13.7.05

Það hressir

bandalaxkaffið. Fljótlega uppúr fyrsta sopanum er búið að redda öllu sem setið hefur á hakanum vikum saman með 2-3 símtölum. Eins gott þar sem tekin hefur verið pólitísk ákvörðun um að ekki verði fleira að gert í einu né neinu fyrr en eftir Vestfjarðareisu helgarinnar.

Og ég er ekki búin að tjá mig um eitt. Íslenski Battsjelorinnn! Mikið ógurlega ætla ég að horfa á það. Býst annars alveg eins við því að kjánahrollurinn beri mann ofurliði fljótlega, það er einhvern veginn auðveldara að horfa uppá Kanann gera sig að fífli heldur en heimamenn. En mikið óskaplega skal ég reyna!

Annars er hálfgerð veruleikafirring í sjónvarpsáhorfinu mínu núna. Ekki nenni ég að fylgjast með hver boxar best. The Swan rext á við Desperate Housewifes og pirrar mig þar að auki óstjórnlega. (Mér finnst hreinlega ekki fallega gert að taka og murka persónuleikann úr andlitum fólks þannig að það verði í framan eins og það hafi verið strekkt uppá þvottasnúru á eyrunum.) Hins vegar sé ég stundum megrunarþættina "The biggest looser" og þykja þeir snjallir og viðeigandi á þessum síðustu og verstu tímum. Svo eru keppendur náttlega misskemmtilegir og fá dramaköst í tíma og ótíma og það er auðvitað það sem gerir veruleikasjónvarpið svona líka dandalaskemmtilegt. Hins vegar er það að flatna og ganga úr sér og ég huxa að það verði búið eftir nokkur ár.

Las Heljarslóðarorrustu í sumarfríinu. Hún stendur ævinlega fyrir sínu. Hann Benedikt minn Gröndal var náttlega æði. Ég er til dæmis hérumbil viss um að hefðum við Benedikt verið samtíða, fyrir svona 10 árum síðan, þá hefði með okkur tekist mikill vinskapur. Enda átti fátt betur upp á pallborðið hjá mér á mínum yngri og heimskari árum heldur en iðju- og auðnuleysingjar sem ekkert voru nema kjafturinn. Svo hefur það elst af, eins og annað skemmtilegt.

5 ummæli:

frizbee sagði...

Ég BANNA þér hér með að horfa á battsjelor!!! Og ef þú heldur að þú sért e-ð öruggari í fjarveru minni then think again! Ég hef mínar aðferðir!!! GRRRRRR!

Varríus sagði...

Já, Orrustan er góð. Væri ekki sniðugt ef einhver tæki stríðið gegn hryðjuverkum sömu tökum og gröndallinn tók Napóljón? Segði af því söguna eins og hún gerðist í íslensku söguumhverfi?

Nafnlaus sagði...

Ég minni á að þú varst einmitt samtíða Benedikt þessum fyrir nákvæmlega 10 árum síðan og þá voruð þið vön að hittast á barnum hjá fröken Olsen. Ég man ekki hvort þú fékkst eitthvað að sauma...

Sigga Lára sagði...

Ástþór: Ég skil þetta sem svo að þú verðir battsjelorinn en viljir ekki að neinn viti af því. (Enda, upprennandi stórstjarna er náttúrlega alveg ideal til að láta 25 ljóskar heimskur keppast um...)

Varrjuss: Jú, vissulega. Ennfremur hef ég velt því oft fyrir mér hvernig orrustan sjálf færi á sviði. Sýnist það vera lítið mál maður brúkar bara þessi snilldarlegu samtöl og lætur svo Ágústu dívæsa það sem gerist á milli.

Hulda: Já! Auðvitað! Þegar þú segir það! Enda fannst mér sá auðvitað einstaklega skemmtilegur karakter, í allri sinni eymd. "Augun svo tvö..."

Berglind Rós sagði...

Alveg sammála þér með Biggest Loser, sá þetta í fyrsta skipti í gær og finnst þetta bara nokkuð hressandi tilbreyting í raunveruleikasjónvarpi ;-) Get alls ekki horft á Swan, og þaðan af síður pörunarþættina.