24.1.05

Nú eru þeir alveg að sleppa sér í grunninum við hliðina. Það eru reyndar búin að heyrast þaðan höggborahljóð og sprengingar nokkuð stanslaust síðan ég hóf störf hér, en í dag er þetta eins og maður sé með helv... höggborinn í rassinum. Ég er reyndar að vona að það fari nú að hrynja duglega úr loftinu, svo við getum látið byggja nýtt handritasafn, Bandalaginu að kostnaðarlausu.

Annars er nokkuð tíðindalítið af vesturvígstöðvunum þessa dagana. Í gang er farið æfingaferli sem þegar lítur út fyrir að verða eitt hið alskemmtilegasta sögunnar, hlutverk mitt sem aðstoðarleikstjóra felst í því, enn sem komið er, að hella uppá kaffi og hlæja mig svo vitlausa yfir tilþrifum leikara og leikstjóra. Hef alveg séð það svartara. Annars er haldin æfingadagbók á Hugleixvefnum, vilji menn vita meira.

Svo er mig farið að langeygja talsvert eftir Rannsóknarskipinu mínu. Langtímasamverur yfir áramót gerðu ekki annað en að æsa upp hungur eftir fleiri slíkum. Og gerfifrjóvgun vakti óvænta ílöngun í alvöru. Og allt þetta hefur síðan afleiðingar í endalausu símavæli. Mig langar allavega til Akureyrar. Sem straxast. Annars er ég líka að vonast eftir Árnanum mínum í snöggt viðlit upp úr næstu helgi. Verður þá Kátt í Höllinni.

Engin ummæli: