26.7.04

Um daginn heyrði ég svolítið sem ég hef oft heyrt áður.

Það er nefnilega þannig að ef maður er einn af þessum fáu Íslendningum sem ekki er alinn upp við sjó, þá fær maður oft framan í sig eitthvað á þessa leið "Ekki gæti ég hugsað mér að búa bara einhvers staðar sem ég sé ekki sjóinn!" og svo horfa menn á mann með nokkurri furðu í svipnum, eins og þeir séu að velta því fyrir sér hvernig manni hafi nú dottið í hug að alast upp á Egilsstöðum, eins og ekkert væri. (Pabbi minn segir þetta meira að segja reglulega, búinn að búa á Egilsstöðum í 40 ár.) Yfirleitt hefur mér nú bara þótt gaman að þessu kommenti, eins og öllu öðru sem verður til þess að fólk veiti mér athygli.

Um daginn var ég síðan að ráfa í Hafnarfirðinum, eins og maður gerir, og fór að horfa á sjóinn og skipin. Jújú, alveg... tja... sjór og skip, svo sem eins og þau eru, og í því samhengi fór ég að huxa um mitt uppvaxtarumhverfi og vitið í því að vilja alltaf að umhverfið sem maður býr við sé eins.

Ef ég nú til dæmis gæti ekki huxað mér að búa annars staðar en þar sem er fljót, beljur, tún og/eða skógur væri mér óneitanlega þröngt stakkur skorinn varðandi búsetu. Þar að auki væri maður líklega talinn illa klikkaður, færi maður að halda slíku fram.

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum.

Engin ummæli: