11.8.04

Fyrst verð ég að minnast á kynni hátíðarinnar. Það var 16 ára snillingur, ógurlega virðulegur og samt fyndinn, talaði frábæra ensku sem hann sagðist hafa lært af sjónvarpinu. Fann margar og fyndnar aðferðir til að skipa fólki að slökkva á farsímunum.

4.8.
Gargandi blíða, vöknuðum um 9 í sauna-herberginu okkar. (Þetta var eina nóttin sem okkur kom sú fásinna í hug að sofa við lokaðan glugga vegna flugnafælni.)
Morgunmatur, rúta til Viljandi, hálfátta bjórinn og svo norsk sýning:

The Victorious
Wild Rose Theatre
Skrifað af hópnum

sem var nú óttalega klén, eitthvað. Kosturinn við hana var nú samt sá að hún var líka klén í tíma, ekki nema 20 mínútur þannig að það tók því ekki að sofa.

Að lokinni örlítilli verslunarferð var síðan komið að sýningu Íslendinga:

Undir Hamrinum
Hugleikur
Eftir Hildi Þórðardóttir

Skemmst frá því að segja að þessi sýning var fantaflott. Virkaði vel sjónrænt þó svo að áhorfendur skildu ekki textann og þakið ætlaði af húsinu í fagnaðarlátum að sýningu lokinni. Við Utangarðsmenn vorum ýkt montin af okkar fólki og ég gróf upp Hugleiksbolinn þegar ég kom heim á hótel og montaðist í honum eftir því sem veður leyfði.

Eftir miðdegismat og lagningu var síðan komið að sýningu Dana.

The story of deprivation
Teater etcetera
Eftir Jens Albinus

Þar var nú aldeilis illa farið með góða leikara. Handritið og uppsentningin var allt eitthvað "artífart sjálfsrúnk" með hljóðmottu dauðans sem gerði ekkert nema að pirra mann. Leikararnir stóðu sig ótrúlega vel, en manni var samt sem áður hjartanlega sama um þetta fólk. Það var einn brandari í sýningunni, en ég komst að því seinna að hún átti að vera fyndin.

Um kvöldið gerðu þó Danir heiðarlega tilraun til að bjarga lífi hátíðarklúbbsins með því að stofna "moskítóbarinn" fyrir utan. Það var illskárra heldur en að svitna og sofna inni.

5.8.
Þennan morgun hófst stjórnarfundur NEATA á reglulega ókristilegum tíma. Ég sat hann og skemmmti mér við að skrifa óformlega fundargerð þar sem ég skrifaði aðallega hverjir mér þættu sniðugir og hverjir asnar. Komst meðal annars að því hvers vegna danskar og norskar sýningar á þessum hátíðum eru undantekningalítið verri en aðrar. Það er vegna þess að veljendum finnst hreinlega ekki að velja eigi sýningar eftir því hverjar eru bestar heldur... ja ég veit eiginlega ekki eftir hverju. Þeir töluðu mikið um tilraunaleikhús, sem er sennilega að þeirra mati allar sýningar sem ekki eru "ferkantaðar" á einu sviði, í fimm þáttum, eftir Egner eða Ibsen. Svoleiðis sýningar vilja þeir senda, sérstaklega tilraunir sem ganga ekki upp. Þetta útskýrði ýmislegt.

Um hádegi var komið að Lettnesku sýningunni.

Tartuffe
The Theatre of Ventsplis
Eftir Moliere

Fantagóð uppsetning á Tartuffe, tæknilega flott og skemmtileg nýting á dýpt sviðsins. Kraftmikill leikur og ekkert að trufla mann nema einhver smáatriði. Sýningin fór reyndar hálftíma fram yfir tímamörk, ég hefði viljað vita af því fyrir vegna þess að ég var orðin soldið stressuð yfir því hvort ég næði ekki örugglega á næstu sýningu.

Sem var Sænsk:

Limpan
Hammarteatern
Allan Edwall

Fantagóður einleikur um fyllibyttu. Í hálfgerðum kabarettstíl, talsverður söngur en annars mest maður að segja sögur. Hljómar kannski ekki spennandi, en þetta var það. Leikarinn var svoooo flottastur og hélt manni við efnið allan tímann, þrátt fyrir hita inni og hörð sæti.

Eftir miðdegismat fórum við nokkur aftur til Viljandi, versluðum og þvældumst og lentum í síðdegisdrykkju sem gerði það að verkum að ég var alveg að míga á mig á sýningu Finna:

Mahnovitsina
Esa Kirkkopelto
Community Theatre of Kajaani

Leikrit með mikilli rokktónlist og annars konar um byltinguna í Úkraínu. Gargandi brjáluð snilld. Kom mér til að grenja. Var reyndar um hálftíma of löng, sem hefði huxanlega ekki böggað mig alveg jafnmikið hefði ég ekki verið alveg gjörsamlega að míga á mig. Örlítill byggingarlegur galli líka að hún var mjög kraftmikil fyrst en svo hægðist svakalega á öllu saman undir lokin. Samt sem áður, ég fílaði þessa sýningu í druslur.

Þá var haldið heim í kvöldmat og eftir hann gerðu Íslendingar tilraun til að lífga örlítið upp á hátíðaklúbbinn með söng. Slógum m.a. í gegn hjá Dönum með danska poppslagaranum Barbie girl í klassískri kórútsetningu.

Þessi dagur var allur hinn besti.

Seinna kemur svo greinargerð af skoðunarferð til Tartu, námskeiði í sviðsslagsmálum, Belgískum hroða og heimferð.

Engin ummæli: