18.10.06

Virkni

Ýmislegt að ske. Minni á tónleik Lúðrasveitar Reykjavíkur í kvöld þar sem meðal annars verður flutt verkið "Spaugelsi" eftir hina norskmenntuðu systur mína, Báru Sigurjónsdóttur.

Ég fór á fund í gær og ætla að leikstýra einhverju jólalegu fyrir jóladaxkrá Hugleix sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun desember. Mér finnst óskaplega gaman að vera farin að undirbúa jólin...

Erum sennilega að fara að skoða íbúð á eftir, þar sem mér virðist ég ætla að fá einu þjónustufrekjunni minni sinnt. Ég vil nefnilega að fasteignasalar sýni mér íbúðir. Ég nenni ómögulega að eiga að standa í því sjálf að hafa samband við eigendur eða leigjendur og heimta að fá að vaða inn á heimili þeirra. Ég vil að fasteignasalar komi allavega tímasetningu á viðburðinn, helst komi sjálfir og sýni þegar eigandinn er ekki heima. Þetta fannst mér líka langbesta tilhögunin þegar ég var sjálf seljandi. Fasteignasalar eiga að vera með allar upplýsingar, hafa góða þjálfun í þessu, og svo erum við líka að borga þeim alveg hreint morðfjár, gangi salan í gegn.

Mér er meinilla við að hringja á fasteignasölu út af íbúð og fá bara símanúmer hjá einhverjum "Guðmundi" úti í bæ. Hvað ef "Guðmundur" er einn af þeim sem virkar alltaf fúll í síma? Hvað ef hann er akkúrat að kúka þegar ég hringi í hann? Nei, þetta finnst mér að fasteignasalinn eigi að gera fyrir mig.

Og nú hringdi ég á fasteignasölu í morgun, konan tók niður nafnið mitt og númerið og hvenær mér myndi henta að skoða, og sagðist síðan ætla að hafa samband við mig. Ég er þegar orðin hrifin af viðkomandi fasteignasölu. (Um leið og ég lagði á mundi ég reyndar að ég hafði gleymt símanum mínum heim... en það er nú önnur saga.)

Þessa dagana er ég að reyna að glíma við þann hluta þunglyndisins sem segir manni að maður sé ómögulegur. Sem og allt sem maður gerir og er. Allt neikvætt um sjálfan mann er tekið mjööög alvarlega á meðan maður álítur hrós vera annað hvort óekta eða tilkomið af fáfræði viðkomandi. Ég huxa að þetta sé það skaðlegasta af kvillanum. Að finnast maður alltaf vera að gera allt illa. Þó maður sé kannski að gera fullt af hlutum hrrrroðalega vel, þá getur maður huxað til þess að maður gleymdi nú reyndar að taka úr þvottavélinni í morgun... og þar með er maður orðinn mislukkaðasti einstaklingur heims. Hreint ekki neitt rökrétt við þessa röksemdafærslu. Meiri geðveikin.

Í dag langar mig að prjóna eitthvað.

17.10.06

Braskið

Gerðum tilboð í íbúð í gær, en gömlu og gráðugu hjónin sem áttu hana vildu víst fá meiri péning. Issss.
Annars finnst mér ekkert verra að hafa afsökun til að stunda fasteignaklámið aðeins lengur. Það er samt ýmislegt fyndið við hann. Eins og til dæmis allar hálflygarnar sem menn setja á fasteignavefinn.

Því er til dæmis gjarnan haldið vandlega leyndu ef íbúðin er í kjallara eða á jarðhæð. Sem er svolítið erfitt þegar maður er einmitt að leita að. Svo er það einhver undarleg árátta að setja bílastæði í bílastæðahúsi inn í fermetrafjölda íbúðar. Sem er auðvitað bara kjánalegt. Við getum ekki neitt búið í 65 fermetrum, þó bílastæðið sé 30 fermetrar. Ættum við kannski að hafa hjónaherbergið á bílastæðinu? Eða kannski bara stofuna? Hmmm.... efni í einþáttung? Kannski meira svona Spauxtofuskets.

Í gær var brjálað rok og kalt og ég var sjóbarin þegar ég kom hjólandi heim. Í dag þorði ég ekki að hjóla í vinnuna af því að það var hálka. Af því tilefni labbaði ég og gekk því niður Laugaveginn eftir hádegi. Það var nú aldeilis hættulegt. Það eru komnar geðveikt margar nýjar búðir. Og þegar maður er ekki einu sinni með barnavagn til að halda sér í þá getur maður sko alveg eytt útborgun í íbúð í vesturbænum á einni ferð. (Ég gerði það ekki, samt.)

Tókum okkur pásu í dag frá íbúðaskoðunum til að komast yfir höfnunartilfinninguna. Tékkum kannski á einhverju á morgun.

16.10.06

Það er svo margt...

Búin að eiga aðgerðaríkan morgun. Við erum að fara að skoða íbúð í dag sem við ágirnumst nokkuð. Skoðuðum eina um helgina sem við héldum að við ágirntumst, þangað til við skoðuðum hana. Sjáum til hvað kemur í ljós.

Er líka búin að tala við leikstjórann minn fyrir austan. Er að fara að höfundavinna þar í leikritinu, sem mér heyrist eiga að heita sínu upprunalega nafni, Listin að lifa. (Sem er það sama og tímarit eldri borgara heitir, tjáði amma mín mér í gær.) En, semsagt, er að fara austur á föstudag og verð við strangar æfingar þar fram á sunnudag. Tek Freigátuna með mér, svo amma-Freigáta getur farið að hlakka til.

Svo er viðtal við okkur Varríus í sunnudaxmogganum. Þar er einn fyndinn og rangur misskilningur. Þeir sem geta spottað hann fá grundvallar-krasj-gráðu í Hugleiksfræði.

Svo er systir mín tónskáldið komin til mín og ætlar að vera alla vikuna. Hún er að huxa um að reyna að týna saman húsbúnaðinn sem hún á hjá mér, auk þess að tónskálda úti um allan bæ. Það er verið að fara að spila eitthvað eftir hana á tónleikum í Neskirkju á miðvikudagskvöldið klukkan hálfátta.

Og svo birtist víst eitthvað eftir systurina blaðamanninn í fréttablaðinu á hverjum degi... Það er sumsé alltaf eitthvað "eftir" okkur allsstaðar. Ætli pabbi sé ekki hættur að reyna að safna í fjölmiðlaumfjöllunarmöppu afkomendanna?

15.10.06

Dobbúl fítjör

Ég er alveg hrroðalega léleg við að horfa á bíómyndir. Sem er náttlega til skammar þar sem ég er gift kvikmyndanörra og heimilið er nánast veggfóðrað í myndum á vídjó og DVD-formi. Þess vegna kom ég sjálfri mér og alheiminum mikið á óvart þegar ég horfði alveg á næstum tvær myndir í gærkvöldi.

Sú fyrri var Bride and Prejudice. Þurftum reyndar að geyma síðasta hálftímann af henni til seinni tíma þar sem börnin þurftu að komast í rúmið einhverntíma. Þetta var fyndin mynd. Bollywood lítur út fyrir að vera skrítinn staður. Þetta minnti talsvert á mörg Hugleixverk. Nema ég er ekki alveg viss um að þessi hafi verið að grínast.

Þegar barnarotanir höfðu verið framdar horfðum við á Stepford Wifes. Þvílík snilld. Og þvílíkur fábjáni sem datt í hug að það væri sniðugt að endurgera hana. Sé alls ekki þörfina á því.

En ég varð fyrir svo miklum áhrifum að ég bakaði í dag.

12.10.06

Þunn-Glindi

Eins öfugsnúið og það nú er, þá held ég að ástæðan fyrir því að þunglyndissjúklingar ættu ekki að neyta áfengis, og að þeim finnst óstjórnlega gott og gaman að neyta áfengis, sé ein og hin sama. Systir mín blaðamaðurinn, sem einnig er sálfræðingur, útskýrði þetta fyrir mér í einni setningu einhverntíma. Það er vegna þess að þá hreinsar maður upp allar birgðirnar.

Serótónínbúskapur hefur kannski verið í einhverju hakki. Þá er óstjórnlega gaman, svona rétt á meðan maður er að kjamsa á birgðunum af því. Því minna skemmtilegt eftir á. Næstu daga eftir fylleríið er maður nefnilega að vinna sig upp úr engu.

Einkenni næstu daga geta farið frá einhverri lítilli nagandi tilfinningu um að eitthvað sé að, upp í að vera hamslaust og stanslaust dramakast yfir öllum heiminum. Og ef maður er þegar á hægri leið niðurávið, getur þetta sett mann í smá rennibraut.

Mínum fylliríum hefur fækkað með árunum. Meðal annars vegna þessarar andlegu þynnku sem ég nenni ekki. Á tímabili reyndi ég að undirbúa þynnkur svakalega vel. Hafði íbúðina mína algjörlega fullkomlega fína, engan reikning óborgaðan eða mál í heiminum óleyst, reyndi að eiga fullan ísskáp af þynnkumat, var jafnvel búin að ákveða fyrirfram í hvaða inniföt ég ætlaði að fara þegar ég kæmi úr baðinu (sem líka var búið að þaulskipuleggja) og setja viðeigandi efni í vídjóið/DVD-spilarann.

Það virkaði aldrei. Þessi mislitla nagandi rödd er nefnilega ekki til staðar út af neinu sérstöku. Það þarf hreinlega ekkert að vera að í heiminum til að maður lendi alveg niður í kjallara.

Það sem mér hefur þótt virka skár er að fara í lanngan göngutúr, eða gera jafnvel eitthvað ennþá erfiðara. Vera úti og gera eitthvað erfitt virðist kannski kikkstarta einhverju í smá stund.

Ég kemst yfirleitt upp með að drekka í hófi. Eftir tvo bjóra er ég að taka áhættuna að eftirköst verði. En auðvitað er best að sleppa þessu bara. Mér leið til dæmis alveg ljómandi þessa mánuði sem ég var ólétt. (Á geðinu. Fékk reyndar grindverk í staðinn. En hann olli mér merkilega litlu ógeði.)

En, sem sagt, stutt og leiðinleg lausn. Ekki drekka vín. :-(

11.10.06

Hamingjan

Fyrir fimm árum síðan, í gær, var opnuð typpislaga verslanamiðstöð í Kópavoginum.
Þremur árum síðar felldum við Rannsóknarskip hugi saman, á Ákureyrinni.
Ári eftir það, fyrir ári og degi síðan, trúlofuðum við okkur, alveg óvænt, í miðjum Buffy-þætti (Buffy vs. Dracula, nánar tiltekið).
Tilviljun?

Í gær áttum við sumsé tveggja ára kærustuparsafmæli og einsárs trúlofunarafmæli. (Falla trúlofunarafmæli annars nokkuð út gildi þegar maður giftir sig?) Heldur varð nú samt lítið um dýrðir af því tilefni. Rannsóknarskip að drukkna í verkefnum, Freigátan í stanslitlu "uhu-uhu" kasti (tóxt meiraðsegja að láta Huggu uppáhaldsfrænku fá alveg nóg af sér, þá stuttu stund sem hún stoppaði hjá okkur) og allt var einhvernveginn á haus. Við réttsvo meikuðum að gúlla í okkur smá súkkulaði áður en ég fór að sofa og hann hélt áfram að vinna.

En, for ðe rekkord, þá erum við alltaf jafn hamingjusöm og finnst skemmtilegt að vera gift hvoru öðru. Og Freigátan er líka alltaf jafn fullkomin. Er bara að fá þrjár tennur í einu akkúrat þessa dagana.

Einar fréttir fékk í gær, alveg einstaklega góðar. Greiðslumatskjaftæðið hefur verið afnumið. Nú setur maður bara upplýsingar um hvaða tekjur maður þykist hafa, hvað maður þykist eiga, og svo framvegis, inn á þartilgerðan vef-útreikni hjá Íbúðalánasjóði, og þeir sjá um að tékka á því hvort maður er nokkuð mikið að ljúga. Í stað þess að maður þurfi að fara á allar skrifstofur í heimi og fá eitt blað á hverri. Og ef maður er svo vitlaus að vera að taka hærra lán en maður hefur efni á, nú þá verður íbúðarholan bara hirt af manni, seinna. Þetta er algjör snilld. Styttir ferlið að því að við nennum að fara að skoða íbúðir til muna.

Hefði nú verið kúl ef við hefðum keypt okkur fyrstu íbúðina okkar á saman-trúlofunar-afmælinu? Kannski of rúðustrikað?

Allavega, nú held ég að vinnufárinu fari alveg að létta af Rannsóknarskipi og þá förum við að skoða tvo svakalega rúmgóða kjallara sem okkur langar í.
Jeij!

9.10.06

Lallallallallallalla...

Eru engir aðrir en ég með nýja titillagið úr Stundinni okkar á heilanum langt fram á mánudag?

Við Freigáta fórum í dag og fjárfestum í þessum fínu pollabuxum handa henni fórum svo með hana til skriðæfinga við Kristkirkju, sem er orðinn hápunktur daxins hjá okkur báðum. Svo fór hún í rennibraut og við róluðum. Þetta gerði alltsaman geðveika lukku.

Leikritið mitt fyrir austan er víst farið að heita eitthvað og ég fer líklega til þeirra til að vinna meððeim íðí um næstu helgi eða þarnæstu. Reyndar misstu þau aðalleikkonuna um daginn, en það er allt í lagi, frænka hennar tók bara við hlutverkinu. Hefur einhver séð einþáttungirnn einræktun er hreinræktun? Þetta er allt hvað undan öðru.
En ég veit ekki ennþá hvenær á að frumsýna... gleymi alltaf að spurja að því.

Annars er eitthvað þunglyndi, sennilega skammdegis-, eitthvað voða mikið að bögga mig. Sem lýsir sér þannig að suma daga finnst mér allt vera vesen. Líka það sem mér finnst venjulega skemmtilegt. Og það er algjör synd af því að þessa dagana er ég bóxtaflega ekki að gera neitt sem mér finnst leiðinlegt. (Eða allavega fátt ;-) Börnin eru sæt. Rannsóknarskipið alltaf sama æðið. Vinnan skemmtileg. Og... það þarf ekkert að skúra stofuna. Ég er meiraðsegja búin að skrifa Ríkisskattstjóra vegna leiðréttinga sem ég þarf að láta gera á skattaskýrslum síðustu tveggja ára. (Fyndið bréf sem byrjar á: Kæri herra Ríkisskattstjóri.)
Ég fór að hitta heimilislækninn minn í dag, og hann ætlar að reyna að koma mér að í "hugræna atferlismeðferð" sem ku vera mjög í tísku. Hann sagðist hafa verið sendur á námskeið til að kynna sér þetta og sagði að þetta virkaði alveg fyrir suma. Mig langar allavega að prufa. Ætti kannski að láta systur mína sálfræðinginn setja mig í svoleiðis í staðinn fyrir að ég tek alltaf upp fyrir hana Beverly Hills 90210? Sem bendir reyndar til þess að hún þurfi einhverskonar atferlismeðferð...

Við erum að byrja að mjaka pappírum á rétta staði til að þokast í áttina að því að geta sótt um greiðslumat. Ég hlakka bara til að fara í aðra íbúð. Þó hún verði minni.
Já, ég er nýjungagjörn.

Óska annars Nönnu og Jóni Geiri til hamingju með nýju íbúðina sína, sem ku vera raðhús í Mosfellsbænum. Já, við erum öll að ferkantast.