Hér í Brekkunni í Eyjafjarðarsveit er nú komin sumarblíða. Fé er farið á fjall, utan nokkrar rytjur sem trúlegast fá að vera heima við í sumar. Heimafólk sýslar eitt og annað og í kveld fór allt karlkyns, utan húsbóndinn, á knattspyrnuæfingu.
Sést nokkuð hvað ég er að lesa? Fann bara skáldsöguna "Tengdadóttirin" og þótti bara einstaklega viðeigandi að lesa hana. Hún þarf reyndar sennilega að verðaframhaldssaga mín í tengaforeldrahúsum því hún er í þremur bindum. Mikla ógurlega ritræpu hefur hún nú haft, hún Guðrún frá Lundi. Ég er strax farin að halda með stúlkunni sem ég sé í hendi mér að eigi síðar í sögunni eftir að verða vonda og illgjarna tengdadóttirin. Sú er kvefsin og kjaftfor og klæðist eins og karlmaður.
Hér er annars bara þýtt og horft á fótbolta til skiptis, og stundum í einu, og stundum elta menn eina og eina kind yfir að Svertingsstöðum þar sem hún á heima. (Og alltaf þegar ég sé nafnið á þeim bæ á skiltinu hérna við heimreiðina þá heyri ég fyrir mér orð Sævars (að mig minnir) þegar við skildum Rannsóknarskipið eftir þar í leikferðinni í Freyvang 1997: "Ekki vissi ég að hann Árni væri svertingi.")
Og mér til mikillar kátínu þurfti ég að hefja daginn í dag með því að gera yfirlestur á textum í forkastanlega skemmtilegri mynd. Sem hefur meðal margra annarra gullkorna að geyma setninguna "Móðir þín var hamstur og faðir þinn lyktaði af ylliberjum."
Dagurinn varð allur eftir því indæll.
26.6.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Ekki treysta Gurru Lunds. Tengdadóttirin á ábyggilega eftir að finna konuna í sjálfri sér og verða meðvirk karlmannshækja...
Neinei. Hún drapst nú bara. (Vegna þess að hún fór ekki nógu vel með sig eftir barnsburð.) Fyrir miðju fyrsta bindis... Og varð ekki hótinu skárri fyrr en eftir það. En þær hljóta nú eiginlega að verða fleiri... Varla eru tvö og hálft bindi bara um þessa dauðu. Hins vegar spurning hvort verkið ætti þá ekki að heita "Tengdadæturnar".
Tengdalík. Það er gott nafn á sögu.
... og þú getur sem best borið upp á mig alla þá svertingjavitleysu sem þér dettur í hug, því ég man ekkert stundinni lengur.
Eitt gullkorn man ég þó úr þessari sömu ferð. Þegar rútan stoppaði í Borgarnesi á leið norður greip Anna Stína míkrófóninn og tilkynnti að hér yrði áð. „Pylsa og piss heitir þetta stopp“. Þá setti Ármann upp þrautþjálfaðan vandætnisvip og sagði: „Mig langar nú eiginlega frekar í pylsu og kók.“
Nú langar mig til að lesa Lundar-Gunnu aftur. Að lesa textann hennar er á við hugleiðslu á æðra plani - eða kannski lægra öllu heldur.
Skrifa ummæli