23.4.10

N1 og Byr?

Jæja. Hrun 2.

Endar kannski bara með því að svíðingar og fjárglæframenn eiga bara engin fyrirtæki eftir?

Það væri nú ekki amalegt...

21.4.10

Komin með þetta! Byltinging lifi!

Alþingi er óstarfhæft, eins og það er skipað.
Eftir niðurstöður Rannsóknarskýrslu Alþingis þurfa allir að víkja sem:

1. Eru skuldugir við bankana og/eða samfélagið upp á meira en ca. 50 milljónir, í gegnum sjálfa sig, fyrirtæki sína, maka eða nánustu fjölskyldu. Fólki sem er í svo miklum persónulegum fjárhagsvanda er ekki treystandi til að taka hag almennings fram yfir eigin (eða fjölskyldu sinnar) í mikilvægum ákvörðunum sem löggjafarvaldið stendur nú frammi fyrir.

2. Sitja á Alþingi eftir að hafa þegið háa styrki frá stórfyrirtækjum í kosningabaráttu sína. Það að menn sitji á Alþingi sem fulltrúar almennings en ekki stórfyrirtækja verður að vera hafið yfir allan vafa.

3. Hafa setið í ríkisstjórnum undanfarinna 10 ára, eða svo, og/eða komu að einkavæðingu bankanna. Sama í hvaða flokki þeir voru þá, eru nú, eða ætla að vera í framtíðinni.

4. Eiga hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu. M.ö.o., Alþingi verður að vera skipað venjulegum launaþrælum EINGÖNGU þegar fyrir liggur það verkefni að koma aftur eðlilegu regluverki á viðskiptalífið. Annars eru menn báðumegin borðsins. Fjárfestar, stjórnarmenn stórfyrirtækja, silfurskeiðalið, burt!

Og þetta er ekkert "tímabundið" og ef varamenn eru undir sömu sök seldir þarf að mjakast niður listana þangað til einhver sæmilega laus við tengsl við hin meira og minna gjaldþrota svikamillur finnst. (Þarf reyndar að fara fáránlega langt niður hjá sumum flokkum.)

Þessi viðmið þurfa að fara í lög, og í framhaldinu þarf að kjósa aftur til Alþingis, og stjórnlagaþings.

En þetta gerist ekki án átaka. Vissulega sjást bálin ekki jafnvel í íslenska sumrinu, en það þarf að fara að trufla störf Alþingis.

Þetta gengur ekkert svona.

1. maí framundan!

Byltingin lifi!

20.4.10

Horfur á flugi...

Nú lítur úr fyrir að Rannsóknarskip fari ekki til Danaveldis í dag. Nema þá að hann sigli.
Að öðru leyti er ég svolítið að fíla þetta.

Í staðinn fyrir að áætlanir séu ferkantaðar og ófrávíkjanlegar og naglfastar, hangi á ofurskipulagningu og hámörkun gróða, í fjárhagslegu sem tímasparnaðarlegu samhengi, er þetta meira svona... já, það eru nokkuð góðar horfur á flugi ... kannski, bara.

Fullt af fólki er annarsstaðar en það ætti að vera. Það skiptir mismiklu máli. En mér finnst það skjóta mjög skökku við í umræðunni þegar menn vilja fljúga, þó svo að flugvélarnar hrapi kannski, vegna þess að þeir séu að tapa svo miklum peningum á að gera það ekki.

Alveg, peningana eða lífin? Allt í lagi að taka sénsinn. Til að tapa ekki peningum.

Fær mig til að hugsa um verkaskiptinguna og framþróunina og hvort við höfum endilega gengið til góðs. Var endilega góð hugmynd að taka mannlífið, njörfa það niður í exelskjöl svo hægt væri að maximæsa proffits fyrir örfáa einstaklinga? Er endilega best að við séum eins og maurar í maurabúi, lifum í klessu á milli klukkunnar og bankareikningsins? Að sumir þurfi að vinna allt of mikið og hafi vart mannréttindi á vinnutíma á meðan fullt af fólki hefur ekkert að gera?
Er þetta virkilega besta sístemið?

Og var ekki tilgangurinn með uppáfindingu verkaskiptingar í mannlegu samfélagi að allir gætu haft það ögn þægilegra? Hvílt sig til skiptis? Var hann sá að örfáir ættu að fá að eiga alheiminn, rorrandi í spikinu og ofneyslu í hvívetna á meðan almúginn þjáðist ýmist af of eða van vinnu, vita bjargráðalaus og alltaf hálfpartinn á horreiminni?

Hvernig væri að þetta væri bara: ... nei, sorrí, flugmaðurinn er sloj og sá sem hefði getað leyst hann af ætlar frekar að heimsækja ömmu sína í dag.
Er ykkur ekki sama þó þið farið bara á morgun?

Stundum langar mig að flytja til kaótískari heimshluta.

19.4.10

Skýrslan og svona...

Skýrslan kom í hús hjá mér í dag. Ég er eitthvað ekki að nenna að byrja á henni. Mér heyrist nefnilega hinir nýendureinkavæddu bankar standa á jafnvel lélegri brauðfótum en þeir gömlu, auk þess sem raddir heyrast um yfirvofandi gjaldþrot Íbúðalánasjóðs, Sparisjóðanna, Lífeyrissjóðanna ... og bara þess sem eftir er? Enda eru þetta mest sömu asnarnir sem eru enn að reka þetta. Og þeir ætla sér ekkert annað en fyrir tveimur árum; nefnilega hirða allt fémætt innanúr og skilja skurnina eftir, þangað til hún hrynur. Á eftir hinu.

Jæjajæja. Þá verður kannski hægt að gera aðra byltingu. Og stofna Zeitgeist-þjóðfélagið. Enda ekki um annað að ræða en að segja formlega skilið við peningakerfið á því stigi málsins.
Og það verður nú fínt.

Eiginmaðurinn sveiflast á milli vonar og ótta. Átti að vera að fara á ráðstefnu í Danmörku á morgun en flugið er allt í öskunni. Sjáum til. Verstur fjandinn að ef hann kemst ekki þá verð ég illa bitin í samviskunni í þau þrjú skipti sem ég hugsa mér að vera í burtu í sumar!

Úr góðufréttahorninu er það helst að frétta að Hraðbátur hefur formlega fengið inni á leikskólanum hinumegin við götuna og fær að byrja þar um miðjan maí. Ekki nóg með að þá getum við sparað okkur akstur í vinnuna, heldur lækkar dagvistunarkostnaður heimilisins um einhvern tuttuguþúsund kall á mánuði.
Og munar um minna á þessu heimili einna grunnskólakennaralauna.

Annars er ferlega margt að klárast, bara. Kennsla búin í Háskólanum. Voða mikil heimsendatilfinning í loftinu.

Kannski bara askan og eldurinn.