26.3.10

Að bresta á með fermingu!

Þá er þetta allt að hafast. Þessi gaur, sem var svona ponsulítill bara í fyrradag, er að fara að fermast.

Í gærkvöldi straujaði ég dúka í klukkutíma. Það var nú leiðinlegt. Gerði ennfremur einhverjar tilraunir til útlitsuppflikkana á sjálfri mér, endað með því að ég brenndi næstum af mér lappirnar í full-ofstopamikilli háreyðingartilraun. Spennandi kvöld.

Dúkar verða sóttir eftir hádegi, salnum verður stillt upp, dúkað og dekkað upp í nokkuð beinu framhaldi af því. Feðgar sendir á æfingu í kirkjunni. (Yngri systkini eru ekki enn í kirkjum hæf og fá ekki að vera með.)

Á morgun verður myndað, keypt inn, væntanlega bakað (ég er reyndar svo lánsöm að það gerist alfarið á öðrum heimilum,) og blómaskreytingar sóttar.

Á sunnudag verður síðan fermt, með bravör og glæsibrag og allir éta eins og þér géta.

Á mánudag verður síðan feginn dagur. Dúkum og blómaskreytingapottum skilað. Litlu á leikskólann, ég í vinnuna, stóru feðgar heima að jafna sig. (Og leika sér að fermingargjöfum, vænti ég.)

Á þriðjudag verður síðan brunað norður og verður norðurforeldrum Smábáts þar með falið framkvæmdavald yfir inngöngum vorum og útöngum þar sem risaveisla í tilefni áðurnefndrar fermingar skal haldin að Hrafnagili laugardaginn 3. apríl. Mikið verður um dýrðir, hist og spjallað.

Á norðlensku páskunum hef ég líka mína foreldra til fulltingis og fá þau að passa óhóflega. Aldrei að vita nema við hjónin fáum jafnvel að gera okkur glaðan dag og fara út úr húsi, að kvöldi dags, bæði samtímis!

Hmmm. Best að gá hvað LA ætlar að bedrífa um páskana...

---

Viðbót: Jú, við hjónin eigum stefnumót á Akureyrinni og ætlum út að borða og í leikhús á skírdag. Eyddum annars seinnipartinum í að undirbúa salinn þar sem veislan á að vera. Og næst þegar ég fermi, árið 2020, ætla ég ekki að eiga 2 - 4 ára börn.

Það er bara of mikið vesen.

24.3.10

Vegir skötuselsins eru órannsakanlegir...

Á dauða mínum átti ég von frekar en að SA og LÍÚ færu að færa Samfylkingunni vinsældir á silfurfati.

Jóhanna er aldrei kúlli en þegar hún rífur kjaft við freka kalla.

Nú tekur fylgi ríkisstjórnarinnar líklegast uppsveiflu.

Takk fyrir það, frekjudallar.

21.3.10

Undur?

Freigátan, fjögurra ára, syngur mjög oft lög sem hún semur jafnóðum uppúr sér. Alltaf nokkur á dag. Minnst. Þau eru afar poppkennd og í þeim eru gjarnan langir úúúú kaflar. Svo fjalla þau mest um dauðann. Í dag fór ég með hana til læknis og svo í apótekið og hún söng fyrir mig allan tímann. Ég pantaði lag sem enginn dó í. Þá söng hún aftur sama lagið og hún hafði áður sungið, nema bætti "ekki" við eftir hvert dauðsfall. Svo söng hún fyrir mig lag sem fjallaði um vondu konuna sem át allan grautinn frá björnunum þremur og þeir fengu ekkert að borða og voru svangir.

Hraðbátur stendur betur undir nafngiftinni en nokkurn hefði getað grunað, þegar hann fékk hana. (Sérstaklega er það erfitt að ímynda sér fyrir þá sem þekkja föður hans. ;) En þannig er mál með vexti að um daginn villtist enn ein stafabókin inn á heimilið. Drengur tók gríðarlegu ástfóstri við hana og þekkir nú eina 10 stafi. Nefnir þá hvar sem hann sér þá og spyr endalaust hvað allir stafir sem hann sér, heita. Hann er nýorðinn tveggja ára.

Smábátur stendur hreint ekki neitt undir nafni lengur og er orðinn stærri en ég. Það þarf ekki lengur að reka hann í bað, frekar að passa að hann leysist ekki upp í því. Aukinheldur sem hann eyðir talsvert meiri tími fyrir framan spegilinn á morgnana heldur en ég.

Þessi börn eru öll að þróast með undarlegasta móti.

Við erum öll óstjórnlega fegin því að ætla að ferma undireins eftir viku. Gaman verður nú þegar það verður búið. Litla suðurveislan sem haldin verður að viku liðinni er að verða þaulskipulögð. Eftir einungis tvær vikur ætla ég nú aldeilis að setja tærnar uppí loft.

Þangað til verð ég líklegast hálfgeðbiluð af kvíðaröskun.