21.12.06

Gullmolar

Í gær fórum við í IKEA. Það var aðallega Freigátan sem verslaði. Fjárfesti hún í einhverjum hirslum undir veraldlegar eigur sínar og einni flensu. Hún var því með 39 stiga hita í dag og ég var heima að halda á henni í staðinn fyrir að fara í vinnuna. Seinnipartinn var Rannsóknarskip í áhaldinu meðan ég fór í Smáralindina í fárviðrinu og eyddi mannskemmandi fjárhæðum í jólamat og gjafir. Það var gaman.

Gullkorn undanfarinna daga eru í boði Smábáts:
Á leiðinni heim úr IKEA fór Rannsóknarskip að láta ófriðlega, eiginlega að hætti félaganna Bívisar og Böttheds, við undirleik Eminems. Smábáti þótti ómaklega að sínum manni vegið. (Þ.e.a.s., undirleikaranum.) Eftirfarandi samtal átti sér stað:

Smábátur: Hvað ertu eiginlega að gera?
Rannsóknarskip: Ég er að vera unglingur.
Smábátur: (Þurrlega) Voru unglingar svona í þinni tíð?

Áðan vorum við að horfa á Geimtíví. Þar klikktu umsjónarmenn út með því að hvetja menn til að spila úr sér augun um jólin. Þetta fannst okkur fyndið. Smábáti þótti nú samt rétt að taka fram að hann ætlaði ekki að gera það.

Ég: Eiga menn ekki líka bara að fá ferköntuð augu af því að glápa of mikið.
Smábátur: (Eftir nokkra umhugsun.) Af hverju eru sjónvörp þá ekki bara höfð augnlaga?


2 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Hahaha, hann er fyndinn :-D

Nafnlaus sagði...

Hann er spakur drengurinn.