12.5.04

Lenti á spjalli um linkamenningu um daginn, og ákvað af því tilefni að bæta nokkrum við sem ég les oft.
Mér finnst mjög gaman þegar fólk býr við undarlegar aðstæður (frá mér séð) og nennir að segja frá því. Það gerir t.d. hún Ylfa sem er þriggja barna móðir á Bolungarvík. Og þau Agnes og Einar Vogler sem búa í Ástralíu. Þetta fólk býr hérmeð í linkasafninu. Svo var hann Hugleikur náttrulega að opna þennan líka svakalega efnismikla og ýtarlega upplýsingavef um daginn, en þar er hægt að fletta upp öllu og öllum sem nokkurn tíma hafa komið nálægt þeim félagsskap.

Annars er ég nýbúin að læra að maður eigi aðallega að hafa linka á þá sem eru með linka á mann, tilbaka, en ég er ekki búin að nenna að fá mér neinn teljara eða rakningargræjur þannig að ég veit ekkert hverjir eru með linka á mig (eða hvort einhver les bloggið mitt svona yfirhöfuð) Enda finnst mér það eiginlega ekkert vera málið. Verð bara að hafa einhvern tjáningarmáta sem kemur í veg fyrir að ég kjafti alla sem í kringum mig eru endanlega í kaf ;-)

Það eru komnir nýjir símar á skrifstofuna! Enda voru hinir eldeldgamlir og ég var búin að henda mínum mjööööög oft í gólfið. Núna er sumsé orðið þráðlaust svo við þurfum aldrei aftur að segja "bíddu aðeins" við neinn þegar við þurfum að gá að einhverju. Við það færist þjónustumiðstöð Bandalaxins upp um nokkur stig. Þá vantar bara kaffikönnu sem er búin að hella uppá þegar maður mætir og sjálfhreinsandi geymslu.

Vegabréfið mitt er loxins á leiðinni í endurnýjun lífdaga. Það kemur sumsé til með að vera útrunnið í rúmt ár. Minnir að ég hafi haldið upp á úreldingu þess um 15. maí í fyrra. En nú er friðurinn úti. Írar skulu sóttir heim innan mánaðar. Ferðafýlan er alveg að komast í hámark, finnst miklu meira gaman að vera að fara norður í Svarfaðardal um næstu helgi. Hef reyndar aldrei komið til Írlands áður og hef huxað mér að pikka upp nokkur vel valin blótsyrði á gelísku. Finnst líka mjög fyndið að fara þangað og sneiða algjörlega hjá Dublin. Svo hef ég líka fulla trú á námskeiðinu sem ég er að fara á þannig að fátt er svo með öllu illt... Það er bara helv... ferðalagið.

Til að byrja með þoli ég ekki Reykjanesbrautina og er meinilla við að láta fólk keyra hana. Þess vegna tek ég rútuna ef ég mögulega nenni. Svo er ég náttrulega að fara á einhvern fáránlegan stað, lengst út úr alfaraleið þannig að eftir tvö flug (og nokkra heilaskemmandi klukkutíma á Stansted flugvelli) tekur við strætó, svo rúta og svo... bíll eða eitthvað. Þetta tekur heilan dag hvora leið. Þannig að það er eins gott að þetta verði gaman! Dreymdi annars í nótt að ég var komin þangað og hundleiddist.

Reyndar gerðist ein fyndnasta ferð sem ég hef farið í síðast þegar ég var að koma af viðlíka námskeiði. Ég þurfti að leggja af stað frá Bonn til Montpellier um miðja nótt, beint úr lokapartýinu, alveg blindfull með risastóra tösku í eftirdragi. Ferðaplanið var leigubíll-lest-rúta-flug-leigubíll. Á leiðinni í fyrri leigubílinn datt handfangið til að draga með af. Þegar ég var að drösla ferlíkinu upp í lestina datt síðan hitt af líka. Eftir það var ég blidfull og ein að reyna að burðast með tösku sem var næstum jafn stór og ég og örugglega miklu þyngri, og var ekki lengur með nein handföng til að halda á, blindfull og þar að auki með takmarkað jafnvægisskyn um miðja nótt að þvælast um hálfa Evrópu. Þetta var eins og Mr. Bean þáttur. Mér fannst þetta ekkert fyndið á meðan á því stóð, en þegar ég var búin að losna við ferlíkið á flugvellinum og sest einhvers staðar út í horn setti að mér alveg óstjórnlega mikið fliss. Varð fyrir vikið enn meira eins og geðsjúklingur. Hefði samt sennilega ekkert hlegið hefði ég vitað þá, það sem ég komst að stuttu síðar, að í fumblinu var ég búin að berja tölvunni minni svo rækilega utan í að skjárinn í henni var ónýtur. Og er enn. Og ég veit ekki hvaða tölvu ég á eiginlega að fara með á næsta námskeið. Kann eiginlega ekki við að fá lánaða eftir hvernig fór fyrir þeirri síðustu.

Allavega, er búin að læra soldið af reynslunni með þetta og í þessa ferð skal farið með töskur með einstaklega traustvekjandi hanföngum í hvívetna.

Engin ummæli: