19.6.05

Slit

Lokadagur Skólans fór hið albesta fram, sem endranær, heimsfrumsýndar voru 8 uppsetningar af 5 verkum sem hinir og þessir höfundar, sem voru á staðnum fyrir tilviljun, höfðu snýtt fram í hjáverkum. Verkunum stýrðu 8 flunkunýir leikstjórnarnemar og eru þeir hinir efnilegustu. (Ekki er ég nú kannski alveg hlutlaus þar sem hópurinn inniheldur Rannsóknarskipið og, að sögn, tvíburasystur mína.)

Gleðilæti voru um kvöldið, þjóðhátíðarkór bandalaxins kom mér til að grenja eins og venjulega yfir borðhaldi og svo dönsuðu menn fram á nótt. Skemmti mér hið albesta í nýendurheimtum félaxskap míns rannsóknarskips, sem ég hef ekki hitt vikum saman. Verð nú heldur en ekki fegin í miðjum ágúst þegar samfundir okkar fara að verða reglan en ekki undantekningin. Já, og ég held helst að við Þórunn Gréta þurfum að koma okkur í DNA rannsóknir. Svo vissir eru menn um náskyldleika okkar, hvað sem við segjum. (Árni minn aftekur nú samt að hafa nokkuð ruglað okkur saman, og er það vel ;-)

Skólaslitadagur var allur hinn undarlegasti fyrir þrennra hluta sakir.
a) Ég var ekki þunn.
b) Það var ekki sól.
c) Ég þurfti ekki að keyra til Reykjavíkur heldur rétt steinsnarið til Akureyrar þar sem ég gat sofið í góðu yfirlæti fyrir framan sjónvarpið í allan dag. Þegar á allt er litið eiginlega besti dagur af öllum slíkum hingað til.

Enda eins gott. Á morgun hefst hið fimmárlega taugaáfall. Fundur í undirbúningsnefnd leiklistarhátíðar eftir hádegi og upp frá því reikna ég með óslitinni geðbólgu í rétta viku. Það er nú rétt eins gott að þetta verði gaman. Það hjálpar mér t.d. ekki neitt að hafa gert þetta fyrir 5 árum síðan. Ég man ekkert eftir þeirri hátíð. Ég vil meina að ég hafi verið í blakkáti sökum taugadrullu.

Engin ummæli: