7.8.06

Fæðingarorlof gert upp.

Best ég tjái mig um fordóma mína, og vanrætingu þeirra, um móðurhlutverkið, fyrstu mánuðina. Ég hálfbjóst við að ég fengi engan svefn í tvö ár, barnið yrði sígrátandi, með í maganum, eyrunum eða einhverju óskilgreindu. Hélt ég yrði stanslaust að setja í þvottavél, allt væri alltaf í drasli og að ég ætti mér ekki líf utan húsverka. Þessutan (og þessvegna) átti ég alveg eins von á að einangrast algjörlega félaxlega og sjá ekki framan í nokkurn utan fjölskyldu minnar á meðan á barneignaleyfi stæði, hið minnsta.

Ekki veit ég hvort þarna er barnafólki sem ég þekki um þessa svartsýni að kenna. Eða kannski mömmu minn? Og líklega á ég mjög auðvelt barn, allavega er varla hægt að segja að Freigátunni Tvítönn hafi orðið misdægurt.

En ég hef jafnan verið sæmilega sofin. Heimilisverkin hafa ekki vaxið neitt sérstaklega mikið, mér hafa reyndar alltaf leiðst þau frekar, en það hefur ekkert versnað. Hvað félaxlífið varðar þá fór ég nú fyrst í leikhús þegar Freigátan var 10 daga gömul, á stjórnarfund í Hugleik daginn eftir, á höfundafund þegar hún var þriggja vikna (og þá kom hún með), byrjaði að leikstýra þegar hún var sex vikna (í stofunni heima hjá mér með barnið á brjósti). Og þar fram eftir götunum. Hef altént ekki fundið fyrir einangrun af neinu tagi. Kynntist meira að segja haug af kjellingum í grindhvalasundinu sem ég er enn að hitta. Félaxlífið hefur nú bara sjaldan verið blómlegra. Svo móðerni ungabarns er hreint ekki sú martröð sem ég hélt.

(Þess má reyndar geta að mínar verstu martraðir um meðgöngu og fæðingu rættust með vöxtum.)

En áður var ég náttlega búin að fá Smábát í forgjöf. Stakk mér beint á hausinn með að ala upp hálffullorðinn einstakling. Og mér finnst það nú eiginlega líka vera að ganga vonum framar. Vissulega fæ ég stundum taugaveiklunarköst yfir uppeldinu. Rannsóknarskipi finnst ég stundum vanda fyrir mér málin með óþarfa áhyggjum, en hann ætti nú bara að sjá inn í hausinn á mér þegar ég obsessa yfir uppeldismálum. En Smábátur hefur mjög húsverkandi áhrif á mig. Hann kom heim í dag, og ég er búin að húsverka þvílíkt. Ég er jafnan latari þegar hann er í útláni.

Semsagt, eiginlega frekar ísípísí, og þar að auki gaman. Börnin mín eru æði. Svo ekki sé minnst á Rannsóknarskip, sem er auðvitað í sérflokki og gerir þetta að sjálfsögðu alltsaman svo dásamlegt, auðvelt og lovlí.

Og á morgun er vinna. Fæðingarorlof eru ekki jafnlöng og maður heldur.

Engin ummæli: