17.2.05

Í vinnunni minni fæ ég oft allskonar spurningar. Stundum get ég svarað þeim (Ef spurt er um hvar menn fá einhverjar ofur-effekt-förðunarvörur er svarið oft bara: Í útlöndum.) En stundum alls ekki. Mér vefst sjaldan jafnmikið tunga um höfuð og fingur um lyklaborð eins og þegar ég fæ fyrirspurnir frá kennurum, í kringum árshátíðir, þegar verið er að spyrja um leikrit sem "henta" ákveðnum aldurshópum.

Í fyrsta lagi hef ég lítið umgengist börn frá því að ég var slíkt sjálf, og get því ómögulega gert mér í hugarlund hvaða verk "henta" þeim. (Enda, ef kennarar vita það ekki, hver þá?) Í öðru lagi er ég eiginlega ekki sammála því að menn eigi almennt að geta fengið upp í hendur skemmtiefni sérsniðið að þeirra aldri.

Þegar ég var lítill ormur í barnaskóla settu efstu þrír bekkirnir jafnan um leikrit á árshátíð. Ég man til dæmis eftir því þegar ég var 11 ára settu þau upp "Betri er þjófur í húsi en snuðra á þræði" eftir Dario Fo. Það var hin besta skemmtan, þó það sé náttúrulega alls ekki sniðið að þörfum unglinga á neinn hátt. Þegar ég var í 9. bekk settum við upp valda kafla úr Valtý á grænni treyju, samtengda með sögumennsku. Fornyrt gæruskinn sem getur engan veginn talist við hæfi barna. Gerði nú samt bara ágætis lukku, ef ég man rétt.

Sem sagt, er á því að það sem "hentar" börnum geti mjög auðveldlega verið það sama og hentar fullorðnum, svo framarlega sem viðfangsefni séu ekki því meira óviðeigandi. Enda hefur það litla sem ég hef unnið með og séð af börnum í leikhúsi sýnt mér það að þau eru mjög samviskusamir leikarar, taka leikstjórn jafnan betur en fullorðnir og eru fljótari að læra textann sinn. Þurfa þess vegna síst á idjótískari viðfangsefnum að halda.

Börn eru nefnilega ekki jafnmiklir kjánar og fullorðnir virðast stundum halda.

2 ummæli:

Gadfly sagði...

Sammála og þetta á líka við um kvikmyndir, bækur og allt annað. Lofa þeim að smakka á öllu, svo fremi að ofbeldi og klám sé innan velsæmismarka.

Nafnlaus sagði...

Algerlega ósámmála. Börn eru idjótar upp til hópa og því vitlausari sem þau eru yngri. Þekki mörg sem hafa ekki einu sinni stjórn á eigin hægðum.