11.2.06

Í dag

er Freigátan tveggja vikna. Mér finnst ég alltaf hafa átt hana. Og það komu nokkrir gestir. Ég tók á móti þeim í sveittum fötum með ælulykt. Þegar þeir voru farnir fór ég í bað og puntaði mig. Er ekki trúverðug ástæða að ég vilji bara líta vel út fyrir Rannsóknarskipið mitt, hvort sem er?

Annars er verið að skipuleggja heimilishaldið þessa dagana. Við erum bæði farin að þýða aftur, ég er reyndar ekki farin að fá nein verkefni ennþá. Og svo erum við að bræða með okkur að leikstýra í mánaðarlegi Hugleix í mars. Það er nefnilega eiginlega alveg hægt að æfa í stofunni okkar... Við höldum að þetta sé alveg hægt.

Mönnum finnst kannski að við ættum bara að sitja með bleikar stjörnur í augunum og dást að barninu, allan sólarhringinn, fram á vor? En við erum alltaf að því, svona með. Erum að huxa um að láta hana bara leika... Ekki seinna vænna að hefja menningarlegt uppeldi.

10.2.06

Hvernig er að vera orðin mamma?

Finnst mér undarleg spurning. Ég haf nefnilega satt að segja ekki orðið vör við miklar persónuleikabreytingar við það að hafa allt í einu eina Freigátu hangandi í brjóstunum á mér. Enda eignaðist ég eiginlega Smábát í ágúst sl., en varð ekki vör við persónuleikabreytingar þar heldur. Nema kannski að mér vaknaðist einhver áhugi á uppeldis- og skólamálum.

En ég er ekki að upplifa neinar dramatískar sviftingar yfir því að í heiminn skuli vera manneskja sem sennilega mun vísa til mín sem "mömmu" í framtíðinni. Fyrir var ég jú dóttir, systir, vinkona, barnabarn, frænka, heitkona og illa monstrið hún fyrrverandi. Held mig muni nú bara ekkert um einn titil í viðbót.

BTW, Freigátan er orðin hin eftirsóttu 4 kíló þannig að nú förum við að bregða okkur útfyrir, um leið og tími gefst til að föndra saman vagninn.

Og, undanfarið er ég búin að vera að tína upp hamingjuóskir á hinum ýmsu bloggum úti um allt. Þakka hér með fyrir þær allar, á einu bretti þar sem ég hef ekki haft sinnu á að svara þeim í kommentakerfum.

9.2.06

Schnilld!

Fór út á meðal mannkyns í gærkvöldi, á mánaðarlegt hjá Hugleik í Þjóðleikhúskjallaranum. Mjög ánægð með vinnsluna á þætti okkar ömmganna, sem og annað sem á daxkránni var. Náði reyndar ekki að hlusta til enda á prógramm Rip Rap og Garfunkel þar sem móðurhjartað var komið í buxurnar, en vona að tækifærin til þess séu mörrrg framundan. Þessu er ég bara að segja frá til að svekkja fólk, en prógrammið verður ekki endurflutt.

Og eftirfarandi símtalsupphaf átti ég heim í hléi:

Rannsóknarskip: Halló.
Móðurskip: Hæ, hvernig gengur?
Rannsóknarskip: Illa!
Móðurskip: Nú? Á ég að koma heim? Er hún brjáluð?
Rannsóknarskip: Charlton er yfir, 2-0.
Móðurskip: Hmmm. En barnið?
Rannsóknarskip: Henni er alveg sama. Hún er sofandi...

Þannig að ég gat með góðri samvisku verið lengur. Og Liverpool tapaði, 2-0, held ég.

8.2.06

Hmpf...

3 tegundir af pillum, misoft á dag, og bráðum bætist allavega ein tegund við. Muna að drekka vatn, stanslaust, láta sér ekki verða kalt, ekki gera of mikið, ekki of lítið, leggja sig, hreyfa sig, nú og svo öll húsráðin sem auðvitað rekast hvert þvert á annað. En eftir þeim öllum verður mar auðvitað að fara, annars gæti náttlega eitthvað hryllilegt huxanlega gerst. Það eina sem er með sjálfvirku áminningarkerfi er barnið. Það pípir þegar eitthvað þarf að gera við það. Og sé maður stressaður fer mjólkin til helvítis.

Vandlifað.

6.2.06

Skrambans

Þar lágu Danir í því. (Sem þeir gera reyndar soldið, þessa dagana.)
En auðvitað er Freigátan með einföldu. Eins og Hrafnhildur benti á, öfugt við Freyvangsleikhúsið. Leiðréttist snarlega og fari þessi meinlega villa aftur inn einhversstaðar, mun ég skammlaust afsaka mig með heilarýrnun sökum brjóstagjafaþoku.

Og talandi um brjóst. Ég hef alla ævi verið með skoruduld. Heilkenni sem mig minnir að áðurnefnd Hrafnhildur hafi kynnt mér fyrir margt löngu. Þangað til allt í einu núna, að ég er komin með þessa fínu... og finnst ég vera orðin algjör B-O-B-A, eins og kóngurinn sagði. Freigátan sagði reyndar sína skoðun á því snemma í morgun með því að gera sér lítið fyrir og æla beint ofan í hana. Notagildi sem mér hafði ekki hugkvæmst. Gæti kannski komið sér vel ef maður væri ógeðslega fullur einhvers staðar?

Það er svona. Ælan að vera sóði...

5.2.06

Plögg!

Hugleikur verður með Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudaxkvöldið næstkomandi og hefst skemmtanin klukkan 21.00. Meðal efnis verður einþáttungurinn Gegnumtrekkur eftir okkur ömmu mína fyrir Westan. En þar með telst hún til nýrra Hugleixhöfunda og hefur gott af því. Leikstjóri er Þorgeir Tryggvason. Ég ætla sjálf að mæta, ef ég mögulega meikaða, og hlakka mikið til að sjá afraxturinn og ekki síður til að heyra í ofurgrúppunni Ripp Rapp og Garfunkel sem ég hef mikla trú á að sé skemmtileg.

Af heimavígstöðvunum er það helst að frétta að barnið gerði heiðarlega tilraun til að éta mig upp til agna með því að vera á spena í alla nótt. Það virðist hafa borið einhvern árangur, allavega kemst ég allt í einu núna í trúlofunarhringinn minn! Já, mér sýnist brjóstagjöf ætla að grenna mig. Í dag er Freygátan síðan búin að læra að það er hægt að sofa í vöggunni. En hingað til hefur hún notað hana til að vaka í. Og, til þess að halda henni vakandi í dag er ég búin að leggja hana þar við hvert tækifæri, en nú undir kvöld fattaði hún djókið og ákvað að sofa bara þar. Hún er líka búin að fatta svindlið með snuðið og spýtir því nú út úr sér með viðbjóði ef setja á tappann í. Huxa að Freygátan trúi aldrei á jólasveininn.