2.7.09

Uppvakningavæðing?

Stundum langar mig að segja eins og forsetinn: "You aint seen nothing yet." Til dæmis þegar menn hamast yfir Icesave-samningum, smávægilegum skattahækkunum, bensínverði, niðurskurði og öðrum tittlíngaskít.

You Aint Seen Nothing Yet.

Eitt af því sem afleiðingar hins reikningsbrenglaða góðæris hafa kennt mér, er að treysta því sem ég man af undirstöðum stærðfræði. Skuldir hverfa ekki og peningar verða ekki gripnir úr lausu lofti. Allir peningar koma einhversstaðar frá og það kemur að skuldadögum. Þannig erða bara. Plús er plús og mínus er mínus.

Ef eitthvað gott kemur fyrir góðan mann, þá er það gott.

Og svo horfir maður á tölurnar sem "gamlir" bankar, "gömul" fyrirtæki og "gamla" ríkið skuldar.

En hvernig á það að ganga upp að skipta bara um kennitölur á bönkunum, Pennanum, og hinu og þessu, og halda svo bara áfram eins og ekkert hafi í skorist? Og hvar er réttlætið í því að ríkið bjargi risunum á meðan litlu fyrirtækin fá að rúlla og eigendurnir með?
Mér finnst stærðfræðin á bak við það afar langsótt.

Ef eitthvað vont kemur fyrir góðan mann, þá er það vont.

Og hruninu er reddað með lántökum sem aldrei fyrr. Frá útlöndum!
Þeir sem vitið hafa tala um að krónan "verði" að hækka... Ég horfi og horfi. Krónan er enn með kút og kork og ég sé ekki hví í veröldinni þessi gjaldmiðill ætti að verða eftirsóttur. Verandi undirstaða eins svakalegasta píramídasvindls sögunnar.

Ef eitthvað gott kemur fyrir vondan mann, þá er það vont.

Ég hef ekki enn séð vöruskort. Ekki einu sinni á fáránlegustu lúxusvöru. En fólk verður geðveikt ef það á allt í einu ekki húsin sem það átti aldrei. Rétt eins og börnin hefðu verið tekin upp í skuld, bara. Og það að menn kvarti yfir hækkunum á áfengis og tóbaksverði segir mér að menn hafi ekki verið að reyna að reikna dæmið.

Sennilega er verið að hlífa okkur fyrir þeim bitra sannleika að við eigum ekki bætur fyrir borurnar og munum ekki eiga um langa hríð. Sennilega einhverja áratugi. En með því að láta það koma í ljós svona smám saman eru vissulega minni líkur á því að menn snúi sér beint að sökudólgunum (þessum 30 sem allir vita hverjir eru, en ekki má nefna).

Ætli sé ekki aðallega verið að passa rassana á Davíð og Jóni Ásgeiri?
Er það nú ekki óþarfi?
Megum við ekki bara vita hvernig málin standa og gera þau upp við þá sem ábyrgðina bera?

Ef eitthvað vont kemur fyrir vondan mann... þá er það gott.

30.6.09

Sumarplön

Já, greinin um Vinnumálastofnun er í vinnslu. Jafnvel farvegi. Fer eitthvert í vikunni.

Annars standa mál heimilisins þannig að nú er verið að ganga frá hinum og þessum smáatriðum í vikunni og á föstudag reiknum við með að bruna norður í land. Austur væntanlega á laugardag eða sunnudag. Þar ætlum við að dvelja í góðu yfirlæti, sótt hefur verið um að fá leigða efri hæðina á Lagarási 12 til íbúðrar. Sú íbúð er stór og rúmar auðveldlega ríjúlíon auk þess sem hún er við Kjaftamyllustrætið, sem er nauðsynlegur kostur. Svo er hún líka á efri hæðinni þar sem amma mín bjó. Ég vona að við fáum að vera þar.

Allavega, þann 17. júlí fáum við Kennarasambandsíbúð á Akureyri og höfum í viku. Skilum henni föstudag 24. júlí og þá er hugmyndin að skreppa aftur austur, vera þar um Bræðsluhelgina, en þá verður líka "systkinabarnamót" í minni móðurfjölskyldu einhversstaðar eystra. Svo ætlum við að dóla okkur suðurleiðina heimleiðis í rólegheitunum í vikunni fyrir Verslunarmannahelgi. Koma víða við og tjalda úti um allt. (Ef veður leyfir.)

Svona er stóra planið. Megrunarplön eru eftirfarandi:
- Missa sig ekki í nein endalaus kaffi og meððí hjá mömmu né tengdó heldur éta nákvæmlega þrjár máltíðir á dag og ekkert þess á milli eða á kvöldin. EKKERT!
- Hlaupa á hverjum degi á íþróttavellinum á Egilsstöðum. ALLTAF!
- Láta Elísabetur mágkonu kenna mér að hlaupa í Kjarnaskógi, þar sem ég veit ekki um hann og kann það ekki, fyrir norðan.
- Fara oft í sund úti um allt og synda mikið.

Svo verður gítar með í för. Hann er einmitt ný-umstrengjaður, og ég ætla að spila mikiðmikið á hann og kenna sjálfri mér mörg ný lög. Ég fann meiraðsegja gítarnögl um daginn, á förnum vegi. Svona þunna og heilmikið notaða. Greinilega tákn.

Eitthvað ætla ég líka að vinna fyrir Bandalagið í fríinu, vinna í doktorsnámsumsókninni minni og halda áfram að skrifa Heljarslóðarorrustuna. Já, og fjölskylda eins og vindurinn. Vitaskuld.

Þá er búið að birta planið opinberlega og þá er ekki hægt að klikka á megruninni. Sniðugt?