20.2.08

Heyrðu, góða!

sagði Freigátan við Rannsóknarskip um daginn þegar hann var eitthvað að svíkjast um að lesa fyrir hana þegar hún var hvort sem var hætt að hlusta. Hún er mikil hermikráka þessa dagana, og ótrúlegustu hlutir velta upp úr henni. Oftast þó: "Bíbí kúka" og "Ekki drekka róló." Þessi röksemdafærsla með að ekki skuli drekka úr pollum þar sem fuglar kúki í þá þykja greinilega mikil sannindi og djúp. Um daginn vorum við í Nóatúni og mættum hávöxnum manni með gleraugu. Þegar við vorum komnar framhjá honum og alla leiðina heim sagði hún: "Ekki afi."

Hraðbáturinn er í sínum fyrsta vaxtarkipp. Það þýðir, fyrir óinnvígða, að barnið vill helst liggja á spena allan sólarhringinn, til að auka framleiðslugetu, og kerfið kveinkar sér sem aldrei fyrr. Kosturinn er sá að eftir fyrsta vaxtarkipp verður brjóstagjöf örlítið minna þjáningafull. Fer alveg niður í að verða forgarður helvítis, í stað þess að vera alveg hjá kjötkötlunum. Móðurskipið er annars með hormónatruflanir í dag og er búið að grenja heilmikið út af mörgu, og mest út af engu. Bætir ekki úr skák að vera að lesa Arnaldarbók sem er venju fremur full af vanhirtum börnum og heimilisofbeldi. Er ekki að höndla neitt í þá veru þessa dagana. Held nú samt að vandlega íhuguðu máli að þetta séu hormónar, en ekki fæðingarþunglyndibyrjun.

Ég hef það nefnilega fantagott, gallabuxurnar víkka með hverjum deginum, þurrkarinn kom í hús í gær og heimurinn hefur ekkert farist mikið, þó svo að ég sé með netta taugadrullu yfir verkefnunum sem ég ætla mér að klára fyrir vorið. Bætir þó nokkuð úr skák að ég var rétt í þessu að þróa aðferð við að tölva með barnið á brjósti. Það er tímasparnaður í því.

Fór líka áðan í göngutúr út í Nóatún, alveg gjörsamlega ein og barnlaus, í örugglega 20 mínútur! En það er nú líklega mesti lúxus sem maður sér fram á, á þessu ári. ;-)

Nú stendur yfir píanóæfing hjá Smábáti, svo við sónötuundirleik eru Freigáta og Rannsóknarskip að "skjóta". Það heitir leikurinn þegar menn eru inni í herbergi Smábátsins og skjóta pílum úr pílubyssu sem hann á, á baðherbergishurðina. Þær eru með svon sogblöðkum á og festast á hurðina. Leikurinn fer þannig fram að Rannsóknarskip skýtur og Freigátan trítlar og týnir upp pílurnar og færir honum þær. Þetta er svo vinsælt að þetta er orðið vinsælla en að púsla, og er þá mikið sagt. Og ekki var lítið fyndið um daginn þegar Móðurskipið var á leiðinni út af baðherberginu og það var næstum búið að skjóta það í hausinn. Lahangt hláturskast þar...

Engin ummæli: