18.5.05

Kveðjustund

Ég á við tilfinningalegt vandamál að stríða. Þannig er mál með vexti að ég mynda tilfinningatengsl við dauða hluti eins og um fólk eða aðrar lífverur væri að ræða. Það var til dæmis endalaust vandamál með mig þegar ég var lítil, ég fékkst alls ekki til að setja dótið sem ég var hætt að leika mér með niður í geymslu. Ég hafði áhyggjur af að því leiddist. Svo fór ég stundum í björgunarleiðangra og náði í það aftur, þó búið væri að gabba mig til að setja það þangað, með einhverjum lygasögum um partý í geymslunni þegar fólk sæi ekki til. Ég var þvert á móti alveg viss um að um leið og maður lokaði geymsludyrunum færi allt dótið að háskæla.

Það er því með nokkuð þungum huga sem ég kveð í dag fagurt ökutæki. Eftir 25 ára digga þjónustu hefur fíesta afa míns lox verið seld. Drossían sú hefur þjónað fjölskyldunni lengi og vel og ég er ógurlega hrædd um að hún fari að gráta þegar pabbi minn skilur hana eftir í Hafnarfirðinum í dag. Mín eina huggun er sú að hún komi til með að skemmta sér betur með druslunum hans Einars Knútz heldur en niðri í bæ hjá mér þar sem kaggarnir hafa eflaust strítt henni á því hvað hún var orðin gömul og græn. Í portinu hans Einars huxa ég hins vegar að hún sé aðaltöffarinn.

Þegar ég huxa um það er það kannski bara eitthvað sem gengur á mínu heimili að umgangast bíla eins og fólk, þó svo að við séum alls ekki vélafólk og að bíll hafi aldrei komið inn í bílskúrinn heima. Bílar á mínu uppvaxtarheimili eru gjarnan keyptir alveg bandsplunkunýir og keyrðir af mikilli alúð næstum alveg þangað til þeir gefast upp. (Sbr. appelsínugul Ladasteisjon sem var fjölskyldubíll 1980-1992 og gulur Volvo í álíka langan tíma á undan.) Fyrir þessa langnýtni á bíla höfum við til dæmis oft orðið bíladellufólkinu í vesturfjölskyldunni minni til mikillar skemmtunar. Svo var náttúrulega lýst yfir þjóðarsorg á heimilinu þegar Strumpi dó (eldgömul blá og strumpmáluð lada sem lenti í slysi) og er hans enn minnst með miklum trega. (En sjaldan minnst á þá mildi að litli bróðir minn afmælisbarnið skyldi hafa sloppið óskemmdur... svona er nú forgangsröðin.)

En drossían er allavega horfin til ættingja sinna druslanna. Farivel.
*snökt*

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kúl, hvað fengum við fyrir kaggann? Bílar eru bara bílar, nóg til af þeim allsstaðar.
Ekkert sentimet hér.
Hugrún

Sigga Lára sagði...

Tekið skal fram að tilfinningum er misskipt innan fjölskyldunnar.

Þórunn Gréta sagði...

Bwahahahahaha!!!!! Æ lovvjú!

Nonni sagði...

Er áralöngu böndin bresta
Brottförin hún verður treg
Eins og þegar Ford Fiesta
Fer sinn hinsta æfiveg

EBB