17.7.03

Mjög alvarleg leti í gangi. Nenni alls ekki að leggja hönd á plóg, sem er nákvæmilega það sem ég ætti að vera að gera, forverja hundrað ára gamlan plóg niðri á verkstæði.
Fór allt í einu að huxa um verslunarmannahelgina, vegna einhvers útihátíðaáreitis í útvarpi. Langar að gera eitthvað... held ég... Einhverjar hugmyndir?
Álfaborgarsjens á Borgarfirði Eystri er heitur.

16.7.03

Brjáluð blíða!
Systur mínar elskulegar mættar á svæðið. Er hins vegar sjálf flutt að heiman, er að gæta húss og hunds útí bæ í hálfan mánuð. (Það er hópur af ca. 2 ára börnum á safninu. Þau eru eins og kindur! Náði einum á hraðri leið út á götu.)
L.ung.a. (Listahátíð ungs fólks á Austurlandi) um helgina. Okkur Báru langar á stompnámskeið, en ég er trúlega of gömul til að mega fara :-( (Efast um að ég geti logið mig niður fyrir 25... einhverra hluta vegna.)
Verð í fríi um helgina, enda á að vera komin rigning. Vei.
Harry Potter 5 er mættur á svæðið, en Bára er ennþá að lesa hann. Þetta er allt að koma.

13.7.03

Gott partý á Lagarfljótsorminum í gær.
Reyndist vera 10 ára afmælishátíð hins fornfræga tríós "Austurlands að Glettingi". Þetta var mikil snilld. Partý sem enginn gat farið úr! Þetta gaf mér hugmynd að, annars vegar þrítugsafmælinu mínu og hins vegar afmælisleikriti fyrir fertugsafmæli Leikfélax Fljótsdalshéraðs. (Vinnuheiti: Ferð án fyrirheits.) Mér fannst mikil upplifun að djamma á fljótinu. Frábært að þetta skuli vera hægt!
Ísland! Best í heimi!
Svo hitti ég FULLT af fólki sem ég hef ekki séð lengi. M.a. Öndru, skólasystur mína úr menntaskóla, en hún er búin með nám í þróun tungumálatengdrar gerfigreindar og búin að fara í spænskunám til Guatemala, svo eitthvað sé nefnt.
Það er margt skrítið í kýrhausnum.