11.2.05

Heyrt á skrifstofunni minni:

Þeir skvetta úr skaufunum sem eiga þá

Held þetta sé góð setning til að fara með inn í helgina.
Ég er þoli ekki karlmenn í sminkdeildinni í vinnunni minni. Þeir eru verða svo gjörsamlega eins og týndir litlir hvolpar sem ekki vita sitt rjúkandi ráð. Undantekningar á þessu eru þó tvenns konar menn:

a) Fyrrverandi starfsmenn (og reyndar stöku leikhúshundur)
b) Dragdrottningar

Þeir eru eins og heima hjá sér í sminkdeildinni og vita ævinlega hvað þá vantar.
Lítill og týndur strákur frá menntaskólaleikfélagi villtist hingað inn áður en ég var búin að fá kaffi eða sígó í morgun. Grrrr.

Í betri fréttum, Norður-Kóreumenn eru búnir að smíða sér kjarnorkusprengjur. Það finnst mér nú gott hjá þeim, enda eina leiðin til að halda kananum fjarri. Er búin að komast að því að ég held með öllum sem Bush segir vera á "Öxli hins Illa".

Í fréttunum í gærkvöldi heyrði ég líka notuð mörg nojuð lýsingarorð. Norður-Kóreumenn eru "óútreiknanlegir" og það eru "skelfileg tíðindi" að þeir skulu eiga kjarnorkuvopn. Ojæja. Ég held nú alveg vatni. Þjóðin sem mér þykir hvað óútreiknanlegust þessa dagana og hættir aldrei að koma mér á óvart með himinhrópandi heimsku og fávisku (svo sem eins og með síðustu forsetakosningum þar á bæ) á flestar kjarnorkusprengjur í heimi og þarf einhverra hluta vegna ekki að spyrja neinn leyfis. Er aukinhelduri eina þjóðin sem hefur notað þau!

Nú gætu menn kannski sopið hveljur og sagt
"...já en Norður-Kóreumenn stunda svo gasalega mikið af mannréttindabrotum!"
Jiii, vegna þess að Kjarnorkuveldið Góða gerir það ekki? Þar heitir það bara annað. Eða eru það ekki mannréttindi að eiga rétt á sæmilegri heilbrigðisþjónustu og menntun þó maður fæðist ekki með silfurskeið í hægra munnvikinu? Eða að vera ekki skotinn eða stunginn í gengjabardaga ef maður er svo óheppinn að vera staddur einhvers staðar röngu megin við járnbrautarteinana? Eða þurfa ekki að giftast 48 ára frænda sínum þegar maður er 14 ára, sé maður óvart fæddur í einhverju "cult" samfélagi í miðríkjunum?

Svo ég skrifi það einu sinni enn. Það eru fleiri en ein leið til að níðast á þegnum sínum. Ein þeirra er afskiptaleysi og óstjórn.

Ég held að "Öxulveldi hins illa" ættu að drífa sig að kjarnorkuvæðast, öll sem eitt, og sem allra fyrst. Annars kemur ammríski herinn! Og nema hann komi með ógrynni af nælonsokkum og tyggjói þá er nú ekki mikið gaman að hafa svoleiðis pakk heima hjá sér.

Þetta var kommúnismi daxins.

10.2.05

Hef lokið uppsetningarferli á allskonar nýjum forritum sem nú eru algjörlega fúnkerandi í nýju tölvunni minni. Þetta tengist skemmtilegri auka-innivinnu sem ég var að fá, við að texta DVD myndir. Hljómar snöggtum meira spennandi en prófarkalestur á DV, ekki satt? Á eftir að fara í gegnum eitthvað þjálfunarferli og svo fæ ég verkefni, með tíð og tíma, sem ég get unnið á mínu eigins heimili eða hvar svo sem mér stendur hugur til. Draumastarf hvers letihaux.

Annars er ég búin að vera að krúsa fréttavefi og allskyns hreinlega til að leita að einhverju til að tjá mig um. Og búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég nenni því ekki í þessari viku. Finn ekki fyrir samfélagslegri óþægð af neinu tagi og er almennt sama um allt nema eigin rass sem líður einkar vel í þægindum tilverunnar.

Og Halldór Ásgrímsson með eitthvað sem var slegið upp sem tímamótaviðtal þess efnis að Ísland væri á listanum góða vegna þess að við höfum ekki efni á að styggja kanann hið minnsta. Réttupphend sem er hissa...

9.2.05

Vantar:
Fleiri hendur
Meiri tíma
Betri heilsu
Internet allsstaðar (aðallega heima hjá mér)
Nýja framrúðu í bílinn
Meira vit á öllu, sérstaklega tölvunni minni, til þess að ég geti gert allt sem nýja vinnan mín vill að ég geri við hana.

Var með magapínu á bollu- og sprengidag. Borðaði ekki eina einustu bollu eða saltkjöt eða baun. Mikið svekkj. Er ennþá sloj, og samt að reyna að gera fullt af einhverju með magapínu í hausnum.

Allt í volli.

7.2.05

Er ennþá þunn.
Fór á þorrablót brottfluttra Héraðsbúa, Vopnfirðinga og Borgfirðinga um helgina. Var það skemmtan hin bezta. Hitti þar marga brottflutta hverra tilvist ég var langt komin með að gleyma. Og endurnýjaði kynni mín við Kaptein nokkurn Morgan, sem hefur lengi verið brottfluttur úr mínu lífi. Og þaðan kemur mér þessi tveggjadaga þynnka. Vel þess virði.

Annars er tíðindalítið. Leikritið æfist og æfist. Égsjálf vinn og vinn, aðstoðarleikstýri og aðstoðarleikstýri og horfi og horfi á sjónvarpið þess á milli. Og tala og tala við Rannsóknarskipið í símanum þangað til sýður á línunum.

Allt við það sama, bara.

Og fyrir alla sem ekki eru vaknaðir: Flengibolla!