann til að horfa aðeins á sjónvarpið. Meira en hægt var að segja um systur hans á sama aldri. Hún er ekki stoppuð ennþá.
Á afmælisveisludaginn voru gerðar nokkrar heiðarlegar tilraunir til að taka myndir af systkinunum öllum saman. Það er ekkert áhlaupaverk. Það er alltaf að minnsta kosti einn asnalegur á svipinn og oftar en ekki allir með rauð augu. En þetta er líklega sú skást heppnaða.

Sem sagt, allir meira og minna lasnir og illa sofnir (venju fremur þar sem Hraðbátur fékk jaxl númer 2 í nótt og Rannsóknarskip var allur á bröltinu að drepast í öxlinni), allt er í alveg endalausu drasli og ég er ekki einu sinni neitt hugsuð um að byrja á helv... lokaritgerðinni.
Er einhver til í að hringja á vælubíl?