12.9.07

Karma

Af ástæðu sem ég ætla ekki að nefna (til að forðast meiðyrðamál) get ég ekki sagt að ég hafi lært bókmenntasögu né bókmenntaritgerðir í BA náminu. Sem á þó að vera algjör skylda. (Hlustaði í staðinn á samhengislaust röfl um að þessi fög væri ekki hægt að kenna auk einhvers kjaftæðis um hesta og hófa og múrsteina og lím. En förum ekki nánar út í það.)
Fyrir skemmtilegheit örlaganna er ég síðan núna annars vegar að taka þátt í að setja saman safnrit sem á að verða kennslubók í Bókmenntasögu (sem engum á að verða skotaskuld úr að kenna) og svo er ég að taka námskeið sem heitir Ritstjórn og fræðileg skrif sem fjallar um, jú mikið rétt, samsetningu fræðilegra ritgerða um hvað sem vera vill. Núna, 10 árum síðar, er alveg að fara að verða að marka BA gráðuna sem ég er búin að vera að þykjast vera með.

Mér finnst ég ekki vera í sama háskóla og mér hálfleiddist í hérna áður fyrr. Það var óvart smá bil í hádeginu og ég skrapp í Odda og lærði smá á kaffistofunni. Það var fullt af fólki þar og svo komu tvö pör og sýndu búgívúgí, sem átti einmitt að hefjast námskeið í um kvöldið.
Ég varð þungt huxi.

Mikil djöfuls svakaleg gelgja hef ég nú verið þegar ég var í BA-náminu mínu. Í þá daga hefði ég umsvifalaust afgreitt þessi tvö indællega útlítandi pör sem dönsuðu á kaffistofunni sem "venjuleg" og líklega fitjað upp á allt andlitið. Sett undir mig hausinn og haldið áfram að tala ekki við neinn. (Núna myndi mig dauðlanga á þetta námskeið, með Rannsóknarskipi, ef ég væri ekki svona bandólétt.) Ég skoðaði strákana sérstaklega. Með mínum miðaldra og harðgiftu augum sem líta núna unga karlmenn frekar augum tilvonandi tengdamóður en nokkuð annað, virtust þetta eigulegustu menn. Sætir og skemmtilegir með fjölbreytt áhugamál.

Siggu Lárunni í BA náminu hefði þótt þeir vera öjlar. Þessi leðurklæddi og skítugi sem sat með fyrirlitningarsvip úti í horni og skalf af brennivínstremma hefði hins vegar líklegast virkað alvarlega spennandi.
Það er líklega kominn tími til að játa. Ég var fáviti þegar ég var yngri.

Líklega er ég það ennþá, sé það bara seinna. En ég vona að ég sé eins og viskíið og fara skánandi með aldrinum.

Ég skoðaði fólkið. "Venjulega" fólkið. Ég er löngu búin að fleygja þeirri skilgreiningu út í hafsauga að sumir séu eitthvað venjulegri en aðrir. Hvað þá að fólkið sem ég þekki sé merkilegra/óvenjulegra en annað fólk. Mér finnst maður alltaf komast að einhverju stórmerkilegu og skrítnu um leið og maður fer að tala við fólk. Og þeir sem eru venjulegastir í útliiti koma manni yfirleitt mest á óvart.

Ég held að á BA árunum hafi ég verið alveg stútfull af fordómum gegn næstum öllum. Enda talaði ég næstum ekki við neinn, í öll þau þrjú ár, og passaði mig að sjóndeildarhringurinn víkkaði nú sem minnst.

(Meirihlutann af MA náminu var ég á geðlyfjum. Ég man fáránlega lítið eftir þeim tíma. Þegar ég var að skoða hvaða kúrsa ég hefði tekið rak ég upp stór augu. Suma rámar mig ekki einu sinni í. Í framhaldinu fór ég að reyna að rifja upp annað frá þessum tíma. Hvaða leikrit voru í gangi í Hugleik, til dæmis. Það er í ótrúlega mikilli þoku. Það sama á við um lyfjaða tímann í fyrravor. Mér krossbrá við að átta mig á þessu. Geðlyf eru óminnisgambri andskotans.)

Núna finnst mér háskólinn vera morandi í spennandi fólki og allskyns áhugamálatengdu. Er m.a. búin að fá fjöldapóst frá Stúdentaleikhúsinu. Hefði mætt á upphafsfund á mánudaxkvöldið, hefði ég ekki verið á leikstjórnarnámskeiði,

En nú er komið babb. Þar sem ég vandi mig svona rækilega á að tala aldrei við neinn í gamla daga, þá kann ég ekki að tala við ókunnuga. Sit frekar á kaffistofunni, við borð hjá haug af fólki, sem allt er ókunnugt hver öðru og samt að tala saman, og blogga um hvað mig langar að tala við það.
Þetta kemur kannski.

Best að fara lengst niður í kjallara og fara að horfa á hana Ólínu Þorvarðar sem talar frá Ísafirði.

PS: Lagði mig fram um að tala við fólkið sem var með mér í öllum námskeiðum, í pásunum. Því ókunnugri því betra. Svo talaði ég líka slatta í tímum. Allt að koma.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Djös dugnaður í þér stelpa! Ohh ég öfunda ykkur þessar skólastelpur sem geta haldið heimili, séð um börn og líka verið í skóla! Finnst alveg nóg hér að reyna að láta ekki draslið á heimilinu skríða sjálft og hugsa um 3 skæruliða... jedúddamía ef ég færi nú að bæta við mig skóla líka! Færi örugglega endanlega yfirum! Þú ert sko dugnaðarforkur!!!!!

Fer suður til borgar óttans nk sunnudag og verð í nokkra daga... ef þú veist um einhverjar kaupóðar handavinnukellur þá máttu alveg láta vita af mér... (bloggið mitt) og já ef þú vilt fá mig sjálf í kaffi eða eitthvað er bara að slá á þráðinn :o) Knús frá langtíburtistan :o)

Ásta sagði...

Vissulega lærðum við gagnlega hluti í Bókmenntasögu: við lærðum að allar bækur sækja efnivið sinn í Ódysseifskviðu. Og ekki að sitja of nálægt ónefndum kennara við sósíaltækifæri.

Annars veit ég ekki betur en að þú hafir kynnst a.m.k. einni manneskju á þessum árum... *ræskj*

Sigga Lára sagði...

Jú, tveir eða þrír þóttu nógu svakalega kúl. ;-)
En bara allra fyrst!

Nafnlaus sagði...

Mikið var gaman að lesa þessar endurminningar úr bókmenntafræðinni. Þegar maður sat í tímum og hugsaði um eitthvað annað en það sem var í tímum, vann á kvöldin og um helgar á Lækjarbrekku eða hékk á 22 og reyndi að hanga í síðustu skilum en ekkert meira, þá gerðust svosem engin kraftaverk. Oftast fannst mér ég vera alltof vitlaus fyrir intelleksíuna, skildi ekki háleitu umræðurnar eða var ekki búin að lesa nógu mikið til að skilja - fór alveg til baka í tímanum, mér fannst ég eiginlega ekki læra neitt fyrr en ég fór til Grikklands sem Erasmus stúdent í ár. Þá lærði ég allavegana að skrifa betri ritgerðir, þökk sé Mrs. Pastourmatsi í feminísku deildinni og ritgerðunum í Science fiction kúrsinum sem ég tók. Frábær kennari alveg hreint. Svakalega ófríð og alveg sama um hvað öllum fannst um hana. Og tuktaði mann til ef maður skilaði lélegum texta.
Jáh, those where the days. Takk fyrir að rifja þetta upp fyrir mig elskan mín. Alltaf gaman að lesa skrifin þín.

AgnesVogler sagði...

Æ já, ég fékk líka hvern nostalgíuhrollinn á fætur öðrum ... hornkellingar í kaffistofunni, bókmenntasögutímar sem fóru í að semja ferskeytlur, strangt uppápasselsi að sýnast ekki áhugasamur um neitt sem gæti huxanlega verið ókúl... Langar helst að hætta að vinna og drífa mig aftur inn í þennan unaðsheim!