24.8.06

Orton

Þá hefur Rannsóknarskip hafist handa við það sem hann hefur verið að hóta frá því að við felldum hugi saman. Hann hefur nefnilega alltaf saxt ætla að Ortona mig. (Nei, það er nú ekki jafn dörtí og það hljómar.)

Forsagan að þessari athöfn er sú að maður nokkur hét Joe Orton. Hann átti kærasta, hann Halliwell, sem hafði árum saman barist við að reyna að meika það sem leikskáld. En ekkert gekk. Svo skrifaði Orton eitt leikrit, og það svínvirkaði og hann varð geðveikt frægur og skrifaði fleiri og varð frægari og frægari en vesalings Halliwell sökk bara lengra og lengra í gleymskunnar dá, svo það endaði með því að hann drap Orton með hamri í öfundarkasti. (Og sjálfan sig á eftir, ekki með hamri.)

Tekið skal fram að það er bara Rannsóknarskip sem ætlar að Ortona mig. Ég hef engan hug á að Halliwella hann, sma hversu heimsfrægur hann verður.

Allavega, Rannsóknarskip er búinn að skrifa eitt, lítið og sikk, stuttverk, og sat fram á nótt við að skrifa eitthvað annað. Nú má maður semsagt fara að passa sig. Ég ætla nú samt ekki að leggja árar í bát, heldur láta hendur standa fram úr ermum og plögga. Nú fara nebblega að hefjast æfingar á leikriti eftir mig hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs sem verður hluti af þessu. Svo er líka eitthvað nýtt að brjótast um í hausnum á mér sem ég veit ekki hvar endar.

Og svo börnin.

Freigátan er aðeins farin að ferðast, er m.a. búin að finna óperur föður síns. En hann geymir heilan haug af þeim á geisladiskum í hillu niðri við gólf. Þessa gripi athugar Freigátan mjög vandlega þessa dagana, en er merkilega lítið að smakka á þeim. Það er meira eins og hún sé bara að flokka þá markvisst. Í gær tók hún til dæmis eina óperu eftir Monteverdi og faldi hana vel undir teppi. Vildi sennilega koma í veg fyrir að hún lenti í spilaranum.

Smábátur er byrjaður í skólanum. Hann hefur huxað sér að vera fyrirmynd annarra barna í einu og öllu þennan veturinn og byrjar m.a. að læra ensku. Það kemur nú sennilega til með að verða honum fáránlega auðvelt þar sem hann hóf sína skólagöngu fimm ára gamall í Liverpool. Hann hefur einnig hafið leikritaskrif, auk þess sem ég held að verið sé að athuga hann í að leika í einum einþáttungi í vetur. Þar að auki er hann að fara að halda áfram píanónámi sem hann var í fyrir norðan og sóttist einstaklega vel. Smábátur ætlar semsagt hreint ekki að verða öðrum fjölskyldumeðlimur neinn eftirbátur í listiðkununum.

Já, ég er frekar montin af krökkunum mínum, þessa dagana. En stundum verð ég ógurlega hissa. Ég á nefnilega fjölskyldu! Ég held ég hafi aldrei reiknað með því. Svo það er ánægja sem enn er að koma mér á óvart.

1 ummæli:

Varríus sagði...

Það skyldi þó aldrei verða að drengurinn ortonaði ykkur bæði. Slægi sumsé tvær flugur í einu höggi.

Gott orð.