27.12.07

Jólað og jólapestað

Þá erum við búin að jóla í góðu yfirlæti. Allir voru hinir ánægðustu með jólagjafaheimtur. Ég fékk allskyns og er byrjuð að lesa Harðskafa, Rannsóknarskip var sérlega ánægður með jólabókarflóðið sitt og er farinn að lesa Böðvar Guðmundsson. Freigátan fékk allan heiminn, m.a. tvær dúkkur, teiknidót og slatta af bókum, og það er til dæmis búið að þurfa að lesa bókina "Ég vil fisk!" um 50 sinnum á dag, að staðaldri.

Við heyrðum í Smábáti á aðfangadaxkvöld og lét hann vel af sér í útlöndunum. En það var enn svo snemma kvölds hjá honum að hann var ekkert farinn að vita hvað hann hefði fengið í jólagjafir. Við heyrum aftur í honum um áramótin.

Heilsubrestirnir eltu okkur annars í jólafríið. Eftir að Freigátan hafði hóstað og frísað alla jólanóttina var læknir ræstur út á jóladag, og hún reyndist vera langt komin með að koma sér upp lungnabólgu. Fékk pensilín. Rannsóknarskip var líka eitthvað að lasnast í gær og nú er hann kominn með 40 stiga hita. Vonandi ekki með lungnabólgu.

Móðurskipið er aðallega búið að vera í því að þverbrjóta allar meðgöngureglurnar. Hef raðað í mig salt- og sætmeti, varla drukkið dropa af vatni nema þá í gosformi og ekki hreyft mig meira en algjörlega nauðsynlegt er. Er líka alveg að súpa seyðið af því í brjóstsviða, bjúg og bakverk, en það verður bara farið að vinna í því á ári komanda. Í augnablikinu er það bara alveg þess virði. Reyndar þarf nú svolítið að snúast við sjúklingana, þannig að hreyfingarleysið er ekki alveg jafn algjört og gott væri.

Freigátan er annars að verða ágæt í heilsunni og kannski verður eitthvað hægt að fara með hana út að skoða snjóinn á morgun. Annars var planið að fara norðurum á morgun, en það verður að fara eftir heilsu húsbóndans hvort það skipulag gengur upp. Hann liggur allavega eins og Þolláxmessuskata í dag.

1 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Hæ og hó...ekki gott að heyra af heilsufari familíunnar! Vona nú að þið komist samt norður yfir heiðar fyrr en síðar... er löngu farin að hlakka til að hitta ykkur :) Knús og batakveðjur :)