22.6.04

Var að "lesa mig upp" á hinum og þessum bloggum og meðal annars að skoða hvað hefur farið fram í þáttunum sögumenn samtímans (http://www.blogg.is/sogumenn/) en mitt næsta mál er einmitt að búa til svoleiðis. Hef ekki enþá óljósustu hugmynd um hvað ég ætla að skrifa eða segja eða spila. Enda er þátturinn minn ekki fyrr en eftir rúman mánuð... ætti samt að fara að hugsa eitthvað um þetta.

Svo er í bígerð bloggsíða á ensku, að ósk nokkurra ammrískra kvenna sem ég var með á námskeiði. Hún á að fjalla að mestu um hugtakið "stupidism" sem er í vinnslu. Ég huxa að það útleggist kannski sem "bjánismi" á hinu ástkæra ilhýra og fjallar mikið um notkun á hundalógík.

Svo var gífurlega fögur mynd af okkur hjónunum á julli.is í ein á dag í gær. Einstaklega vel viðeigandi þar sem þetta er trúlega fyrsta og eina myndin sem er til af okkur saman. Ég á heldur enga mynd af honum. Ég hafði ekki einu sinni pælt í því fyrr en einhverjar af samnemendum mínum á námskeiðinu fóru að spurja mig að því, og í framhaldinu hvers vegna ekki. Mér datt bara eitt svar í hug. Ég man alveg hvernig hann lítur út.

Annars er ég búin að huxa mikið um rómantík undanfarið. Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ég væri frekar lítið í því, þrátt fyrir mýmörg sambönd af öllum tegundum. Kertaljós gera lítið fyrir mig, nema á jólunum. Orðskrúðugar ástarjátningar finnast mér yfirleitt virka sem djók. Ég er með tiltölulega lágan væmnisþröskuld og yfir rómantík í sjónvarpi eða bíó þarf ekki mikið til að ég fái klígju og missi áhugann. Svo fór ég að skrifa rómantíska tragedíu á námskeiðinu. Atriðið þar sem allt lék í lyndi olli mér miklum heilabrotum og sjaldan hef ég skrifað neitt jafn oft. Það endaði í 4 stuttum replikkum sem sögðu lítið en gáfu ýmislegt í skyn.

Ég held hins vegar að klisjurnar séu búnar að rugla mig. Mér þótti til dæmis ógurlega rómantískt þegar foreldrar mínir nenntu ekki að gera neitt með 35 ára brúðkaupsafmælið sitt, af því að þeim þótti ekkert tiltökumál að vera gift. Mér fannst svakalega rómantískt að Dóri skyldi dansa við mig á lokakvöldinu á skólanum, eftir að hafa lýst því yfir ítrekað að hann gerði það aldrei. Að sama skapi fannst mér gífurlega rómantískt að við skyldum taka upp á því að sofa í sitt hvoru herberginu, eftir 2 vikna aðskilnað, fyrir norðan. Það var bara eitthvað við það. Að kveðjast að kvöldi og fara svo í sitt hvort rúmið og hittast svo aftur í morgunmatnum. Svona soldið eins og í sumarbúðum.

Er búin að komast að því að ég er alveg hundrómantísk. Ég er hins vegar líka mínímalisti. Ég trúi gjarnan á "less is more". Mér finnst rómantík skemmtileg, en er lítið fyrir slepjukennda dramatík. (Ekki þar fyrir að eflaust hef ég tekið þátt í svoleiðis, oftar en ég vil muna, en fæ bara ekkert út úr því.) Er semsagt búin að enduruppgötva sjálfa mig sem mjög djúpstæðan rómantíker, en sá böggull fylgir skammrifi að ég þarf trúlega að endurskilgreina hugtakið. Geri það þegar ég get hnoðað niður í hnitmiðaða og míníaliska setningu í hverju munurinn felst.
Uppástungur?

Engin ummæli: