25.9.06

Bátar

Ég er landkrabbi. Meira að segja svo mikill landkrabbi að maður úr miðjum Bandaríkjunum hefur kallað mig landkrabba. Þess vegna veit ég ekki baun um skip eða báta. (Sem er fyndið í ljósi þess að ég er búin að giftast Rannsóknarskipi og bátkenna alla fjölskylduna mína.) Þess vegna er hálfgerð sóun að ég skuli hafa útsýnið sem ég hef úr stofuglugganum mínum. Það snýr yfir smábátahöfnina og slippinn, og það gáfulegasta sem ég get nokkurntíma haft um það að segja er: Nei, sko. Þarna er bátur! Svo er ég nýbúin að fatta uppá hvað það er miklu sniðugra að hjóla hafnarbakkann en Tryggvagötuna í vinnuna. Þó ég sé jafn fákunnandi um bátana þar og í smábátahöfninni.

En á föstudaginn sá ég nokkuð merkilegt. Nefnilega grátt skip með einhverju á sem leit út eins og fallbyssa. Og DANSKA fánanum! Í dag var sama skipið í höfninn, og nú var komin þyrla á dekkið. Mig grunar að Danir séu búnir að bíða í öll þessi ár eftir að ammríska hernáminu linni og ætli nú að koma aftur, með einokun og dönskuslettur. Ætla sennilega bara að bjóða okkur þyrlur og halda að málið sé dautt.

Annars er ég miðaldra í dag. Mig langar í hillusamstæðu.

8 ummæli:

fangor sagði...

ef þú ert fyrst núna að registera hið mæta herrannsóknarskip dana vædderen sem á hér viðkomu á sirka hálfs mánaðar fresti og hefur gert amk síðustu tvö árin, þá já, þessu útsýni er sóað á þig! :þ

Sigga Lára sagði...

Sé það ekki heiman frá mér. Bara þegar ég hjóla hafnarbakkann.

Ásta sagði...

Því má við bæta að ég bar þetta ágæta skip reglulega augum þegar ég stundaði vinnu í Tollhúsinu.

Sigga Lára sagði...

Ok. Brandarinn er opinberlega dauður. ;-)

Spunkhildur sagði...

Hér ættu aldrei að sjást dönsk skip.

Nafnlaus sagði...

Held að Vædderen hafi stungið stafni mjög svo reglulega inn í Reykjavíkurhöfn síðan ég flutti til borgarinnar og ábyggilega lengur. Þú ert sennilega haldin skipablindu eftir óheilbryggt landkrabbauppeldi, fjarri sjó og til að breiða yfir þetta, bátkennir þú fjölskyldu þína. Það að þú viðurkennir þetta þýðir vonandi að þú sért farin að vinna í þínum málum. Annars eru bátar ekkert merkilegir.

Sigga Lára sagði...

Veddarinn er bara búinn að vera alltaf að gá hvort Kaninn sé ekki að fara. Nú sér hann sér leik á borði. Við verðum komin innundir dönsku krúnuna aftur áður en við vitum af!

Nei, ég er haldin því heilkenni að þykja sjó og báta bara ekkert flottari en skóg og kletta, til dæmis. Útsýnislega séð.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir að benda mér á öll þessi skip. Ég vinn við Tryggvagötuna ... en nei ... ég var nú hreinlega bara ekki búinn að taka eftir þessu.