1.3.04

Séð og ekki
Rakst á lista sem ég var einhvern tíma búin að búa mér til yfir það sem mig langar að sjá í leikhúsum í vetur. Ekki er nú margt sem hefur komist í verk að sjá. Þó, búin að fara á Meistarann og Margarítu í Hafnarfjarðarleikhúsinu, Pabbastrák og Vegurinn brennur í Þjóðleikhúsinu og Góðverkin kalla hjá Biskupstungnungum. Langar að sjá Gaukshreiðrið á Selfossi, og Fílamanninn hjá Halanum, en veit ekki hvort það næst, Selfoss er alveg að hætta í bili og sýningarplan Halans er alveg eins og Hugleiks, allavega á næstunni. Hins vegar er ég með stór plön um að mæta á frumsýningu á Smúrtsinum í Kópavogi um aðra helgi. Í atvinnuleikhúsum langar mig mikið að sjá Chicago og Sporvagninn Girnd í Borgarleikhúsinu og svo var ég að frétta af leikriti sem heitir þrjár Maríur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sem mig langar líka að sjá þar.

Það eru hins vegar bara alls ekki nógu mörg kvöld í heiminum. Á miðvikudagskvöld langar mig samt gífurlega að fara á Næstabar og sjá tónleika með hinni óborganlegu skopsveit Hundi í óskilum, sem ég hef enn ekki afrekað að sjá "læf" (nema ef vera skyldi á leiklistarhátíð á Akureyri 2000, en þar sem þeirri hátíð var eytt í hálfgerðu taugaáfalli af minni hálfu þá man ég ekki neitt hvað ég sá þar).

Semsagt, allt vítlaust að gera í menningunni á næstunni og kemst örugglega ekki yfir helminginn. Gaman að því.

Engin ummæli: