Ég ákvað að eyða þessum fagra föstudegi í að láta loksins verða af því að kenna sjálfri mér á Endnote. Letin og ómennskan... já og frammistöðukvíðinn, er hins vegar að grípa þannig í taumana að ég nenni því ekki alveg. Ákvað í staðinn að skrifa mig í gegnum ákveðið mál.
Nú er það þannig að ég og mín fjölskylda lifum á tekjum sem eru í kringum fátækramörkin. Höfum alltaf gert. Og okkur finnst það bara þægilegt. Við gætum sjálfsagt reynt að útvega okkur mba gráður í einhverju og störf með "stjóri" í titlinum. En við viljum heldur geta verið komin heim með krökkunum klukkan 4 á daginn, helst bæði, og leikið okkur með leikfélögunum okkar, stundað tónlist og leiklist... golf og allskonar. Tíminn er miklu mikilvægari en peningar.
Stöku sinnum fell ég þó í þá gryfju að líta á þetta sem tímabundið ástand. Það er það ekki. Þjóðfélagið þarf bókstaflega að snúast á haus til þess að störfin sem við vinnum, eða komum til með að vinna á ævinni, verði vel borguð. Við sjálf þurfum líka að hafa persónuleikaskipti ef við þykjumst einhverntíma ætla að gera eitthvað með hagnaðarsjónarmið í huga. Þannig er þetta. Það sem ég gleymi þegar ég fer að eiga draumóra um betri tíð með rjóma er einhver undarleg hugsýn um "auðvelt" líf. Við höfum alltaf getað átt þak yfir höfuðið, yfirleitt nógu stórt til að enginn þurfi að sofa í baðkarinu, enginn er svangur og við leyfum okkur allt sem okkur sýnist. Auðvitað eru engar skyndiákvarðanir teknar, útlandaferðir þurfa að skipuleggjast og útleggjast með margra mánaða eða ára fyrirvara og stundum bilar bíllinn fyrir tvöhundruðþúsundkall og þá þarf að skipta vísanu í heilt ár. En við erum ALLTAF í útlöndum. Ég hef ekki talið saman allt sem við erum að fara á þessu ári. Mest af því er reyndar vinnutengt, en það er nú sama. Hversu margir í kreppuþjóðinni fóru til Japan í fyrrasumar og ætla til Chile á þessu ári? Og þetta er alveg hægt. Börnin fá að vera í íþróttaskólum, leikjanámskeiði, tónlistarnámi... unglingurinn ætlar í heimavistarskóla. Og þetta hefur alltsaman gengið hingað til og mun gera það áfram. Við skuldum ekki einu sinni neitt að ráði.
Þess vegna á ég erfitt með að skilja sjálfa mig þegar ég dett inn í draumsýnina um lífið sem ég veit að mér myndi hundleiðast. Ef ég hef eitthvað lært um sjálfa mig á ævinni hlýtur það að vera það að þrátt fyrir kvíðaraskanir og skemmtilegheit leita ég áskoranir uppi. Ég ræðst ævinlega á garðinn þar sem hann er hæstur. Hver byrjar til dæmis í doktorsnámi með eins, þriggja og þrettán ára börn, hálfu ári eftir að fjármálakerfi landsins hrynur? Enginn sem þráir neins konar þægilegt líf.
Um árið mismælti sig kona og sagðist hafa misskilið sig. Þetta mismæli hefur hjálpað mér mikið að skilja hvenær ég er að misskilja mig. Samkvæmt kenningunni um að maðurinn hafi mjög tilhneigingu til að gera það sem hann vill þarf maður reglulega að athuga hvernig draumsýnir manns eru um lífið og tékka á því hvort þær samræmast endilega því sem manni raunverulega finnst. Ég held að eitt af því mikilvægasta sem aðgreinir manninn frá öðrum dýrategundum sé að það er hægt að telja honum trú um allskonar kjaftæði. Þetta heitir auglýsingasálfræði.
Svo er það líka blekkingin um að einhverntíma verði allt vesenið búið. Allt komist í öruggar og þægilegar skorður og maður þurfi aldrei framar að hafa fyrir neinu. En þetta er auðvitað ekkert svona. Eins og Búdda segir, það er alltaf eitthvað helvítis vesen. Og lífið er keðja tímabundinna ástanda þar sem það er aldrei neitt öruggt eða "þægilegt" í mjög langan tíma.
Ég var alveg í svona almennilegri vinnu eins og allt eðlilegt fólk einu sinni. Einn vetur. Endaði hann á minni fyrstu ferð á þunglyndislyf. Ég hafði misskilið mig og haldið að ég vildi lifa öðruvísi en ég vil í raun og veru. Þarna rugla líka rökin mann. Mann á að langa meira í starfið sem gefur meiri peninga. En lífið er of stutt til að láta sér leiðast 8 tíma á dag, 5 daga vikunnar eða meira.
Það sem vakti mig til meðvitundar í þetta sinn var það að ég var farin að hafa ógurlegar áhyggjur af næsta vetri. Ég er ekki enn komin með styrk í rannsóknina mína, er líklega búin með námslánaheimildir, efast um að ég eigi rétt á atvinnuleysisbótum og á enn tvö ár eftir til að geta klárað ritgerðina mína sæmilega. Minn elskulegur sagði þá við mig hina gullvægu setningu:
„Síðan hvenær höfum við áhyggjur af peningum?“
Þetta var mjög góð spurning. Ef ég fæ ekkert til að lifa af næsta vetur verður nefnilega staðan áhugaverð. Ekki að ég reikni með að gerast verkefnalaus. Ég er að þýða bækur og ýmislegt, kann að búa til ágætis útvarpsþætti, get skrifað greinar, haldið fyrirlestra og námskeið, ef ég fæ allt í einu tíma. Svo er auðvitað alveg í boði að mjaka ritgerðarófétinu áfram, þó enginn ætli að borga mér fyrir það.
Þannig að þegar ég áttaði mig á þessum misskilningi á sjálfri mér fór allt að birtast í réttu ljósi. Óvissuástand er nefnilega öldungis skemmtilegt og ég efast ekki á að nú finn ég næsta garð og reyni að sjálfsögðu að príla yfir hann þar sem hann er hæstur, með rafmagnsgirðingum og gaddavír!
Þetta er alveg brjálað líf.
1.6.12
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli