24.6.05

Að fara

á leiklistarhátíð er góð skemmtun.
Þó sýnu skemmtilegra ef maður þarf ekki að vera að urlast við að halda hana.

Annars held ég að allt gangi vel, nema þegar einhver kvartar yfir einhverju, sem er oft, eins og síðast, en þó er líklegt að þetta verði allt svona líka arfaskemmtilegt í minningunni, eins og síðast.

Held ég hafi selt íbúðina mína í dag, svona í hjáverkum. Og er það vel. Jibbúler.

Mikið ógurlega hlakka ég nú samt til á sunnudaginn að geta kannski sofið heilan svefn og huxað heila huxun. Næst ætla ég á leiklistarhátíð sem einhverjir aðrir halda. Hvað sem það kostar. Samt fegin að ég er ekki að fara til Mónakó. Tilhuxunin um fleiri hátíðir í sumar vekur mér hreinræktaða ógleði.

21.6.05

Aðfara...

Held ég sé alein vöknuð á þessum aðfarardegi leiklistarhátíðar. Allavega gerðust þau undur og stórmerki að síminn minn hringdi alls ekkert í morgun. Endaði með því að ég varð svo stressuð að ég dreif mig í upplýsingamiðstöðina, sem þetta árið státar af nettengingu. Og hér er ekki hræða lífs. Er reyndar ekki búin að athuga með Hafnfirðinga sem eru svo samviskusamir að þeir sofa í leikrýminu sínu á efri hæðinni.

En þetta er nú líklegast bara lognið á undan fárviðrinu. Muni maður rétt.

Svo maður haldi nú áfram að dagbókarfæra bandalaxviðburði, sem mar er á í þetta skipti, að undirbúningur hátíðar höldum við að gangi sæmilega. Annað slagið geri ég vonlausar tilraunir til að muna hvernig ég gerði hvað síðast, en þær eru nú ekki til mikils. Sólin er eitthvað farin að láta sjá sig, en henni var ekki spáð fyrr en á opnunarhátíð á morgun. Menn eru eitthvað farnir að tínast á svæðið, en við eigum von á að flestir komi í dag. Er búin að búa til alls kyns skilti (og plasta þau!) með alls konar upplýsingum, og er að huxa um að gera eitt enn:

BANNAÐ AÐ VERA MEÐ VESEN!

19.6.05

Slit

Lokadagur Skólans fór hið albesta fram, sem endranær, heimsfrumsýndar voru 8 uppsetningar af 5 verkum sem hinir og þessir höfundar, sem voru á staðnum fyrir tilviljun, höfðu snýtt fram í hjáverkum. Verkunum stýrðu 8 flunkunýir leikstjórnarnemar og eru þeir hinir efnilegustu. (Ekki er ég nú kannski alveg hlutlaus þar sem hópurinn inniheldur Rannsóknarskipið og, að sögn, tvíburasystur mína.)

Gleðilæti voru um kvöldið, þjóðhátíðarkór bandalaxins kom mér til að grenja eins og venjulega yfir borðhaldi og svo dönsuðu menn fram á nótt. Skemmti mér hið albesta í nýendurheimtum félaxskap míns rannsóknarskips, sem ég hef ekki hitt vikum saman. Verð nú heldur en ekki fegin í miðjum ágúst þegar samfundir okkar fara að verða reglan en ekki undantekningin. Já, og ég held helst að við Þórunn Gréta þurfum að koma okkur í DNA rannsóknir. Svo vissir eru menn um náskyldleika okkar, hvað sem við segjum. (Árni minn aftekur nú samt að hafa nokkuð ruglað okkur saman, og er það vel ;-)

Skólaslitadagur var allur hinn undarlegasti fyrir þrennra hluta sakir.
a) Ég var ekki þunn.
b) Það var ekki sól.
c) Ég þurfti ekki að keyra til Reykjavíkur heldur rétt steinsnarið til Akureyrar þar sem ég gat sofið í góðu yfirlæti fyrir framan sjónvarpið í allan dag. Þegar á allt er litið eiginlega besti dagur af öllum slíkum hingað til.

Enda eins gott. Á morgun hefst hið fimmárlega taugaáfall. Fundur í undirbúningsnefnd leiklistarhátíðar eftir hádegi og upp frá því reikna ég með óslitinni geðbólgu í rétta viku. Það er nú rétt eins gott að þetta verði gaman. Það hjálpar mér t.d. ekki neitt að hafa gert þetta fyrir 5 árum síðan. Ég man ekkert eftir þeirri hátíð. Ég vil meina að ég hafi verið í blakkáti sökum taugadrullu.